Kær vinkona

Hef að undanförnu verið að fá skelfilegar fréttir.

Kær vinkona sem ég kynntist vegna þess að við vorum og erum í svipaðri baráttu, var flutt nær dauða en lífi á sjúkrahús. Ónæmiskerfið var hrunið - sjálfsagt vegna andlegs álags. Læknarnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð í langan tíma. En vonandi stendur það allt til bóta.

Við höfum oft spjallað saman. Um þau mál sem við höfum farið í gegnum. Hversu keimlík þau eru. 

Þessi yndislega ljúfa kona er niðurbrotin. Hún er í bænum mínum núna.

Hún hefur sem betur fer kærleiksríkt fólk í kringum sig. Aðstoð og umhyggju. Fólk sem skilur ástandið. Ég veit að hún mun ná sér og öðlast kraft aftur. Þessi kraftmikla, gáfaða og fjölhæfa kona.

Þessi kona hefur líkt og ég barist við kerfi sem ekki virkar. Tekið svipuð spor. Án mikils árangurs.

Er í felum með börnin sín og fjölskyldu - þar sem kerfið bregst þeim.

Vegna þess að menn sem geta sýnt af sér ótúlegar hliðar gagnvart konum og börnum, geta verið ótrúlega sjarmerandi og sannfærandi útávið. Og hafa oftast allan stuðning sinnar eigin fjölskyldu.

Englum líkir útávið.

En mæðurnar sem vita betur. Hafa búið við ástand sem ekki er boðlegt. Þekkja viðkomandi - þeim er ekki trúað.

Samt berjast þessar mæður fram í rauðan dauðann. Fyrir því sem þeim er kærast. Börnunum sínum.

Og hver hlustar?

Enginn.

Enginn af þeim sem hefur virkileg völd til að afstýra hættunni og binda endi á þjáningar - ekki bara barnanna heldur þeirra sem elska þau mest.

Ég bið Guð að vernda vinkonu mína og koma henni aftur til heilsu. Kannast vel við það hversu erfitt það er að standa í lappirnar undir svona álagi.

Það skrýtna er að dómsvaldið t.d. ætlast til að við séum tilfinningalaus. Getum gengið í gegnum svona erfiðleika brosandi og án þess að nokkuð fari úr skorðum. Annars erum við komnar á óhæfilistann. Mögulega.

Í lögum er ekkert til sem heitir mannlegar tilfinningar, álag, niðurbrot.

Það gerir þeim auðveldara sem í raun hafa ekki mannlegar tilfinningar. Því þannig fólk brotnar síður niður. Getur haldið áfram í það óendanlega á tilfinningaleysi sínu. Það er þeirra sterkasta vopn gagnvart þeim sem bera ást í brjósti og hafa tilfinningar.

Og þeir vita það.

Þeir spila á það.

Það er með ólíkindum að menntað fólk eins og sálfræðingar - sjái ekki það augljósa. Enda eiga þeir að dæma um fólk sem það þekkir ekki neitt á ótrúlega skömmum tíma. Skila svo frá sér sálfræðimati fyrir dóm sem byggir í raun ekki á neinni þekkingu um fólkið sjálft. Og það er tekið fram yfir þá sem vita betur.

Hvernig getur sálfræðingur eða félagsfræðingur fengið barn til að treysta sér eftir einn til tvo viðtalstíma?

Og ef barnið segir eitthvað - þá er því jafnvel ekki trúað. Eða sannanir ekki nægar til að hægt sé að taka það trúanlegt.

Þetta er í raun níðingsskapur á litlum börnum. Að gefa þeim ekki allan vafa. Vernda þau ekki fyrir því sem þau hræðast. Á grundvelli ónægra sannanna.

Börnin ættu alltaf að njóta vafans.

Öðruvísi réttarkerfi er bara ekki að virka.

Þessi pistill er skrifaður fyrir mína kæru vinkonu. Ég bið ykkur og Guð að hugsa til hennar.

Vona að ég komi ekki til með að brotna á þennan hátt - en hversu lengi er hægt að berjast án þess að brotna?

Mínar bænir eru til þín kæra vinkona.

 


Skrítinn draumur

Stundum vildi ég að ég væri þeim hæfileikum gædd að geta ráðið drauma. En er það því miður ekki...

Í vikunni dreymdi mig fjarskalega skrýtinn draum sem ennþá nokkrum dögum síðar er alveg ljóslifandi í minningunni.

Mér fannst ég vera í tjaldútilegu. Tjaldsvæðið var við hliðina á stóru og fallegu hóteli í flottari kanntinum. Það voru þrír rauðir turnar sem gnæfðu efst á því. 

Allt í einu dregur ský fyrir sólu og það brestur á þessi svakalegi stormur. Í einni vindkviðunni sveigjast turnarnir líkt og þeir væru úr þunnu efni. Síðan byrjar hótelið að liðast sundur og hrynja. Fyrst hægri hliðin sem fellur frekar fjarri tjaldbúðunum. En síðan fer miðbikið að láta undan og hrynur yfir tjaldsvæðin. Ég átti fótum fjör að launa en náði að komast undan með börnin. En hvernig byggingin gjörsamlega hvolfdist yfir okkur var svo raunverulegt.

Gífurleg rigning fylgdi storminum og fólk var í óða önn við að koma sér í báta, burtu frá hamförunum. Ég komst í bát ásamt börnunum og pabba (sem er látinn) og það var silgt með okkur eftir göngum þar til við komum að höfn. Þar fórum við öll í gríðarstórt skip sem sigldi með okkur til Reykjavíkur.

Pabbi labbaði fyrstur um borð og þegar við vorum komin á áfangastað heilu og höldnu, þá kvaddi hann og fór með skipinu til baka. Ég vissi að ég sæi hann ekki aftur, en að honum liði vel.

Þar með endaði draumurinn.

Merkilegt hvað sumir draumar eru pikkfastir í hausnum á manni. Fannst þessi svo sérstakur að ég ákvað að geyma hann hér og deila með ykkur.


Ég er "bara" mamma og hef engan rétt.

Í okkar veröld hafa yfirvöld allan rétt yfir börnunum okkar. Ekki við mæðurnar, jafnvel þó svo við höfum forsjá barnanna og berum þær skyldur að verja þau fyrir alls kyns ofbeldi og virðingarleysi samkvæmt barnalögum.

Mitt litla barn hefur verið duglegt og tekið því sem taka þarf. Samkvæmt lögum.

Því hennar orð gilda lítið.

Eitthvað meira en venjulega hefur samt komið upp nýlega. Barnið fór að tjá sig um að það væri öskrað á hana og kýlt í hana af föður sínum.

Með mína vitneskju tók ég að sjálfsögðu barnið trúanlegt. Og hún sagði þetta fleirum.

Ég tók þá ákvörðun að láta hana ekki frá mér að svo stöddu.

En einn daginn kom faðir hennar, ruddist inn og tók barnið grátandi í burtu.

Lögregla og barnavernd gátu ekkert gert að svo stöddu. En báðum aðilum var brugðið. Fengu engu að síður ekki heimild til að ná í barnið þann daginn. Ákveðið ferli yrði að eiga sér stað.

Mér fannst ég hafa brugðist telpunni minni. Hef reynt að nálgast hana áður en er borin ofurliði - veit það vel.

Það er ekki eins og ég eigi í baráttu við föðurfólkið. Er bara að verja hagsmuni barnsins og taka tillit til hennar. Það líta það ekki allir sömu augum.

En það var vitni að þessum aðförum og ef yfirvöld hundsa svona uppákomur (sem er ekki í fyrsta skipti) þá er verulega eitthvað að.

Ég hef tuldrað Æðruleysisbænina síðan þetta gerðist - því miður er það ekki alveg að virka.

Sem móðir get ég lítið gert vegna þess að ég hef ekki næga krafta til að yfirbuga föður hennar. 

Ég þarf að bíða eftir yfirvöldum. 

Enda vil ég ekki særa barnið mitt með því að þurfa að horfa á svona illindi trekk í trekk. Tek ekki þátt í svona ofbeldi.

Föðurfólkið má eiga það við sig hvernig framkoman er gagnvart barninu. Bara til að sýna vald sitt og stjórn.

Í þágu barnsins?

Vissulega ekki.

Ég bið Guð að passa litla barnið mitt uns þessu líkur. Ef þessu líkur þá einhverntíma - því það er ekki á mínu valdi. Það er orðið augljóst.

Samkvæmt lögum ber mér að vernda hana - en samkvæmt sömu lögum fæ ég ekki aðstoð til þess.

Hér er pottur brotinn.

 


Spurning til ykkar

Í kvöld sá ég svolítið alveg nýtt.

Litla telpan mín er farin að sjúga á sér þumalinn - fimm ára. Hef aldrei séð það áður.

Var ekki með henni til að svæfa hana, þurfti að sinna öðru. Hefur ekki verið mál hingað til.

Hún tekur ákveðin leikföng og má ekki skilja við þau, þá fer allt í upplausn.

Ég lít á þetta sem síaukið óöryggi.

Ég bið Guð að enda þessa baráttu.

 


Ónýtt kerfi

Það geta fæstir efast um að ég þekki vel til skapgerðar míns fyrrverandi. Hef séð allar hliðar. Allt frá geislandi kæti yfir í ólýsanlega reiði.

Það skín úr augunum.

Ljómi sem getur fengið mann til að dilla af kæti - eða reiði og hatur sem getur fengið mann til að skjálfa af ótta.

Þetta er samt ekki illur maður í hjarta sér. Hann á margar góðar hliðar líkt og flestir. Góðu hliðarnar mjög yndislegar. Þær sem ég elskaði af öllu hjarta.

En svo kemur stjórnleysið - hamsleysið sem hann virðist ekki ráða við.

Reyndar er ég ekkert mjög hissa. Ég hef kynst því umhverfi sem hann ólst upp við. Yfirgengilegri frekjunni og stjórnseminni. Öskrunum og látunum.

Sem síðar er svo falið í sýndarmennsku. Sýndargóðmennsku og gæðum. Sem er í raun ekkert annað en ofurstjórnun. Heimting á algerri dýrkun og hlýðni. Oftast fengið fram með "stuðningi" þá helst fjárstuðningi.

Síðan er kvartað undan hversu erfiður þessi "stuðningur" sé. Jafnvel gert lítið úr viðkomandi. Það er ekki góðmennska.

Útávið á allt að virðast fullkomið. En það er stutt í kvikuna - stutt í óhljóðin.

Sumir virkilega trúa því að þetta sé "góð fyrirmynd og gott uppeldi" en ekki sá sem þekkir. Það er auðvelt að láta blekkjast af fólki sem hagar sér svona - gagnvart sínum nánustu, en ekki útávið.

Það blekkti mig aldrei.

Mig undraði aldrei að hann skyldi sökkva í undirheimana á sínum tíma. Með þetta heimilislíf.

Það sem ég gerði rangt var að halda að honum væri batnað og hann skynjaði þetta sjálfur. Stundum virtist hann gera það - talaði um þetta uppeldi. Talaði jafnvel um að það væri ekki bjóðandi börnum.

En svo er alltaf hlaupið til baka - í þetta eina "skjól" sem hann þekkir. Og þá er allt gleymt - þá má bjóða hans börnum upp á það sama. Ef það hentar honum. Frekar að segja ósatt en að fá ekki sínu framgengt. Það er reglan. Lærð hegðun.

Ég vil þetta ekki fyrir barnið mitt. Barnið vill það ekki heldur. Biður um að þurfa ekki að eyða öllum þessum tíma á þessu heimili. Sama heimili og átti þátt í hans skemmdum. Öskrunum. Stjórnseminni.

En þar er ekkert gefið eftir. Nú er þetta orðið teymi sem berst saman á móti mínum óskum. Óskum sem eru einungis fyrir barnið mitt.

Og hvað gerir kerfið?

Ekkert.

Þó svo faðirinn hafi aldrei sýnt fram á að geta séð um sjálfan sig - hvað þá barn. Það er ekki skoðað. Hver skyldi hafa séð fyrir honum mest hans líf?

Aldrei hann EINN - það þurfti alltaf stuðning. Ef ekki foreldra, þá kvenmanna. Sem entust illa.

Að sami aðili og sagði við mig fyrir brúðkaupið " þú veist að það er ekki í lagi með hann" segi í skýrslu fyrir dómstóla að hann "geti vel hugsað um barn". Það þykir mér athyglivert.

Ekki það að hann geri það - heldur ÞAU!

Barnið biðst vægðar - að þurfa ekki að vera of mikið í þessu umhverfi.

Hver hlustar?

Enginn.

Nema ég.

Hún mun á endanum standa upp og berja í borðið. En hvað þurfa að líða mörg ár? Og hversu mikið þarf henni að líða illa þangað til.

Ég hef djúpa fyrirlitningu fyrir svona fólki. Sem hugsar meira um eigin hag en barnanna. Hvað ÞAU vilja umfram hvað barnið vill.

Djúpa fyrirlitningu.

 


NEI - svona gerir maður ekki!

Hún er fimm ára lítil yndisleg telpa.

Lítil telpa sem því miður hefur þurft að ganga í gegn um ýmislegt. Vera tekin burt af heimili sínu vegna bræði föður - í þrígang.

Hef ekki gaman af því að standa í stríði, enda á ég önnur yndisleg börn með góðum og ábyrgum föður. Manni sem ég mundi aldrei setja útá, enda hefur hann engan vegin til þess unnið. Bara góður maður - góður faðir.

Hvað litlu telpuna mína varðar - þetta er komið gott. Í almáttugs bænum - hættu að láta hana þjást fyrir þina reiði. Hún hefur þurft að gera það nógu lengi.

Sú litla var í samningsbundinni umgengni hjá pabba sínum. Þar sem eldri systir hennar, sem hún elskar mjög, er að fara erlendis með sínum föður - þá spurði ég pabba þeirrar litlu hvort það væri möguleiki að þær gætu hist áður en sú eldri færi. Líka af því að ég - móðirin ætti afmæli.

Vissi samt ekki hvernig eða hvenær.

Hafði samband við hann í dag. Eiginlega vegna þess að ég þarf að henda ísskáp sem er upphaflega hans. Vildi formlegt leyfi. Sagði í leiðinni að ég vissi ekki hvernig morgundagurin yrði með eldri börnin.

Ég fékk ógeð í hausinn með það sama. Litlan mín búin að kaupa gjafir og pakka þeim inn. 

Að sjálfsögðu sagði ég að þá mundi hún auðvitað koma, ég mundu fá systur hennar til að fera til staðar. Við myndum þá gera eitthvað skemmtilegt. 

Ég talaði aldrei um Þetta við barnið.

En þegar faðirinn hringdi hingað - arfaillur - þá fékk ég að tala við þá litlu.

Hún tilkynnti mér það að hún væri að fara með pabba sínum til útlanda næsta sumar.

Ha?

Hann greip af henni símann og sagði að hann hefði talað um að fara með hana til Danmerkur eftir ár - í Legoland, tívólí og fleira.

Líkt og hann sagði henni að hann ætlaði að kaupa mótorhjól með hliðarvagni fyrir hana.

Núna sagði ég STOPP.

Hættu að tala um og vekja væntingar fimm ára barns á þennan hátt - það er ekki fallegt.

Þess utan treysti ég þér ekki til að fara með hana erlendis - hún fær ekki vegabréf nema að ég skrifi undir það.

Hvað gerðist!

Fyrst var mér hótað að hún fengi ekki að koma til mín með pakkana sína eins og henni var lofað.

Ég bað hann um að láta ekki sína reiði bitna á barninu.

Það næsta sem gerðist var að hann sagðist vera að koma með barnið. Núna strax. 

Ég gat ekki stoppað það - hann var mættur. Með litlu telpuna okkar. Settist inn í stofu og heimtaði að ég skýrði út fyrir barninu af hverju hann fengi ekki að fara með hana erlendis - eftir ár.

Sú litla var búin að fá að heyra það. Að ég ætlaði að koma í veg fyrir utanlandsferð og Tívolí með pabba sínum. Og nú var hann mættur til að beita barninu fyrir sér. Ég skyldi gjöra svo vel að útskýra fyrir fimm ára barni - af hverju ég væri ekki búin að samþykkja utanlandsferð sem var búið að tala um við hana (ekki mig) eftir ár.

Eldri dóttir mín átti ekki til orð. Var vitni að þessu öllu. Sú litla var dregin hér inn - og út aftur. Sjálf reyndi ég að gera lítið úr þessu. Tók barnið í fangið, brosti og sagði við hana - þegar hún sagði við mig að hún mundi breyta mér í frosk ef hún mætti ekki fara með pabba sínum, hvort hún vildi að ég yrði grænn eða bleikur froskur.

Þetta er ein hlið af andlegu ofbeldi.

Að koma æðandi með lítið barn og beita því fyrir sig. 

Og í hvaða þágu - barnsins?

Nei - örugglega ekki.

Svona gerir maður ekki.

 


Svolítið um lífið

Lífið er sérstakt. Það er gjöf sem við eigum að þakka fyrir.

Það kemur fyrir að okkur finnist lífið leika okkur grátt. Einkum þegar við erum döpur, söknum og líður ekki vel.

Samt eru þetta ekki með öllu neikvætt.

Við verðum döpur af því við kunnum að gleðjast en eitthvað veldur okkur sorg. Það er vegna þess að við eigum til væntumþykju. Við söknum af því að við kunnum að elska og gefa af okkur. Við söknum þess sem okkur þótti vænt um eða skapaði gleði.

Oftast eru erfiðar og sárar tilfinningar til staðar vegna þess að við þekkjum fallegu og góðu tilfinningarnar. Það gerir okkur mannleg og góðar manneskjur.

Það hlýtur að vera erfitt að vera sá sem breiðir yfir eða afneitar þessum tilfinningum. Þær eru nefninlega oftast sprottnar af ást og umhyggju.

Aðrir velja kannski reiði og biturð. En það er engum hollt að dvelja við þær tilfinningar.

Njótum þess að vera til - lífið getur verið svo fallegt og gott.

Eftir nóttina kemur nýr dagur.

Og lífið heldur áfram.


Stuðningurinn við sjálfsafneitunina

Mér blöskrar.

Það er til félag sem kallar sig "félag um foreldrajafnrétti" áður félag einstæðra feðra ef ég man rétt.

Þarna hópast inn m.a. feður sem telja sig vera sviptir sínum réttindum af ástæðulausu. Fullkominn félagsskapur fyrir þá sem eru í fulkominni afneitun.

Kannski eiga einhverjir um sárt að binda - eflaust. Konur geta verið jafn svakalegar og karlmenn.

En að maður sem er í fullkomnu sambandi við barn sitt og hefur það reglulega hjá sér sé að rífa sig á svona vef get ég ekki skilið. Þó svo hann geti ekki séð fyrir hvorki sér né barninu, heldur láti foreldrana um það.

Slíkt getur talist tímabundið - en í sumum tilfellum hefur sýnt sig að það er ekki tímabundið. Fólk hefur fortíð sem í flestum tilfellum má horfa á sem ákeðið lífsmunstur, sé ekkert að gert. En sumir sjá ekkert óeðlilegt við það að hrekja frá sér alla sem þykja vænt um viðkomandi með illsku, sjálfselsku, ofbeldi og leiðindum.

Síðan þegar viðkomandi er kominn út í horn vegna eigin hegðunar - þá er flótti. Heim til mömmu.

Ótrúlegt. 

Þegar ég átti í minni baráttu þá leitaðist ég eftir að fá lögregluupplýsingar. Það eru persónulegar upplýsingar sem ekki er auðvelt að fá. Samt lennti ég á náunga sem skoðaði málin í kjölinn og án þess að gefa neinar beinar upplýsingar (en hvatti mig til að fá dóm til að gera það) sagði hann að þessi aðili hefði ekkert með of rúma umgengni að gera miðað við þær upplýsingar sem lögreglan hefði.

En - halló. Hvernig virka lögin fyrir börnin okkar á Íslandi? Þau virka ekki.

Persónulega væri ég alsæl með ábyrgðarfullan og góðan föður. Enda eiga tvö barnanna minna slíkan og þar er samvinna. Tillit tekið til barnanna umfram allt.

Svo kemur það litla. Þar er barátta sem ég get ekki skilið. Enginn hefur heft umgengni. En maðurinn er ekki að sjá um barnið sjálfur heldur lætur aðra gera það. Það hefur aldrei verið gott samband við fyrrverandi maka, aldrei verið stapílt heimili, alltaf vesen - og er það enn. Hver verður framtíðin?

Nákvæmlega sú sama.

Þess vegna er um að gera að skrá sig í félag um foreldrajafnrétti og rífast og skammast, meðan mamma borgar reikningana. Eins og venjulega. Þar til næsti hringur verður tekinn sem kannski varir í tvö ár þar til allt fer upp í loft.

Fyrirgef - ég bíð ekki barninu mínu upp á annan hring - þessi eini sem við fengum var alveg nógu slæmur.

Komið gott.

En endilega að skrá sig í félag til að svala afneituninni.

Það hjálpar veikum örugglega veikum sálum.

En ekki börnunum.


Það sem ekki varð

Á síðustu árum hef ég talað við margar konur og viðað að mér lesefni. Helst tengist þetta því að lenda í erfiðu, jafnvel ofbeldisfullu sambandi og hvernig áhrif það hefur á mannssálina.

Undantekningarlaust var viðkomandi niðurbrotinn á endanum. Vinnan sem við tók var ströng og erfið - stundum nánast óyfirstíganleg á köflum.

Það sem mig langar til að fjalla um í dag eru tilfinningarnar. Hvernig þær geta verið óraunhæfar fyrir þá sem eru áhorfendur. Óskiljanlegar.

Fólk sem ekki hefur lent í svona aðstæðum getur ekki skilið af hverju aðrir festast í þeim. Oft hefur maður verið spurður "Er þetta það sem þú villt? Villtu láta koma svona fram við þig? Villtu vera með einhverjum sem þú getur ekki treyst? Villtu láta tala svona niður til þín?

Í öllum tilfellum er svarið "Nei".

En af hverju fer viðkomandi þá ekki? Hvað tefur? Það er parturinn sem fæstir skilja.

Það geta verið margar ástæður, eða bland af mörgum.

Sumir eru hræddir. Hræddir við afleiðingarnar, jafnvel hræddir við að standa á eigin fótum. Aðrir eru ennþá fastir í þeirri vonlausu trú að þetta komi til með að lagast. Vilja ekki sundra fjölskyldunni. Gefa alltaf annan séns.

Algengasta ástæðan er samt sú að þegar einhver hefur orðið svona mikið vald yfir manni er fjári erfitt að brjóta sig frá því. Maður hefur setið og staðið eins og hlýðinn hundur, tiplað á tánum, reynt allt til að gera hlutina betri. Ofurseldur þessu valdi sem gjörsamlega stjórnar þér.

Það er sagt að það taki tvö ár að jafna sig eftir venjulegan skilnað - en mun lengri tíma að jafna sig eftir skilnað við svona kringumstæður. Þessar kringumstæður eru nefninlega eins og eiturlyf. Þær taka yfir allt þitt líf - þig.

Í upphafi sambandsins var maður blindaður af heitri ást. Ást til einhvers sem var sjarmerandi, þekkti réttu orðin og bar þig á höndum sér. En á sama tíma var stjórnsemin byrjuð án þess að maður yrði var við það á þeim tíma. Maður mátti ekki gera þetta og hitt þar sem aðilinn elskaði mann svo heitt. Hafði jafnvel (að eigin sögn) lent í aðstæðum sem gerðu að verkum að hann þyldi ekki svona framkomu eða aðra. 

Smám saman er maður farin að hlýða þessari stjórnsemi án þess að átta sig. Maður gefur sig allan í þetta samband sem maður trúir að vari að eilífu og verði hamingjuríkt. Vegna þess að maður hefur þann góða eiginleika að geta elskað.

Síðan byrjar sjarminn að nuddast af. Fyrst af og til, síðan æ oftar. Að lokum áttar maður sig á að maður er staddur í helvíti. Stjórnsemishelvíti þar sem allt er notað til að halda stjórninni. Hvað sem er.

Engu að síður er ástin kannski ekki slokknuð - en hún er vond fyrir mann. Þegar hún loksins dvínar eru margir ástfangnir af draumnum um hvernig þetta átti að verða, en varð ekki. Ástfangnir af tálsýn sem var ekki raunveruleg. Ástfangnir af væntingunum. Voninni um gott og fallegt fjölskyldulíf.

Það er nefninlega erfiðast að sleppa því sem maður varð ástfanginn af í upphafi en tengist ekkert raunveruleikanum. En fyrir okkur sem gengum inn í þessa tálsýn var þetta raunverulegt í upphafi. Jafn raunverulegt og þau sambönd sem ganga vel við aðila sem eru heilbrigðir.

Þarna er mesta sorgin og söknuðurinn sem þarf að komast yfir. Ásamt svo mörgu öðru.

Svona sambönd verða aldrei gerð upp. Viðkomandi getur aldrei viðurkennt framferði sitt við fórnarlambið. Sambandsslitin verða alltaf gerð eins erfið og hægt er. Jafnvel með hótunum um hættur í hverju horni. Börnin munu verða notuð sem vopn. Það er eðli þessara einstaklinga. Okkur verður haldið í stjórnseminni eins lengi og hægt er. Trúið mér - það er ekki auðvelt að brjóta sig undan slíku.

Þeir sem hafa lifað í eðlilegu góðu sambandi, eða slitið sambandi við góðan einstakling - eiga erfitt með að skilja þennan mun.

Og ég lái þeim það ekki.


Góðir dagar verða að góðum minningum

Undanfarið hafa góðir dagar verið einkennandi í lífi mínu.

Það er gleðiefni. Þessi góðu dagar verða fallegar minningar.

Án þess að ég geti útskýrt það þá voru "árstíðaskipti" í mínu fyrra erfiða sambandi. Verstu tímarnir voru sumrin (sérstaklega lok júní og júlí) og tíminn í kringum jól og áramót. Það var eins og þeir tímar væru óviðráðanlegir hjá sumum einstaklingum.

Verra var að þetta eru einmitt hátíðistímar barna hjá mér. Afmæli og jól. Litla barnið á einmitt afmæli á þessum, venjulega fallega sumartíma.

Fyrsta afmælið hennar gekk vel en það var líka það eina. Í sannleika sagt man ég ekki eftir afmælum númer tvö og þrjú. Man bara að allt var upp í loft eins og venjulega á þessum árstíma. Hvort 2ja ára afmælinu var ekki sleppt bara - það er eins og mig minni það. Afmæli fjögur var reyndar prýðisgott - eftir ákveðna baráttu. Það kom upp á skiptidegi. Til að geta átt stund með barninu fékk ég frí fyrir hana á leikskólanum og fór með hana og systur hennar í Keiluhöllina. Það var mjög gaman, en því var ekki vel tekið þar sem faðirinn vildi fá hana á hádegi en fékk ekki fyrr en síðdegis.

Nú er fimmti afmælisdagurinn, sá dásamlegasti af þeim öllum - sérstaklega fyrir hana. Ég náði að koma henni á óvart með því að bjóða öllum telpunum af deildinni sem eru jafnaldrar hennar í afmælið. Hún átti von á þrem vinkonum sem hún var alsæl með, enda aldrei kynst alvöru barnaafmæli fyrir sjálfa sig. En þær komu heilar níu og gleðin skein úr litla andlitinu. Þetta var líka í fyrsta skipti sem hún átti afmælisdag á leikskólanum, sem var líka mjög sérstakt.

Ekki var það verra að við áttum yndislegan sólríkan sumardag í gær og eyddum honum í garðinum saman í lítilli buslulaug sem var búið að vera á óskalista. Þvílíkur dagur - þvílíkir dagar.

Að sjá gleðina skína úr litla andlitinu þegar hún faðmaði mig að sér í miðju afmæli, svo þakklát fyrir afmælisboðið sitt, er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og er algjörlega ómetanlegt.

Fullkomin hamingja.

Það sem best er - allur undanfarinn hefur verið rólegur og góður. Engar erfiðar uppákomur, ekkert vesen eða leiðindi. Bara fullkomnir góðir sumardagar.

Hvað get ég annað en að þakka Guði fyrir lífið og styrkinn sem hann hefur gefið mér undanfarið ár. Því friðurinn í mínu hjarta er friðurinn í hjörtum barnanna minna.

Þegar ég loka augunum núna og sé fyrir mér litla brosandi glaða fallega andlitið, þá get ég sagt eitt alveg óhikað.

Þeir sem eiga í erfiðleikum vegna aðstæðna með örðum einstakling geta ekki gefið sér, eða börnunum sínum neitt betra - en að koma sér úr þeim.

Það er því miður bara til fólk sem ekki þrífst í fjölskyldum. Einstaklingar sem eru of veikir til þess að elska aðra en sjálfa sig. Sjá þarfir annarra. Átta sig á eigin gjörðum. Eða eru í algjörri afneitun.

Ef þú lesandi góður ert í slíku sambandi - hlauptu. Ef þú þarft að berjast - þá skalltu berjast.

Þín eigin líðan þegar yfir líkur - og brosandi andlit barnanna þinna eru stærstu verðlaun sem hægt er að hugsa sér.

Þetta sumar er að fyllast af góðum minningum hjá mér - láttu það eftir þér líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband