Góðir dagar verða að góðum minningum

Undanfarið hafa góðir dagar verið einkennandi í lífi mínu.

Það er gleðiefni. Þessi góðu dagar verða fallegar minningar.

Án þess að ég geti útskýrt það þá voru "árstíðaskipti" í mínu fyrra erfiða sambandi. Verstu tímarnir voru sumrin (sérstaklega lok júní og júlí) og tíminn í kringum jól og áramót. Það var eins og þeir tímar væru óviðráðanlegir hjá sumum einstaklingum.

Verra var að þetta eru einmitt hátíðistímar barna hjá mér. Afmæli og jól. Litla barnið á einmitt afmæli á þessum, venjulega fallega sumartíma.

Fyrsta afmælið hennar gekk vel en það var líka það eina. Í sannleika sagt man ég ekki eftir afmælum númer tvö og þrjú. Man bara að allt var upp í loft eins og venjulega á þessum árstíma. Hvort 2ja ára afmælinu var ekki sleppt bara - það er eins og mig minni það. Afmæli fjögur var reyndar prýðisgott - eftir ákveðna baráttu. Það kom upp á skiptidegi. Til að geta átt stund með barninu fékk ég frí fyrir hana á leikskólanum og fór með hana og systur hennar í Keiluhöllina. Það var mjög gaman, en því var ekki vel tekið þar sem faðirinn vildi fá hana á hádegi en fékk ekki fyrr en síðdegis.

Nú er fimmti afmælisdagurinn, sá dásamlegasti af þeim öllum - sérstaklega fyrir hana. Ég náði að koma henni á óvart með því að bjóða öllum telpunum af deildinni sem eru jafnaldrar hennar í afmælið. Hún átti von á þrem vinkonum sem hún var alsæl með, enda aldrei kynst alvöru barnaafmæli fyrir sjálfa sig. En þær komu heilar níu og gleðin skein úr litla andlitinu. Þetta var líka í fyrsta skipti sem hún átti afmælisdag á leikskólanum, sem var líka mjög sérstakt.

Ekki var það verra að við áttum yndislegan sólríkan sumardag í gær og eyddum honum í garðinum saman í lítilli buslulaug sem var búið að vera á óskalista. Þvílíkur dagur - þvílíkir dagar.

Að sjá gleðina skína úr litla andlitinu þegar hún faðmaði mig að sér í miðju afmæli, svo þakklát fyrir afmælisboðið sitt, er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma og er algjörlega ómetanlegt.

Fullkomin hamingja.

Það sem best er - allur undanfarinn hefur verið rólegur og góður. Engar erfiðar uppákomur, ekkert vesen eða leiðindi. Bara fullkomnir góðir sumardagar.

Hvað get ég annað en að þakka Guði fyrir lífið og styrkinn sem hann hefur gefið mér undanfarið ár. Því friðurinn í mínu hjarta er friðurinn í hjörtum barnanna minna.

Þegar ég loka augunum núna og sé fyrir mér litla brosandi glaða fallega andlitið, þá get ég sagt eitt alveg óhikað.

Þeir sem eiga í erfiðleikum vegna aðstæðna með örðum einstakling geta ekki gefið sér, eða börnunum sínum neitt betra - en að koma sér úr þeim.

Það er því miður bara til fólk sem ekki þrífst í fjölskyldum. Einstaklingar sem eru of veikir til þess að elska aðra en sjálfa sig. Sjá þarfir annarra. Átta sig á eigin gjörðum. Eða eru í algjörri afneitun.

Ef þú lesandi góður ert í slíku sambandi - hlauptu. Ef þú þarft að berjast - þá skalltu berjast.

Þín eigin líðan þegar yfir líkur - og brosandi andlit barnanna þinna eru stærstu verðlaun sem hægt er að hugsa sér.

Þetta sumar er að fyllast af góðum minningum hjá mér - láttu það eftir þér líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig H Sveinbjörnsdóttir

Risaknús til þín og þinna :* Eigið jafn dásaamlega helgi framundan :)

Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 1.7.2011 kl. 23:04

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Falleg færsla og yndisleg.  Ég tek undir með þér elskuleg um að fólk á ekki að vera í samböndum sem geta ekki gengið upp og bitna á börnunum.  Þá er betra að slíta því og fara að reyna að lifa sínu eigin lífi sjálfur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.7.2011 kl. 09:19

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ekkert er eins og ljúft og gleðin í andliti barns, njóttu daganna vina mín.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.7.2011 kl. 13:05

4 Smámynd: Skúmaskot tilverunnar

Þakkir kæru vinir

Skúmaskot tilverunnar, 2.7.2011 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband