Ég hef trú.

Þegar ég var lítil þá trúði ég á jólasveininn.

Ég trúði líka á Guð. Amma mín kenndi mér það.

Einhverntíma á lífsleiðinni - man ekki hvenær - fór ég að efast um tilvist hans. Hvernig gæti algóður Guð látið alla þessa slæmu hluti gerast án þess að grípa inní? Afhverju dauði um aldur fram? Afhverju ofbeldi og stríð? Afhverju - afhverju?

Afhverju tók hann ömmu?

En maður þroskast og veit að lífið hefur sinn gang. Réttlæti er ekki endilega í höndum Guðs. Mannvonska er ekki honum að kenna. Hún er alfarið mannanna.

En hann er með okkur. Hann leiðbeinir þeim sem vilja hlusta, sem vilja leyfa honum að leiðbeina sér. Þeir sem ekki hlusta, heyra ekki. Þeir sem ekki vilja sjá, sjá ekki heldur æða áfram í blindni.

Að lokum fann ég hann aftur. Guð. Æðri mátt. Hið góða sem leiðbeinir okkur og leiðir okkur áfram.

En það þarf að gefa honum tækifæri til að vísa okkur veginn. Mannfólkið getur verið svo stjórnlaust og ætt áfram í svo taumlausri reiði, sjálfselsku og vantrú - að Guð getur ekki leiðbeint því.

Guð þröngvar sér ekki inn í líf okkar. 

En ef við bjóðum Guð/æðri mátt velkominn, þá er hann til staðar fyrir okkur. 

Það er engin spurning - okkur er vísað í réttar áttir ef við bara trúum og treystum.

Við þurfum ekki einu sinni að vera fullkomin. Hver ætlast til þess.

Við lokum augunum og réttum út hendina. Án efa verður tekið í hönd okkar og við leidd áfram.

Okkar veg.

Ég hef fulla trú á að mín örlög séu í höndum þess sem er mér æðri og máttugri. Ef ég leyfi honum að leiða mig réttan veg, þá verður sá vegur góður.

Í þessari trú get ég brosað við nánast öllu. Ákveðið að gefast aldrei upp - því ég muni vera leidd áfram veginn.

Að trúa þýðir ekki það að maður sé aldrei hræddur. Aldrei einmana og líði aldrei illa.

Það þýðir hinsvegar að maður trúi því að hlutirnir fari á besta veg - kannski ekki á morgun eða hinn. En mjög bráðlega.

Auðvitað þarf maður sjálfur að taka þátt. Guð gerir ekki allt fyrir mann. Hann borgar ekki vísakortið þitt - svo mikið er víst.

En - ef þú leyfir honum, þá vísar hann veginn.

Veginn að hamingju.

 


Passaðu þig bara!

Það verður að segjast, því miður - að það eru konur í þjóðfélaginu sem mega búa við allskyns leiðindi og mannskemmandi hegðun.  Oftast frá maka sínum.

Verra er að sumar láta sig hafa það.

Úff.

Skilnaður frá makanum er alls ekki ávísun á að öll leiðindi séu þar með búin. Því er nú verr. Sumir menn eru svo stjórnlausir og hamslausir í samskiptum að það er ekki hægt að eiga við þá nauðsynleg orðaskipti t.d. um sameiginlegt barn. Þá er nú fokið í flest skjól.

Þetta er að vísu staðreynd sem ég geri mér alveg grein fyrir hvað varðar mín samskipti við barnsföður. Það er þess vegna sem ég hef þau sem minnst og helst skrifleg. Í formi sms - annað stendur ekki til boða. Ef ég hringi, þá er öskrað og skellt á.

Annað. Yfirleitt segi ég ekkert nema vera með hlutina alveg á hreinu - helst staðfesta skriflega. Mín orð eru nefninlega bara innihaldslaust píp - sama um hvað ræðir.

Um daginn fór ég og sótti barnið til föður síns. Í herbergi þeirra feðgina var að venju allt á tjá og tundri. Ekki get ég nú sagt að óreiða eða leikföng út um allt fari fyrir brjóstið á mér. Alls ekki.

En það fór fyrir brjóstið á mér að allavega fjórðungur aðstöðunnar var undirlagður af líkamsræktartækjum. Þar á meðal bekkpressu með þungum lóðum og fleiri lóð liggjandi á gólfinu. 

Svona tæki eru að mínu mati fremur hættuleg litlum börnum og ættu ekki að vera í vistarverum þeirra. Ákvað nú samt að segja ekki neitt að svo stöddu.

Ég lýsti áhyggjum mínum og aðstæðum fyrir einstakling sem hefur unnið að slysavörnum barna í mörg ár. Ég fékk þau svör að þessi tæki væru stórhættuleg og orðið hefðu alvarleg slys á börnum þegar þau væru annarsvegar. Þessi tæki áttu ekki heima í vistarverum barna.

Þar sem ég ber öryggi barns míns fyrir brjósti sendi ég föður sms um þessa staðreynd. Einnig það að þetta væru ekki mín orð, heldur fengin frá sérfræðingi.

Skömmu seinna hringdi síminn.

Jú jú - hann gæti svosem alveg tekið niður tækin meðan barnið væri þarna. Einmitt, hugsaði ég. Talandi um orðin tóm. Svo ég spurði hvernig ég gæti verið viss um að því yrði framfylgt.

Þá að sjálfsögðu byrjuðu öskrin. Barnið væri í hans umsjón þessa daga og kæmi mér ekki við. Yrði sótt hvort sem tækin væru ennþá til staðar eða ekki. Nokkur öskur í viðbót og síðan skellt á.

"Einmitt" hugsaði ég. Talandi dæmi um það þegar ekki á að standa við orð sín. Maður hefur nú lært hvað er hvað og ekki hvað í sambandi við þennan ljúflingsgaur.

Þar sem ég get ekki sent manninum póst þá neyddist ég til að pósta á föður hans svarinu sem ég fékk vegna þess óöryggis sem þessi tæki hafa í för með sér þegar barn er annars vegar. Taldi það líka rétt þar sem húsnæðið sem barnið dvelur í þessa daga er að hluta í hans eigu.

Hringdi svo  í föðurinn (sem ég geri nánast aldrei nema í brýnni neyð) til að segja frá þessu og að ég vildi að allt væri komið í horf þegar barnið kæmi næst.

Hefði ég getað fokið af stólnum sem ég sat á vegna hvassviðris í símtólinu, væri sjálfsagt far á veggnum.

"PASSAÐU ÞIG BARA" öskraði tólið. "Hættu svo að hringja hingað og senda sms - helvítis hóran þín".

Skellt á.

Þannig voru öryggismál barnsins rædd.

Eins gott að það þurfti ekki að ræða eitthvað "svakalegt" eins og peningamál. Enda veit ég að slíkt er ekki hægt.

Svo verður maður víst að bíða í von og óvon um hvað hinir meðvirku föðurforeldrar gera.

Vona innilega að einhver af heimilisfólkinu hafi öryggi barnsins í fyrirrúmi.

En hvað veit ég.

Ekki eins og amma og afi barnsins ræði við mig um málin. Það er víst þeirra háttur til að vera "hlutlaus". Að leyfa þessu að viðgangast. Öllu sem yfir mig er hellt. 

Þrátt fyrir að barnið búi í þeirra húsnæði góðan part mánaðarins ásamt öðru.

Þvílíkt hlutleysi.

 

 


17. júní

Flestir eiga margar minningar sem tengjast 17. júní. Þar er ég engin undantekning.

Á unglingsárunum var 17. júní dagur daganna. Taumlaus gleði og ánægja.

Þegar ég var í skátunum byrjaði maður uppúr miðnætti að undirbúa hátíðarhöld komandi dags í Hljómskálagarðinum. Súrra saman þrautabrautir og leiktæki. Ósofin fór maður svo jafnvel í eitthvað sölutjaldið eftir að hafa verið fánaberi í skrúðgöngu. Einhverntíma leið meira að segja yfir mig í hátíðarmessu í Dómkirkjunni - þvílíkt stuð. En fánanum var bjargað áður en hann snerti jörð. Sennilega mér líka. Man allavega ekki eftir kúlu eða skrámum.

Seinna varð þessi dagur allra mesti stuðdagur ársins. Hljómleikahöld fram á kvöld - sætir strákar, smart föt og flottir hattar. Vonast eftir að sjá þann eina rétta í þvögunni, sem reyndar tókst einu sinni.

Sumar og sæla.

Þrátt fyrir þessar góðu og gleðiríku minningar eru þær því miður ekki það fyrsta sem hrekkur upp í hugann þegar 17. júní nálgast í dag.

Sú sem fyrst kemur er öllu dapurri.

Tveim dögum fyrir þjóðhátíðardaginn gisti ég Kvennaathvarfið. Þorði ekki öðru, skapferlið á heimilinu var á þann háttinn að ég treysti mér ekki til að vera heima með tæplega tveggja ára barn mitt. Nóttina þar á eftir gistum við hjá systur minni.

En síðla kvölds 16. júní náðust ákveðnir samningar sem ég trúði á - þá.

Að morgni 17. júní komum við heim. Í bjánaskap mínum bjóst ég við að okkur yrði fagnað. En það var nú ekki aldeilis. Illa sofinn maðurinn þurfti að halda áfram að sofa. Samt var nær dregið hádegi.

Ég heyrði í skrúðgöngunni klukkan tvö. En ekki var maðurinn tilbúinn til að taka þátt í hátíðarhöldunum með konu sinni og barni.

Við biðum og biðum.

Hin börnin voru ásamt sínum föður í sumarbústað.

Loksins þegar farið var að líða að miðjum degi gátum við rölt öll saman, litla fjölskyldan, til að kíkja á hátíðarhöldin. Það var nú ekki mikið eftir af þeim svosem þannig að við stoppuðum stutt, enda barnið orðið þreytt.

Aldrei var staðið við loforðið sem gefið var að kvöldi 16. júní.

Enda var þetta rétt upphafið á mjög erfiðu sumri.

Og hausti.

 


Er það skömm?

Ég sat í fallegu veðri í miðbænum. Það var orðið frekar áliðið en yndislegt að njóta blíðunnar og fylgjast með mannlífinu í kringum sig.

Skammt frá mér sat kona sem greinilega hafði séð sinn fífil fegri. Sat og sötraði bjór. Ég brosti til hennar. Hún brosti feimnislega á móti og leit svo niður í gaupnir sér aftur.

Eftir litla stund stóð hún upp og skjögraði til mín. Hún bauð mér sopa af bjórnum sínum, en ég afþakkaði. Hún þakkaði mér fyrir að hafa brosað til sín. Það væru ekki margir sem gerðu það. Hún ætti í raun engin bros skilið.

Ég sagði henni að allir ættu bros skilið. Áður en ég vissi af var hún byrjuð að segja mér frá ýmsum hlutum. Skelfilegum hlutum. Hvernig hún hefði orðið Bakkusi að bráð vegna ofbeldis. Nú virtist hún hvorki geta losnað við Bakkus né ofbeldið. Fólki þætti lítið mál að tuska hana til og frá. Tárin byrjuðu að streyma niður kinnar hennar. Ég strauk af henni tárin. Leit í gömul og fljótandi augun, sagði henni að enginn ætti skilið að verða fyrir ofbeldi af neinu tagi. Það væri vissulega ekki henni að kenna. Sjálf hefði ég upplifað ýmislegt og ekkert af því væri mér að kenna.

Hún leit upp til mín. "Ertu pólsk" spurði hún. Ég brosti og sagði henni að ég væri eins íslensk og hugsast gæti. "Þú hlýtur að vera pólsk. Pólsku konurnar skilja mig". Ég sagði henni aftur að ég væri íslensk en gæti engu að síður alveg skilið hana og þessar þjáningar. Hún var hissa. Átti ekki von á samkennd frá íslenskri konu, sem greinilega var ekki á sama stað og hún.

"Bakkus tók þá ekki þig og börnin þín?" Hún horfði ennþá í augun mín. "Nei" sagði ég. "Ég var svo heppin að öðlast styrk sem ég get ekki útskýrt. Ég trúi því að eitthvað verndi mig."

Þegar ég kom heim gat ég ekki hætt að hugsa um þessa konu. Greinilega upplifði hún mikla skömm. Kannski yfir því að hafa vantað styrk til að forðast erfiðar aðstæður. Eða hreinlega bara skömmina fyrir að verða fórnarlamb ofbeldis.

Hvað gaf mér styrk á sínum tíma og gerir enn? Jú - ég sagði frá. Ég talaði við prest. Hann gaf mér styrk. Það geta allir gert og kostar ekkert. Reyndar var ég svo heppin að geta líka talað við sálfræðing. Allt þetta hjálpaði.

En það sem hjálpaði mest var að skrifa. Skrifa um það sem kom fyrir mig og mína. Loka það ekki inni heldur segja frá. Koma tilfinningunum á blað og geyma þær þar frekar en í hjartanu. Opna þar með hjartað fyrir nýjum og betri tilfinningum.

Það er nefninlega engin skömm að því að hafa lent í erfiðum aðstæðum. Skömmin er allavega ekki okkar. Frekar þeirra sem ekki átta sig á hvað skömm er. Særa tilfinningar fólks og meiða. En finna ekki skömmina. Þeirra er samt skömmin.

Margir þessara aðila virðast ekki gera sér grein fyrir þeim sársauka sem þeir valda öðrum. Ef til vill er það til. En lang flestir gera sér fyllilega grein fyrir því - en afneitunin er sterk. Svo sterk að þeir yfirfæra sína skammarlegu hegðun yfir á þá sem urðu fyrir ofbeldinu. Eru sjálfir fórnarlömbin.

Það eitt sýnir að þetta fólk er meðvitað - en getur ekki horft í augu við sjálft sig. Yfirfærir allt yfir á aðra. 

Þetta fólk þegir ekki heldur. Það baðar sig í vorkun hvar sem það getur - á lygum.

Hin raunverulegu fórnarlömb eru líklegri til að þegja. Taka út skömm sem ekki er þeirra.

Stórt skref í átt til bata er að opna sig. Segja frá. Átta sig á því að skömmin er ekki þeirra.

Það eru svo margir á sama stað.

Þöglir.


Hamingja

Þetta ótrúlega fallega orð "hamingja".

Eitthvað sem allir þrá að hafa með sér í lífinu. 

Flestum tekst það líka. Spurning hvort maður hefur verið að leyta á réttum stöðum.

Í sjálfsskoðun minni undanfarin ár hef ég lesið ótal greinar um hamingju, þar sem ég týndi henni í smá stund. 

Í flestum þessara greina er bent á að hamingjuna sé að finna innra með manni sjálfum. Hún fæst ekki keypt. Aðrir geta ekki fært þér hana á silfurfati. Hún er eitthvað sem "er".

Þetta virðist allt vera svo einfalt þegar maður les um hamingjuna. Sestu niður, áttaðu þig á að hamingjan er ekki tengd öðrum, lærðu að þekkja sjálfa(n) þig og pillaðu þér svo hamingjusöm út í lífið.

Vá - ekkert mál?

Persónulega finnst mér margt gott í þessum boðskap. En ég verð að viðurkenna að ég er ekki fullkomlega sammála.

Það er svo margt sem getur fært manni innri frið. Trúin á eitthvað æðra. Trúin á sjálfan sig. Trúin á lífið.

Fyrir mér er það samt nákvæmlega það. Innri friður - sátt. Ekki beint hamingja.

Þrátt fyrir allar þessar pælingar - með opnum huga - get ég ekki fallist á það að hamingjan sé eingöngu innra með manni sjálfum og komi engum öðrum persónum við.

Sjáið til. Ég hef upplifað hamingju. Börnin mín eru til dæmis beint tengd minni hamingju. Engin upplifun er eins góð og að sjá þeim farnast vel, líða vel. Það er sönn hamingja.

Að þykja innilega vænt um einhvern og geta gefið af sér - það færir mér hamingju.

Ef einhver gefur mér kærleika - það færir mér hamingju.

Þrátt fyrir allt þetta tal um að hamingjan búi innra með okkur og fáist ekki með öðru fólki í lífi manns - ég er bara alls ekki sammála.

Mannveran er ekki sköpuð til að vera ein. Mannveran er félagsvera. Það er ekkert út í bláinn að mannveran sækir í að vera í samvistum við aðra mannveru. Það er í eðlinu að eiga börn og elska þau. Það er í eðlinu að leita sér maka. Það er í eðlinu að lifa og hrærast með öðrum. Hlæja með öðrum. Brosa með öðrum. Styðja hvert annað.

Þess vegna er ég orðin hálf leið á þessum hamingjupistlum hingað og þangað, sem benda flestir á að leyta hamingjunnar innra með sér. Auðvitað verður hver og einn að vera sáttur við sjálfan sig. Annað er auðvitað klárlega ávísun á óhamingju og óánægju.

En það er fjandakornið ekkert nóg - þrátt fyrir alla góða pistla og predikanir.

Ég er ekki fluga. Eflaust eru flugur fullkomlega hamingjusamar og sáttar við að fljúga einar hingað og þangað - hvað veit ég.

Það sem ég veit, er að hamingja einstaklings er eins einstaklingsbundinn og við erum mörg. Það er ekkert einhver ein fjárans formúla fyrir hamingju.

Og það er rangt að reyna að telja fólki trú um það. Þeir sem ekki fitta inn í þetta staðlaða "hamingjudæmi" sem er predikað - verða aldrei hamingjusamir ef þeir trúa því að þetta sé hið eina sem stendur til boða í hamingjudæminu. Rembast eins og rjúpan við staurinn til að fara eftir þessum ráðum og þar sem þau virka ekki - þá telur viðkomandi sig ófæran um að finna hamingjuna.

Það ætti að henda öllum þessum fjárans hamingjupistlum út um gluggann. Hver og einn er einstakur og þarf sína eigin leið til að finna sína eigin hamingju.

Og fjandakornið - hún felur ekki í sér vist í nunnuklaustri.

Hamingjan getur tengst öðru fólki líka.

Bara viðurkenna það.

 


Að gráta

Það er fyndið að við náum flest að tárast yfir hugljúfum bíómyndum. Þegar hún fellur loks í arma hans og allt er orði gott. Þá fellum við tár.

Eftirminnilegasta myndin hvað mig varðar var Titanic. Ég horfði hugfangin og felldi tár.

Það er ákveðin lausn tilfinninga að gráta. Það er í raun holt og gott.

Stundum er manni meinað að sýna tilfinningar.

Það ert til að mynda bannað í forsjármálum. Hef komið að því áður.

Ég hitti prestinn minn í langan tíma þegar þessi mál voru öll í vinnslu. Hann var yndislegastur allra og skildi málin svo vel. En það var eitt sem hann sagði ítrekað og var svo satt.

"Ég sé töffarann - en ég sé ekki kjarnann. Hann er lokaður inni."

Svo satt svo rétt. Kjarninn var hulinn þykkri nauðsynlegri skel. Ekkert mátti brotna.

Janúar árið 2011. Forræðisdeilunni lokið.

Apríl 2011. Ár síðan pabbi dó. Ég fór að leiðinu hans með skreytingu. Loksins loksins brast eitthvað. Ég fór að gráta. Talaði við hann meðan tárin láku niður kinnarnar. Sagði honum frá ýmsum málum og grét. 

Ó hvað ég sakna hans mikið. Loksins eftir allan þennan tíma sem mér var meinað að sýna tilfinningar fór eitthvað að bresta. 

Pabbi

Besti  og skemmtilegasti maðurinn í lífi mínu. Besti afinn. Börnin mín elskuðu hann jafn heitt og ég. Hann var þeim svo góður. Hann gaf þeim svo mikinn tíma af lífi sínu. Fór með þeim í fjöruferðir. Smíðaði með þeim heilu listaverkin. Málaði með þeim. Var þeim besti afi í heimi.

Náði í þau í skólann. Elskaði þau skilyrðislaust. Var þeim allt.

Þau elskuðu hann og dáðu. Enda ekki nema von. Ég gerði það líka.

Mátti bara ekki syrgja hann þegar hann féll frá. Það var bannað. Þú mátt ekki hafa tilfinningar eða veikleika í forsjárdeilu. Því er haldið á móti þér. Lögræðingur andstæðingsins notfærir sér það. Já - maður hefur pappíra þess efins. Ekki fallegt.

Núna er ég að reyna að finna kjarnann aftur. Læra að þora að gráta. Syrgja. 

Má það núna. Má jafnvel brotna niður og gráta úr mér augun.

Þori því samt ekki ennþá alltaf þegar ég hugsa um elsku fólkið mitt.

En langar svo.


Réttur barnanna okkar

Undanfarin tvö ár hef ég rætt við - og hitt konur sem hafa lent í ótrúlegustu hlutum.

Saga sumra voru blóði drifnar, aðrar drukknaðar í tárum.

Það allra sorglegasta er - að í öllum tilfellum þá voru fleiri en eitt fórnarlamb. 

Börnin fengu þyngsta og erfiðasta áfallið. Versta dóminn. Stærstu sárin á sálina. Fullkomlega saklaus.

Margar þessara kvenna höfðu farið dómsstólaleiðina. Í þeim tilgangi einum að forða börnunum sínum frá frekari sárum. Frekara upplifun ofbeldis á einhverjum stigum. 

Enginn - og ég meina enginn heilbrigður einstaklingur sem kemur úr heilbrigðu sambandi, getur svo mikið sem ímyndað sér frumskóginn og erfiðleikana sem þessar hetjur ganga í gegnum.

Börnin okkar hafa nefninlega engann lagalegan rétt. 

Það eru foreldrarnir sem hafa allan réttinn. Lögin taka ekki tillit til tilfinninga. Ung börn eru talin ómarktæk. Gert er fyrirfram ráð fyrir því að þeim sé innprentað það sem þau segja.

Svo lengi sem þau eru ekki þess meira niðurbrotin - helst með öxina í höfðinu, þá eru þau ekki í hættu. Lögin krefjast skilirðislausra sannanna. Svona líkt og að hafa morðhótun upp á vasan, undirritaða af hinum einstaklingnum. Ég er ekki að grínast. Eina málið sem hefur fengið öðruvísi meðferð fyrir dómi var einmitt vegna þess að móðirin hafði slíkt upp á vasann. Hversu oft haldið þið að það gerist?

Tískufyrirbæri eru ekki bara í fatabransanum. Þau eru allstaðar. 

Þegar ég eignaðist fyrsta barnið þá var skylda að láta nýfædd börn liggja á maganum. Slíkt taldist vera best fyrir barnið og koma í veg fyrir ungbarnadauða. Þegar ég eignaðist næsta barn var stórhættulegt að láta þau liggja á maganum, þau skyldu sofa á hliðinni. Þegar þriðja barnið fæddist þá voru öll börn látin sofa á bakinu.

Ég var semsagt komin hringinn í svefnstöðu ungbarna.

Tískan í umgengni nútímans er 50/50 umgengni. Það er talið best samkvæmt sálfræðingum. Burtséð frá þörfum einstaka barns, aldri eða tengslum. Þetta á að eiga við öll börn, líkt og þau séu öll greypt í sama mótið. Þetta er það sem sálfræðingar í dag leggja út með þegar þeir ákvarða hvað sé best fyrir barnið. Í dómsmáli. Þó svo þeir þekki barnið afskaplega lítið.

Ég get sagt ykkur sögu sem ekki tengist mér persónulega. Hjón skyldu frá barni innan við eins árs gömlu. Þau bjuggu eftir það á sín hvorum landshlutanum. Þetta gerði eðlilega viku/viku umgengni erfiða svo það var ákveðin mánaðar/mánaðar umgengni. 

Barn á þessum aldri þarf að tengjast móður föstum böndum. En það var ekki leyfilegt - ekki í tísku. Blessað barnið mátti ekki af móður sinni sjá þegar það loksins kom til hennar. Síðar var umgengninni breytt þar sem faðirinn eignaðist annað barn með nýrri konu. Þetta barn tók þvílíkum framförum þar sem loksins fékk það að vera hjá móður sinni.

En svona eru lögin. Það sem hefur mest vægi í forsjármálum er mat sálfræðinga. Ókunnugrar manneskju sem fyrst og fremst fer eftir nýjasta trendi. Hefur engin raunveruleg tengsl við barnið.

Ekki held ég að forsjármál séu almennt sú lausn sem foreldri vill fara. Ef allt er í lagi með báða einstaklinga er hægt að vinna saman með þarfir barnsins í fyrirrúmi. Það hef ég reynt með tvö af þrem börnum mínum. Enda búa þau vel að báðum foreldrum.

Í mínum huga er það fyrst og fremst stjórnsemi, valdabárátta og annað sem ekkert kemur barninu við sem knýr áfram forsjárdeilu. Ef gott samkomulag væri milli foreldra og allt eðlilegt - þá kæmi slíkt mál ekki upp á yfirborðið.

Sem segir okkur að þessi mál snúast oft um stjórnsemi. Ekki vegna barnsins. Heldur vegna fyrri maka. Kemur í raun barninu lítið við.

Eðlilega er hér því oftar en ekki um endalok ofbeldissambands að ræða. 

En að sanna slíkt samband. Það er ekki auðvelt - nánast að segja ekki hægt vegna sönnunarbirgði. Nema þú sért með morðhótun uppá vasann eða brotna höfuðkúpu.

Það sem verra er. Barnavernd má lítið hafa sig í frammi, nema barnið sé þess ver haldið.

Ef gögn svona mála eru skoðuð, þá sjá flestir hvers kyns er. En, samkvæmt lögum er það ekki nóg. Vísbendingar eru ekki nóg. Sama hversu margar þær eru. Þær eru nefninlega ekki blákaldar sannanir.

Þú mátt ekki tala. Þú mátt ekki vera veikburða. Þú mátt í raun ekki vera mannleg vera í svona málum. Allt er notað gegn þér. Best ef þú ert lifandi dauð og sýnir engar mannlegar tilfinningar. Enga bresti.

Börn eru miskunarlaust send til foreldra sem beyta aðra ofbeldi. Jafnvel þau sjálf. Foreldra sem ekki eru hæfir til að sjá fyrir börnum. Jafnvel ekki hæfir til að sjá fyrir sjálfum sér. Foreldra sem nærast á reiði og stjórnleysi. Foreldra sem hafa sýnt ofbeldishegðun. Foreldra sem eru ábyrgðarlausir. Foreldra sem hafa taumlausa sögu að baki. 

Jafnvel þótt hitt foreldrið hafi ávalt verið vammlaust.

Bara vegna þess að börnin okkar - eiga engan rétt í lögum.

Orð þeirra ekki tekin marktæk.

Þeim er gert að aðlagast aðstæðum.

Sama hvað það gerir þeim seinna.

Umhyggjusama foreldrið - það sem hugsar um barnið frekar en sjálf sig.

Móðirin í flestum tilfellum.

Er ekki lengur í tísku.

 

 


Ertu trophy wife?

Vissulega má segja að þessi færsla eigi við um bæði kyn. En ég leyfi herrunum að skrifa sínar eigin færslur.

Þótt ótrúlegt megi virðast er ennþá fullt af náungum sem telja konuna sína til "eignar" frekar en félaga í ástríku og góðu sambandi. Svona ambátt kannski.

Þetta eru nú yfirleitt ekki farsælustu samböndin, hvað þá eigulegustu náungarnir.

Menn sem koma illa fram við konur eiga það yfirleitt sameiginlegt að hafa lágt sjálfsmat, falið í gífurlegu sjálfsáliti útá við. Annað sem þeir eiga flestir sameiginlegt - fæstir kunna að elska nokkurn annan en sjálfan sig.

Lágt sjálfsmat kallar hinsvegar á utanaðkomandi skrautfjaðrir. Oftar en ekki konu.

Þessir menn sætta sig ekki við þessa "venjulegu" konu. Þeir vilja eitthvað meira.

Helst á konan að vera gullfalleg og grönn. Augnakonfekt í augum annarra. Það er upphefð. En oft er það ekki nóg. Best er ef hún er líka menntuð, gáfuð, kemur vel fyrir eða jafnvel þekkt í þjóðfélaginu að einhverju leyti.

Eða þá að konan hefur uppá eitthvað að bjóða sem manninum vantar. 

Við höldum í einfeldni okkar að maðurinn sé svona yfir sig ástfanginn af okkur. En í raun erum við lítið annað en sýningargripir. 

Í upphafi erum við meðhöndlaðar eins og prinsessur. Trúið mér - svona einstaklingar eru sérfræðingar í að lesa það sem við þörfnumst og leika inná það. Þessvegna er það oftar en ekki manneskja sem hefur einhverja fortíð að baki sem hefur reynst erfið sem eru bestu fórnarlömbin.

Prinsessan má síðan bóka að hún verður ekki lengi í Paradís. Áður en varir kemur hið rétta eðli í ljós og þá upphefst tími ótamkaraðrar stjórnsemi og kúgunar. Andlegrar, líkamlegrar eða bæði.

Agnið semsagt beit á glansandi gullbeituna sem er svo við nánari athugun bara ryðgaður nagli.

Á svipstundu breytist prinsessan í druslu, ómerkilegt slut sem á ekkert gott skilið. Má vera heppin að hinn sjarmerandi prins vilji eitthvað með hana hafa. Sennilega er henni talið trú um að hún geti ekki án hans verið, enginn annar muni líta við henni. Hvað þá elska hana.

Það merkilega er að þessi orð grafast inn í heila og sitja þar föst. Við raunverulega förum að trúa þessu. Eins megum við vera fullvissar um að allt slæmt sem gerist í sambandinu er okkur að kenna og aldrei þeim. Þeir heimfæra eigin galla yfir á okkur miskunarlaust.

Eftir einhvern tíma eru þeir svo búnir að fá leið á okkur og farið að hugnast ný mið. Flottari sýningargrip.

Reyndar megum við teljast heppnar ef okkur er sparkað út í hafsauga og talað svo um okkur sem geðsjúklinga og vitleysinga. 

Að þurfa að berjast sjálfur útúr svona sambandi er hinsvegar þrautin þyngri. 

Sérstaklega ef það eru börn í spilinu.

Þessir menn fara sko ekki þegjandi og hljóðalaust. Þeir þola ekki höfnun.

Það má búast við að öll trikkin í bókinni verði notuð. Þú getur átt von á klögum til barnaverndarnefndar. Mögulega færðu líka í höfuðið harða forsjárdeilu. Það verður reynt að lita þig eins svarta og skelfilega og hægt er. Niðurrifsstarfsemin heldur áfram allan tímann.

En!

Við munum komast í gegnum þetta. Það er ekkert ómögulegt.

Fyrsta skrefið er að átta sig á því að ekkert af þessu var okkur að kenna.

Við eigum þetta ekki skilið.

Við munum berjast fyrir okkar lífi - okkar og barnanna. Við gefumst ekki upp.

Það er líklegt að það taki nokkurn tíma að lækna andlegu sárin sem svona samband skilur eftir sig. Sumar okkar þurfa uppgjör. Viðurkenningu þess hve illa var farið með okkur.

Það er næsta ómögulegt að fá slíka viðurkenningu frá þessum mönnum. Sættum okkur við það.

Við við getum fundið styrk meðal annarra sem hafa tekið slaginn.

Að lokum munum við standa uppi sem sigurvegarar.

Reynslunni ríkari.

Munið að við erum ekki postulínsdúkkur. Við erum kvenmenn. Skörungar.

Hetjur.


Versta gamlárskvöldið

Við höfðum keypt litla bláa fötu af flugeldum fyrir barnið sem hafði gist hjá pabba sínum nóttina áður. Hann lofaði að koma aftur stuttu seinna og sprengja smá.

Þrátt fyrir skilnaðarhugleyðingar hafði verið ákveðið að halda gamlárskvöldið saman, rétt eins og jólin.

Klukkan var orðin 15:00 og aðrir pabbar voru úti að sprengja með krílunum sínum. Sjálf er ég ekki mikið fyrir flugelda - hálf smeik við þetta dót. En hann var jú búinn að lofa að koma snemma og sjá um þessi mál.

Barnið spyr "hvenær kemur pabbi að sprengja með mér?"

"Ég skal hringja elskan" segi ég, enda var löngu kominn tími.

Þessari upphringingu var ekki vel tekið, en lofað að koma mjög bráðlega.

Klukkan er orðin 16:30 og ennþá situr barnið með litlu bláu fötuna sína við gluggann.

"Fer pabbi ekki að koma"?

Ég hringi aftur - viðurkenni að ég var orðin frekar fúl. Leiðist þegar barnið mitt þarf að bíða og bíða.

"Nú - ef þetta er svona mikið vandamál þá kem ég bara ekki neitt" var svarið sem ég fékk.

Ég þakkaði fyrir að fá að minnsta kosti að vita það. Gæti þá gert ráð fyrir breyttum plönum og yrði greinilega að bjarga þessu sjálf. Var bara að dunda við matargerðina, steikin í ofninum - allt átti að vera gott. Hátíð barnanna.

Maturinn átti að vera tilbúinn kl 18:00 og hafa síðan góða stund með barninu.

Um 17:30 er lykli stungið í skránna.

Pabbi mættur - en í þvílíkum ham.

Kemur inn á ganginn og byrjar að öskra og skammast. Barnið fer að gráta og biður hann að hætta. Hann heyrir ekki.

Ég man eftir orðunum "Ég skal taka þig niður og gera þig að engu". Með það þrífur hann grátandi barnið, berhöfðað og illa klætt og ríkur með það út.

Ólýsanleg tilfinning fer um mig. Hvað á ég að gera?

Fyrsta hugsunin er að hringja á lögregluna. Kemst að því að lögreglan getur ekkert gert. Við erum jú gift. Er bent á að hringja til barnaverndar.

Geri það. Gef upp símanúmer mannsins, en barnavernd getur heldur ekkert gert. Spyr hvort ég haldi að barnið sé í hættu. Hvort um væri að ræða áfengi eða slíkt. Ekki taldi ég það vera.

Hringi í systur mína og skýri henni frá málum.

Hringi loks í meðferðarráðgjafa sem hafði meðhöndlað manninn mörgum árum áður. Það var gott að tala við hann. Hann sagði mér að gera ekkert. Reyna að fara jafnvel út til vinkvenna. Reyna að slaka á. Hér væri um stjórnsemi að ræða.

Þegar ég hafði talað við hann ákvað ég að hringja á lásasmiði. Maðurinn skyldi ekki hafa lykla af íbúð minni framar og geta ætt svona inn með þessum látum.

Hálftíma síðar mættu alveg yndælir feðgar. Þeir unnu að því að skipta um læsingar. Meðan þeir voru að þessu kemur maðurinn æðandi. Ég spyr hin rólegasta um barnið. Hann segist hafa skilið það eftir hjá vini sínum, en honum vanti föt og flugeldafötuna góðu. Ég læt hann fá þetta.

Lásasmiðirnir sem urðu vitni að þessu áttu ekki orð. Eftir að þeirra störfum var lokið kvöddu þeir með virktum og sögðust vonast til að allt færi vel.

Ég settist inn í stofu og reyndi að horfa á áramótaskaupið. En augun voru of full af tárum og hugurinn annarsstaðar. Sá það svo seinna - það var mjög gott.

Skreið upp í rúm og hlustaði á sprengingarnar þegar nýja árið gekk í garð.

Sofnaði loksins.

Barnavernd hringdi daginn eftir. Hafði ekki náð í manninn. Hvatti mig til að reyna að hringja aftur sem ég gerði. Ekkert svar.

Fékk upphringingu seinna um daginn. Barnavernd hafði náð í manninn og fullvissaði mig um að allt væri í lagi.

Það var nýjársdagskvöld. Til allrar lukku átti ég góða vinkonu. Við ákváðum að fara í bíó með vini hennar. Hann kom og sótti mig - ég var jú bíllaus. Við fórum og sáum Avatar. Ofboðslega góð mynd.

Daginn eftir, 2. janúar kom hann loks með barnið. Hann var einn heima - foreldrar hans fjarverandi. Gat þess vegna ekki sinnt henni. Komst að því seinna að á nýjársdagskvöldi hefði hann farið til hálfbróður síns (mamma hans vísaði honum þangað en var sjálf stödd erlendis) og hann ásamt konunni hans sáu um barnið og gáfu þeim að borða. Á gamlárskvöld hafði hann verið hjá vini. Barnið sagði mér frá því að kona vinarins hefði verið góð. Sýnt því dót og lesið bók. En það var hrætt í ókunnu húsi.

Seinna fékk ég skýrslu frá barnaverndarnefnd vegna þessa atviks. Þar stóð skýrum stöfum að faðir hefði þurft að fjarlægja dóttir frá ofurölvi móður (á þetta plagg til).

Lásasmiðirnir góðu brugðust fljótt og vel við. Held að maðurinn hafi steingleymt þeim í þessu lygaferli sínu. Þeir sendu bréf til barnaverndarnefndar þess efnis að ekkert áfengi hefði verið að sjá og þessar ásakanir væru í hæsta lagi fáranlegar.

Já gott fólk. Það er með eindæmum hvað sumir svífast einskis.

Til hvers?

Láta börnin gjalda fyrir?

Það hef ég aldrei skilið.

Jú - reyndar en samt ekki.

Það er til fólk sem sér bara ekki hlutina nema frá sjálfu sér.

Svífst einskis til að fá sitt í gegn.

Einskis.



Þunglyndi

Það hafa verið skrifaðar ótal greinar um þunglyndi sem er vel. Samt veit ég af eigin raun að þeir sem aldrei hafa kynnst þunglyndi geta ekki ímyndað sér hvað það getur gert fólki.

Sjálf hef ég lengst af verið í hópi þeirra heilbrigðu hvað þetta varðar og ekki frá því að ég hafi einhverntíma fundið fyrir fordómum gagnvart sjúkdómnum. Biðst ég innilegrar afsökunar á því. Samt ekki á þann hátt að hafa nokkurntíma fundist þunglyndi flokkast sem aumingjaskapur - alls ekki. Bara áttaði mig einfaldlega ekki á því hversu alvarlegur þessi sjúkdómur er.

Í dag veit ég betur og skal sko segja ykkur frá innstu hjartarótum, að þeir sem berjast við þennan sjúkdóm og aðra tengda eru hetjur. Einfaldlega bara hetjur.

Fólk er misjafnt að upplagi. Sumir eru sterkari en fjandinn sjálfur aðrir meira veikgeðja og viðkvæmir.

Ekki ætla ég að halda fram að ég sé sterkasta stykkið í sólkerfinu, langt frá því. Jafnvel frekar viðkvæm. En ótrúlega ákveðin í því að standa uppi með pálmann í höndunum ef eitthvað bjátar á og alls ekki láta brjóta mig niður.

Það hefur nú samt tekist. Tók að vísu smá tíma en hafðist samt. Ekki ólíklega mun birtast á þessu bloggi mínu fleiri sögur af því "hvernig brjóta má niður heilbrigt fólk á mettíma".

Það getur verið gífurlegt álag að stunda mjög krefjandi vinnu og vera með lítið barn. Enn meira krefjandi ef maður hefur ekki mikinn stuðning með barnið eða heimilið eftir að heim er komið. Ef ofaná þetta er svo bætt sambýlisaðila sem markvisst reynir að brjóta þig niður andlega - þá er stutt í að nöturlegur kvíðinn breytist að lokum í þunglyndi.

Ég var orðin óvinnufær þegar ég leitað mér fyrst hjálpar á bráðamóttöku Geðdeildar. Maðurinn minn var svo elskulegur að keyra mig þangað. Ég fór inn og talaði við hjúkrunarfræðing um líðan mína og ástæður hennar. Maðurinn heimtaði síðan að fá að tala við hjúkrunarfræðinginn sem aðstandandi.

Þar kom hann með fjálglegar lýsingar þess efnis að ég væri örugglega haldinn kvíðaröskun eða guð má vita hverju. Hjúkrunarfræðingurinn, sem hafði jú hlustað á mig í einrúmi áður, sagðist nú ekki halda það. Ég þyrfti hinsvegar stuðning og að fá góðan svefn. 

Á endanum sinnaðist þeim. Hjúkrunarfræðingurinn hreinlega missti kjálkann niður á bringu þegar maðurinn æddi út með svívirðingar og sagði að ég gæti komið mér heim sjálf.

Beðið var eftir lækninum til að ávísa lyf og hjúkrunarfræðingurinn var hjá mér um stund. Hún fræddi mig um Kvennaathvarfið og sagði að ég skyldi ekki hika við að fara þangað. Ég sagðist hafa verið þar fyrr um sumarið og þekkti gang mála.

Loksins kom læknirinn og skrifaði lyfseðil. Mældi jafnframt með að ég finndi geðlækni til að ganga til reglulega á meðan aðstæður væru svona.

Maðurinn reyndar kom og náði í mig. En þegar hann ætlaði að keyra mig rakleitt heim án þess að sækja barnið okkar í pössun fyrst þá neitaði ég. Vildi fá barnið heim. Hann neitaði þrálátlega. Á endanum hringdi ég á lögregluna - í bílnum. Þá vorum við rétt við heimili okkar. Lögreglan sagðist mundu koma og í snarhasti sendi ég eldra barnið mitt til vinkonu sinnar.

Þetta var auðvitað ekki það sem maðurinn hafði planað svo hann brunaði með mig til að þá í barnið áður en lögreglan kom.

Síðan fann ég mér góðan geðlækni og byrjaði að vinna í málunum.

En ósköpin héldu áfram og um ári síðan var ég orðin illa haldin af kvíða og þunglyndi. Gat varla sofið eða vaknað. Það eina sem ég gat gert var að sinna allra nauðsynlegustu heimilisstörfum. Á þessum tíma var maðurinn fluttur út að orðinu til en var samt á heimilinu drjúgum stundum. Auðvitað tók hann af mér bílinn svo ég átti erfitt með að framkvæma hluti, hvað heldur í þessu ástandi. Það var miður vetur og hann vildi frekar koma á morgnanna og fara með barnið í leikskóla (sem klikkaði nú ansi oft) heldur en að ég gerði það. Af og til fékk ég svo bilinn til að fara að versla og alltaf náði ég í barnið á leikskóla.

Þar sem líðanin var orðin það slæm ákvað læknirinn að auka lyfjaskammtinn. Það dugði ekki betur en svo að ég fór öll að skjálfa og titra. Gat ekki hellt mjólk í glas. Gat ekki séð um mig eða barnið. Bað þá um aðstoð frá föðurnum meðan þetta gengi yfir enda hafði lyfjaskammtinum aftur verið breytt.

Vissulega kom hann. Kallaði mig aumingja og sagði mér að drullast fram úr rúminu og gera eitthvað - það voru jú ekki nema fimm dagar til jóla og allt ógert.

Tveim dögum fyrir jól var ég orðin betri. Nýju lyfin voru farin að virka og ég gat bjargað jólunum fyrir horn. Hann var hér megnið af þessum tíma en hjálpaði lítið til.

Um áramótin eftir all ómerkilega uppákomu skipti ég loks um læsingar og sagði þessu lokið.

Svar hans við því var að klaga mig til barnaverndar sem óhæfa móður og alka (veit ekki hvaðan það kom).

Svona var nú stuðningurinn frá barnsföðurnum.

Hann leitaði allra leiða til að taka barnið. 

En ekkert af þessu tókst.

Og í dag er ég með uppáskrifað frá barnavernd og fleirum að ég sé fullkomlega hæf móðir og langt frá því að vera alki.

Þessi saga á að varpa ljósi á það að hver og einn getur lent í þeim aðstæðum að ráða ekki fyllilega við líf sitt vegna þunglyndis. Það er hægt að brjóta nánast alla niður.

Ef þið þekkið einhvern sem glímir við þennan sjúkdóm, hvort sem það er tímabundið eða viðvarandi ástand þá vil ég segja eitt. Stuðningur getur bjargað sjúklingnum. Getur bjargað mannslífi.

Þennan stuðning hafði ég ekki. Faðir minn lá fyrir dauðanum vegna krabbameins og fæstir vissu hvernig staðan var hjá mér. Enda ekki með stóra fjölskyldu. Það var sennilega það erfiðasta og gerði sjúkdóminn verri.

Þunglyndi getur virkilega - og hefur leitt fólk í dauðann. 

Það má aldrei vanmeta þennan sjúkdóm. Hann getur barið að dyrum hjá öllum. Dregið úr manni alla orku, alla getu til að takast á við daglegt líf. 

En með góðri aðstoð og ég tala nú ekki um stuðning, þá geta flestir náð sér á strik.

Þennan litla pistil minn helga ég öllum þeim sem eru núna að berjast - sem eru ófáir á þeim tímum sem við erum að upplifa. Fólk lætur oft vel af sér alveg þar til það missir tökin.

Hafið það í huga.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband