Þeir sem geta alltaf sagt réttu hlutina á réttum tíma eiga aðdáun mína alla. Rétt eins og þeir hafi skrifað og yfirfarið hverja einustu setningu áður en þeir láta hana út út sér.
Því miður er ég ekki þessum kostun gædd. Fröken Hvatvís - það er ég stundum.
En, sjáiði til. Sá sem hefur vottorð uppá fullkomnun má koma og skella því í andlitið á mér. Væri líka gaman að sjá hver skrifaði undir það.
Alveg er ég viss um að þeir sem segja alltaf hárréttu hlutina luma á einhverjum öðrum galla, en eru svo orðvarir að þeir segja engum frá því. Kannski eru það loðnar tær, hver veit.
Auðvitað er það talið til kosta að vera heiðarlegur og segja það sem manni finnst. Fröken Hvatvís á það hinsvegar til að gleyma því að oft má satt kyrrt liggja. Þess utan hafa ekki allir sömu skoðanir, sem er auðvitað alveg eins og það á að vera. Það er líka alltaf möguleiki á því að vera misskilin. Punkturinn með réttu orðin sko. Þau eru ekki alltaf efst í hausnum.
Svo er auðvitað til fólk sem þolir ekki sannleikann um sjálft sig. Þeim vorkenni ég hinsvegar ekki svo mjög - eða bara alls ekki.
Maður opnar munninn og svo kemur bunan - úps.
Þetta er ástæðan fyrir því að sennilega hef ég sært fólk í gegnum tíðina. Gjörsamlega óvart. Eða brugðist trúnaði einhvers. Líka alveg óvart.
Ég hef nú samt lært aðeins af reynslunni þó svo ég eigi langt í land.
Stóru lexíuna lærði ég sem unglingur á Spáni.
Þið skuluð ekki halda að þó svo þið séuð erlendis og talið íslensku - þá séuð þið ein um það.
Ég var á gangi með systur minni í sumarleyfisdvöl á Spáni. Skammt frá okkur er kona á gangi með annarri konu. Eitthvað fannst mér hún ófönguleg, man nú ekki á hvaða hátt enda bara krakkarófa á þessum tíma sem hafði ekki hundsvit á fegurð. Ég allavega segi við systur mína all hátt. Of hátt.
"Mikið er þessi kona ljót" eða eitthvað í þá áttina. Systir mín, mér eldri og vitrari sussar á mig. En um seinan.
Konan snýr sér við og brosir. " Mikið ert þú fallegt barn" segir hún og heldur svo áfram göngu sinni.
Þrátt fyrir ungan aldur þá dauðskammaðist ég mín, auk þess sem ég var hundskömmuð.
Þar með lærði ég að setja ekki útá útlit annarra. Enda er það ekki mitt að gera. Fólk er bara misjafnlega fallegt.
En þrátt fyrir langan og strangan lærdóm í að "halda sér saman stundum" Þá virðist mér vera það lífsómögulegt. Þó svo ég reyni nú yfirleitt að vera kurteis.
Ef einhver ergir mig eða segir illkvittnislega hluti um mig eða mína, þá get ég stundum ekki stillt mig heldur skýt föstum skotum á móti. Þó svo ég viti að það sé ekki gáfulegt.
Eins get ég verið full heiðarleg um eigin skoðanir og hugsanir - án þess að átta mig á því að aðrir sjá hlutina allt öðruvísi. Verða jafnvel móðgaðir. Drullusárir. Hætta að tala við mig í versta falli.
Stundum finnast mér líka hlutir ekki skipta neinu máli sem skipta aðra máli. Og get ég haldið mér saman?
Nei - auðvitað ekki.
En.
Hafi ég gert rangt, þá biðst ég fyrirgefningar. Ég fékk aldrei undirritað fullkomnunarvottorð (er samt ekki með loðnar tær).
Hafi ég hinsvegar ekki gert rangt og viðkomandi á orðin skilið. Sögð eða ósögð.
Þá má viðkomandi éta það sem úti frýs.
Sama er mér.
Bloggar | 8.6.2011 | 16:23 (breytt kl. 16:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það verður að viðurkennast að stefnumót eru ekki ofarlega á vinsældarlista hjá mér.
Veit ekki af hverju.
Hef nú samt druslast á nokkur sem ekki skildu mikið eftir sig. Kenni sjálfri mér alfarið um þau mál.
Hafi fólk séð myndina "Running bride" með Juliu Roberts, þá er ég kannski svolítið svoleiðis. Nema ég tek hlaupaskóna upp miklu fyrr.
Væntanlega er um að kenna fyrri reynslu og mjög ákveðnum smekk. Gætum líka kallað það þroska - hljómar betur (fyrir mig allavega). Verst hvað þessi fjárans þroski kom seint. Sennilega er ég seinþroska hvað þetta varðar.
Ef herran sýnir minnstu tilþrif um stjórnsemi eða frekju - þá er ég stokkin. Farin - búið - bless.
Svo kemur fyrir að herra er einum OF ljúfur - svo það er komið út í smeðjuskap og slepju. Svo ekki cool.
Eða að maður áttar sig fljótt á að það er bara enginn neisti - svona bling eitthvað. Smá kitl í magann er alger nauðsyn.
Já - ég er greinilega mjög vandlát og erfið týpa eftir að hafa tekið út þennan þroska.
Það fáránlega er að ég hafði hreinlega aldrei farið á stefnumót með bláókunnugum manni fyrr en fyrir svona rúmu ári síðan. Á samt tvö (mjög ólík) hjónabönd að baki sem saman stóðu í 22 ár.
Og nei - ég er langt frá því að vera elliheimilismatur.
Hlutirnir bara "gerðust". Mjög einfalt mál.
Stelpa hittir strák - stelpa og strákur verða hrifin hvort af öðru á augabragði - málið dautt.
Fyrra hjónabandið byrjaði eiginlega bara - si svona.
Ég var nýkomin að utan þar sem ég hafði eitt sumrinu með systur minni. Var ekki í neinu ofurstuði þegar ég fékk hringingu frá vinkonu. Hún mætti á svæðið og hreinlega dró mig út. Man ennþá að ég skartaði bleikum gallabuxum og hvítum strigaskóm. Sem var algert tabú að láta sjá sig í þegar maður skemmti sér eingöngu á háum hælum og í stuttu pilsi. Með hálfan hárlakksbrúsa í hárinu og áberandi eyrnalokka.
Það var ekkert af þessu til staðar þetta kvöld.
Sátum á pöbb og spjölluðum. Eða kannski spjallaði hún og ég geyspaði. Rétt búin að fljúga yfir hálfan hnöttinn.
Fljótlega tók ég samt eftir að þessi líka gullfallegi ungi maður var að gjóa á mig augunum. Ég gaf honum auga á móti. Þeir sátu tveir saman vinirnir.
Eftir að hafa skotið hvort annað í kaf með augngotum í hálfan annan tíma, svo einungis rústirnar voru eftir var kominn svefngalsi í mína. Vinkona mín var búin að vera með ofureðlilegan föstudagsgalsa allan tímann.
Við ákváðum að smella okkur yfir á borðið til þeirra.
Þetta var semsagt á föstudegi. Á sunnudeginum skrapp ég í foreldrahús, náði í eldgamla Skodann minn og skólatöskuna. Þar með var ég flutt að heiman og hef ekki flutt í foreldrahús aftur.
Endingartíminn var alveg 16 ár - sem telst bara gott miðað við ungan aldur og stutt tilhugalíf.
Svona var þetta nú auðvelt - þá.
Núna þrjóskast konan við það einfaldlega að fara út.
Nei - þarf að vera heima að stoppa í sokka, hjúkra veikum hundi - eitthvað.
Takk samt.
Bloggar | 7.6.2011 | 17:10 (breytt kl. 17:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Síminn hringdi.
Ég leit á númerabirtirinn. Æ - nei, ekki HANN. Hvað vill hann núna.
Hefði skilið ef barnið hefði ekki verið á leikskólanum, hefði þá látið barnið svara. Hann veit jú vel að ég kæri mig ekki um símtöl. Hef þessvegna notað SMS aðferðina eftir að lokað var á póstsendingar.
Svaraði með semingi.
"Ég ætlaði bara að láta þig vita að ég er hættur að nota gsm síma svo þú verður að hringja hingað í númerið hennar mömmu".
Mér svelgdist á munnvatninu. Ekki nóg með að ég forðaðist eins og heitan eldinn að hringa í gsm simann hans, númer mömmu hans hafði ég ekki notað í tæp tvö ár. Ekki hugsað mér að byrja á því heldur.
"Ha - sagði ég".
"Nú - það er engin skylda að vera með gsm síma, er það"?
"Nei"
"Þú hringir þá hér eftir í þetta númer!"
Ég kvaddi stuttaralega og lagði á.
Vissi alveg út á hvað dæmið gekk. Í þau skipti sem ég hafði þurft að hringja útaf einhverju var einfaldlega skellt á. Ef hann heyrir ekki það sem hann vill heyra - skellt á.
Eitt af þessum týpísku samskiptaháttum fjölskyldunnar.
Með öðrum boðleiðum kom maður allavega máli sínu til skila. Hvort sem það var svo lesið eða ekki. Sennilega - annars skipti varla svona miklu máli að loka á allar aðrar samskiptaleiðir.
Eða var það vegna þess að hann hafði alltaf heimtað símasambandsleiðina. Og ég neitað?
stjórnsemi.is
Yfirvaldið hafði talað.
Nú jæja. Ef hann ekki vildi fá nauðsynlegar fréttir af til dæmis barninu, þá var það alfarið hans mál. Ekki mikið annað um að ræða nema fjármál, en það var hvort sem er eins og að tala við Alþingishúsið. Húsið sjálft sko, ekki það að það gengi betur að tala við þá sem eru innandyra öllu jafna. Ekki á krepputímum allavega.
Minntist þess þegar ég tók fyrir það að hann kæmi æðandi hingað í tíma og ótíma. Með einhverjar afsakanir. Var búinn að lofa að koma með þetta eða hitt.
Þegar ég sagðist ekki vilja þetta var svarið að sjálfsögðu "ég kem bara ef ég vill".
Vá - hefði ég átt von á einhverju öðru. Eins og til dæmis - ég skil, allt í lagi.
Ef ég hugsa til baka held ég að ég hafi aldrei heyrt þau orð koma frá honum.
Jæja - hugsaði ég. En verið að reyna að stjórna.
Glætan að ég taki þátt í svona skrípaleik.
Hann getur bara fengið smjörþefinn af eigin frekju. Það mun veitast honum auðveldara héðan í frá að hringja í Guð á himnum en hingað.
Og gangi honum það vel.
Bloggar | 6.6.2011 | 16:02 (breytt kl. 16:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Flestir bindast heimili sínu einhverjum tilfinningum. Þetta er heimilið sem þú hefur lagt í mikla vinnu. Reynt að gera það sem huggulegast miðað við efni og aðstæður. Staður sem þér líður vel á með fjölskyldunni þinni.
Mitt heimili er í gömlu húsi og það getur haft sína fylgifiska. En það er mér afskaplega kært.
Það hefur þó einn ókost. Það er raftækjadraugurinn minn.
Sennilega má útskýra hann með gömlum rafleyðslum, gamalli rafmagnstöflu í bland við gömul heimilistæki.
Rafmagnstaflan er sérfyrirbæri útaf fyrir sig. Risastórt flikki á miðjum ganginum með risastórum postulínsöryggjum. Rafmagnsmæli sem er á stærð við stöðumæli. Örugglega allt saman antik. Ekki beint falleg samt sem slík.
En halló. Öllu má nú ofgera.
Fyrir ca. tveim árum kom hingað rafvirki. Vinna hans átti að felast í því að fjölga innstungum og setja upp lekaliða.
Ekki veit ég á hvaða lyfjum þessi ágæti rafvirki var, því þegar ég kom heim úr vinnu var hann búinn að festa fjöltengi á veggina á þrem stöðum. Já - venjulegt fjöltengi. Ekki innstungur. Snúrurnar lágu í hlykkjum niður í rafmagnsdósina.
Ég starði í forundran á fyrirbærið og síðan á rafvirkjann.
Sko. Fjöltengi hefði ég getað keypt sjálf en aldrei hugkvæmst að festa þau á veggina. Forljót eins og þau voru.
Það var búið að brjóta uppúr eldhúsflísunum þar sem þó hafði verið sett ný innstunga í stað fjörgamallar. Jú - það var kominn lekaliði.
Frágangurinn var svo hrikalegur að ég gat ekki annað en hringt í fyrirtækið og krafist þess að það kæmi annar rafvirki og lagfærði ósköpin.
En eftir að lekaliðinn var kominn var ekki með nokkru móti hægt að nota þvottavélina. Hún sló alltaf út. Jæja hugsaði ég, hún er komin til ára sinna. Svo það var fjárfest í nýrri.
Ekki löngu seinna hrökk ég í kút við agalegan hávaða sem síðan fylgdi reykmökkur. Það var eins og einhver væri með loftbor inni í íbúðinni. Óhljóðin bárust frá þvottahúsinu.
Ég flýtti mér þangað og sá að það rauk úr þurrkaranum með þessum þvílíku látum. Í snarhasti slökkti ég á tryllitækinu. Þar með var hann fokinn.
Nú var ég semsagt verulega fátækari en til stóð eftir stórfelld raftækjakaup. En ánægð með árangurinn.
Eva var þó ekki lengi í Paradís - því stuttu seinna neitaði uppþvottavélin að virka. Mótorinn gekk viðstöðulaust þar til henni var kippt úr sambandi. Þegar henni var dröslað fram mátti sjá að einnig hafði hún skilið eftir sig tjörn undir eldhúsinnréttingunni.
Hún fékk því sinn stað í raftækjakirkjugarðinum og næstu dagar fóru í að þurrka upp tjörnina.
Fjármagn til frekari raftækjakaupa var ekki til staðar, en mér áskotnaðist eitt svona pínulítið fyrirbæri í gegnum vefinn. Betra en ekkert.
Rétt fyrir jólinn dó svo ofninn á eldavélinni ásamt því að ísskápurinn ákvað að vera heitur og kaldur til skiptis. Ískápinn gat ég tjónkað við með því að hækka stillingarnar og sparka í hann af og til. En það kemur samt fyrir að maturinn í honum eyðilegst þegar hann ákveður að fara í smá frí.
Ég gat svo fengið lánaðan örlítinn ofn - svona sýnishorn sem ekki er hægt að baka í nema hálfa pizzu í einu.
Gott og vel. Maður bjargar sér í kreppunni. Að vísu lítur eldhúsið mitt svolítið furðulega út, en ég gat nú samt komið þessu eins smekklega fyrir og hægt var.
Það gekk allt með ágætum í þónokkurn tíma. Þar til einn daginn að ég sit við eldhúsborðið og er að vinna í tölvunni.
Skyndilega skutlast viftan yfir eldavélinni niður á gólf með þvílíkum krafti að innstungan á bak við hana skýst útúr veggnum.
Í hálfgerðu sjokki horfi ég á fyrirbærið - sem er jú með yngri eldhústækjum heimilisins.
Úff hugsaði ég. Ef þau ekki bila þá ráðast þau á mig.
Viftan er ennþá ekki komin á sinn stað þar sem borvélar eru ekki alveg mitt sérsvið.
En það er ekki laust við að ég gjói augunum reglulega á örbylgjuofninn sem er kominn yfir tvítugt og er síðasta heimilistækið sem raftækjadraugurinn hefur ekki ráðist á.
Er við öllu búin.
Bloggar | 6.6.2011 | 10:19 (breytt kl. 10:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þeir sem hafa unnið á skrifstofum vita að það er til svona lítið áhald til að taka hefti úr blöðum, sem kallast almennt Tannhvöss tengdamamma.
Svolítið krúttlegt.
Auðvitað eru tengdamæður jafn misjafnar og þær eru margar. Átti til fjölda ára yndislegustu tengdamömmu sem ég hefði getað hugsað mér. Sú fær ekkert nema gullstjörnur í kladdann hjá mér.
En svo kynntist ég allt annari tegund.
Fyrstu kynnin voru alveg frámunalega hallærisleg.
Þetta var í upphafi tilhugalífsins. Kærastinn bjó hjá mömmu sinni (er ansi þaulsetinn þar). Ég lallaði mér upp að dyrunum í sakleysi mínu og hringdi bjöllunni. Kærastinn opnaði og byrjaði á einhverju kossaflensi. So what.
Þá kemur mamman. Sér okkur og byrjar að öskra. "Hvað er í gangi hérna eiginlega. Viljiði hundskast út. Ég vil ekki hafa svona í mínum húsum."
Mér blöskraði nú svolítið. Sko - kærastinn var að skríða í fertugt.
Á hlaupum okkar út úr húsi útskýrði kærastinn fyrir mér að allt kynferðislegt væri stranglega bannað á heimilinu.
Ekki var fundur númer tvö mikið skárri.
Móðirin horfði á mig einbeyttu augnaráði og sagði " Sko - hann hefur engu að tapa í þessu sambandi en þú hefur öllu að tapa".
Jú jú. Ég vissi svosem að hann var búinn að vera lengi atvinnulaus og frekar skuldugur. En þetta fundust mér nú frekar undarleg kynni.
Hefði samt betur hlustað á hana - merkilegt nokk.
Þegar leið á sambandið var mér boðið í mat. Heimilisfaðirinn var að grilla.
Og þarna sat hún og smeðjan lak af henni. Hún þreyttist ekki á að tala um allt þekkta og fína fólkið sem voru góðir vinir hennar. En skyndilega stóð hún upp og byrjaði að öskra á eiginmanninn. "Villtu fara og athuga með steikina! Já - strax!"
Síðan byrjaði smeðjan aftur.
Ég varð fljótlega vör við að hún talaði afskaplega illa um fólk sem hún áleit ekki samboðið sér. En lék hinn fullkomna gestgjafa, fyrir utan þegar hún skipaði heimilisfólkinu fyrir með hávaða og frekju.
Mér leið eins og ég væri stödd hjá einhverju afbrigði af Adamsfjölskyldunni. Beið eftir að loðni frændinn birtist úr kjallaranum.
Eftir því sem ég kynntist henni betur áttaði ég mig æ betur á því að þetta var manneskja sem ég gat illa fellt mig við. Hennar skoðanir voru hinar einu réttu. Og þær voru svo þröngar að þær hefðu allar komist fyrir í eldspýtustokk.
Henni virtist eðlislægt að setja út á allt og alla. Það var skelfingin ein að fara með konunni á veitingastað. Þar var hægt að finna að nánast öllu og aumingjas þjónarnir fengu sko að heyra það. Hún lét eins og hún væri sjálf Englandsdrottning.
Áður en ég vissi af var hún farin að stjórna mínu heimili. Í gegnum manninn minn. Börnin mín voru ómöguleg á einn hátt eða annann - og fengu að vita af því frá syni hennar sem hún notaði til að fjarstýra uppeldinu. Á mínum börnum.
Sonin hafði hún í vasanum. Hún hringdi minnst tvisvar á dag. Ef honum mislíkaði eitthvað þá var hringt í mömmu. Ef honum líkaði eitthvað þá var hringt í mömmu. Og mamma stútfyllti hann af sínum þröngu skoðunum.
Ef við urðum ósammála þá var hringt í mömmu til að fá back up. Þá var hægt að ráðast gegn mínum skoðunum af fullum krafti.
Mér var bannað hitt og þetta. Mátti t.d. alls ekki snerta svo mikið sem rauðvínsglas þar sem elsku sonurinn var (loksins á þessum tíma) óvirkur alki. Ég mátti hreinlega ekkert gera sem var á móti hans skapi. Þá var mamma komin í málið.
Hins vegar var hún ekki alltaf jafn vinsæl hjá honum. Ef þau voru ekki á sama máli. Þá var mér jafnvel tjáð að það borgaði sig ekkert fyrir mig að vera í sambandi við hana. Þá var nefninlega möguleiki á að hún væri á sömu skoðun og ég.
Þegar við skildum (hjónaband sem mamma hafði auðvitað ekki verið alveg sátt við - sem og önnur) losnaði ég við tvær stjórnsömustu og orðljótustu mannverur sem ég hef kynnst.
Get ekki annað en prísað mig sæla.
Auðvitað er hann aftur kominn til mömmu, þar sem hún stjórnar honum eins og óþekkum rakka.
Eflaust öskra þau þakið af húsinu á endanum - ekki yrði ég hissa.
Las það einhversstaðar að Hitler hefði komið úr mjög stjórnsömu heimilishaldi og verið mjög háður mömmu sinni.
Aha - hugsaði ég.
Það útskýrir ýmislegt.
Bloggar | 5.6.2011 | 18:09 (breytt kl. 18:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í gær var ég að leyta að plaggi, sem ég auðvitað ekki fann. Alveg dæmigert þegar manni vantar eitthvað og telur sig vera vissan um hvar á að leita.
Ég fann hinsvegar annað. Bréf sem ritað var til dómara af lögfræðingi.
Ég settist niður og las. Fékk tár í augun.
Bréfið varðaði kröfu um afhendigu barns.
"Þess er hér með krafist að ofangreint barn verði afhent móður sinni tafarlaust......."
"Í síðustu viku óskaði móðir eftir að faðir tæki barnið vegna jarðarfarar föður síns til viðbótar við reglulega umgengni....."
"Þegar skila átti barninu neitaði faðir og hefur frá þeim tíma haldið barninu frá móður sinni sem þó hefur reynt að nálgast það án árangurs. Frá þeim tíma hefur maðurinn hvorki leyft móðurinni að hitta barnið né ræða við það í síma."
"Barnið serm er aðeins 3ja ára gamalt hefur verið hjá móður sinni frá fæðingu og er því hiklaust haldið fram að maðurinn geti valdið barninu varanlegum skaða með aðgerðum sínum....."
Ég sat um stund með bréfið í fanginu. Verð að viðurkenna að munnvikin titruðu lítið eitt. Mundi svo vel daginn sem ég bar föður minn út úr kirkjunni. Mann sem ég dýrkaði og dáði. Fór dofin heim - ein. Grét.
Síðustu orðin sem faðir minn sagði við mig á dánarbeðinu voru " Ég elska þig líka".
Harkaði af mér tveim dögum síðar. Átt von á barninu mínu heim. En - það kom ekki. Ég fengi það ekki án þess að skrifa undir kröfur föðurins. Kröfur sem ég ekki gat sætt mig við.
Heimurinn sem var brotinn fyrir hrundi alveg.
Fékk ekki að nálgast barnið. Heyra í því.
Svona liðu vikur þar til mér var loks leyft að tala við það í síma.
"Mamma - hvenær batnar þér".
Þetta ástand varði í rúmar þrjár vikur uns dómur greip þarna inní.
Lengstu og verstu þrjár vikur ævinnar.
Að mínu mati ofbeldi.
Gagnvart saklausu barni.
Og mér.
Einungis vegna stjórnsemi. Sumir svífast einskis til að fá sínu framgengt. Sjá ekki einu sinni neitt athugavert við svona framkomu.
Það get ég aldrei skilið.
En kröfunum fékk hann ekki framgengt. Því þarna tók ég bestu ákvörðun lífs míns.
Enginn, aldrei, kæmist upp með að brjóta mig undir vilja sinn.
Og þar við stendur.
Bloggar | 4.6.2011 | 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það er misjafnt hvaða tjáskiptaform fólk velur sér. Einkum ef það vill vera í sem minnstum samskiptum við einhvern.
Einhverra hluta vegna valdi ég sms. Nei - það var reyndar það eina sem kom til greina. Hægt er að loka á póstsendingar frá ákveðnum póstföngum. Síminn var gjörsamlega ekki að koma til greina og þá stóð eftir sms.
Hef hvort eð er ekki mikið um að tala við þennan einstakling. Forðast það. Leiðist það.
Það kemur þó einstöku sinnum fyrir að mér blöskrar eitthvað svo mikið að ég verð að hafa orð á því.
Auðvitað er það eins og að tala við frosk:)
Skilningurinn gjörsamlega enginn - eða tilgangurinn svo svakalega misskilinn að maður hristir hausinn.
Slíkt tilfelli kom upp nýlega.
Ekki man ég nákvæmlega hvert erindið var. Þó snérist það alveg örugglega ekki um tilfinningar - hvað þá kynlíf.
Þegar ég fékk svar varð ég hreinlega að lesa það tvisvar áður en ég skellti uppúr.
Það var eitthvað á þá leið að við hefðum ekki sofið saman í svo og svo langan tíma (skrítið - þar sem það er liðinn svo og svo langur tími síðan einstaklingurinn hefur verið í meters fjarlægð). En líka eitthvað raup um hvað kona sem ég þekki til og virði að verðleikum, hefði notið þess oft og vel að vera með honum. Þó svo hún mundi segja annað (sem og reyndar hún gerði). Lýsingunum bar klárlega ekki saman. Enda gafst sú mæta kona upp á viðkomandi mjög fljótlega. Skörp stelpa.
Þetta samband var mér vel kunnugt enda löngu eftir okkar aðskilnað.
Ástæðan fyrir þessu svari er mér hinsvegar hulin ráðgáta með öllu.
Var þetta tilraun til að særa tilfinningar mínar?
Mögulega. Málið er bara að þær eru löngu komnar í ræsið (ásamt hringnum).
Var þetta tilraun til að upphefja einhverja karlmennsku?
Mögulega. En í mínum huga byggir karlmennska á allt öðru svo þetta virkaði í raun þveröfugt.
Annars fær hann stig fyrir að nenna að skrifa þessa ritgerð á símann sinn. Veit fátt leiðinlegra en að slá inn sms.
Hitt er annað að þetta svar var alveg út úr kortinu.
Varla átti þetta að vera fyndið.
En það var nákvæmlega það sem það var fyrir mér.
Bráðfyndið.
Brosti að þessu í marga daga (ásamt fleirum).
Bloggar | 4.6.2011 | 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var fallegur sólríkur dagur í Grasagarðinum. Ég beið eftir að hitta manninn sem ég hafði skrifast á við dágóða stund á netinu og hafði náð á einhvern afkáralegan hátt að sjarmera mig uppúr skónum. Hafði líka hitt hann. Hafði líka þekkt hann. En ekki á þennan hátt.
Reyndar var það ekki erfitt. Hann nefninlega vissi að ég átti í erfiðleikum í hjónabandinu og leið ekki vel. Auðvelt fórnarlamb. Hélt á þessum tíma að það væri hrifning, jafnvel ást. En maður þarf að læra svo margt á lífsleiðinni.
Hann birtist milli trjánna. Brosandi. Dillaði sér fyrir framan mig þar sem ég sat á bekknum. Svört snjáð skyrtan var opin niður á bringu - sýndi nokkur bringuhár (þau voru ekki mikið fleiri komst ég að síðar). Snjáðar þröngar gallabuxur í stíl. Töffari. Heillandi.
Hann byrjaði að segja mér sögur. Af sjálfum sér. Þegar hann bjó erlendis og lennti í alls kyns ævintýrum. Einu sinni var hann hætt kominn. Var að þvælast í erlendri borg. Vissi ekki fyrri til en hann var með skambyssu á gagnauganu. Heimtað að hann færi í hraðbanka. Skelfileg lífsreynsla. Ég nötraði öll og horfði á manninn. Vá hvað hann hafði lent í mörgu.
Seinna komst ég að því að hann gat talað um sjálfan sig endalaust og stanslaust. Eigið ágæti. Eigin upplifanir. Eigin sorgir. Eigin erfiðleika. Eigin drauma.
Ekkert annað komst að. Ég, ég, ég,ég. Aumingja ég. Enginn skilur mig. Allir eru á móti mér. Ég.
En að hlusta á aðra reyndist ekki eins auðvelt. Annarra líf var eitthvað sem honum var sama um. Nema það kæmi honum sjálfum við á einhvern hátt.
Það er ótrúlegt að kynnast hreinum og sönnum egóista. Einhverjum sem einvörðu hugsar um sjálfan sig. Allt lífið. Allt sjálfmiðað frá A til Ö.
Það er varasamt að flækjast inn í líf þannig persóna. Sérstaklega ef maður vogar sér að hafa eigin skoðanir. Eða vænta skilnings um hluti sem snerta mann sjálfan. Jafnvel að vænta samúðar eða skilnings ef manni líður ekki vel.
Það er enginn skilningur eða samúð. Ef hlutirnir ganga ekki eins og smurðir fyrir egóista, þá er fjandinn laus. Sérstaklega ef sá hinn sami getur mögulega kennt þér um allt sem miður fer. Sem að sjálfsögðu þeir gera.
Það kom að því að ég hugsaði til baka. Um þennan heillandi skemmtilega mann sem ég hitti í grasagarðinum. Árum seinna þegar líf mitt hafði verið tekið af mér. Traðkað niður. Ómarktækt og ómerkilegt.
Afhverju hleypti mannfjandinn í sögunni ekki af byssunni. Hvað líf mitt væri auðveldara þá.
Sparkaði svo í sjálfa mig í huganum. Svona hugsar fólk ekki. Þetta er ljótt. Bað almættið fyrirgefningar.
Vitandi þó að hann mundi svo sannarlega hugsa svona ef það hentaði. Og ekki skammast sín eina sekúntu. Væri sennilega mjög svo til í að riðja öllum úr vegi sem kæmu í veg fyrir að hann fengi það sem hann vildi.Svo lengi sem hann kæmist upp með það.
En til allrar lukku þá er ég ekki eins og hann.
Og fyrir það get ég þakkað endalaust.
Mér þykir vænt um fólk. Allskonar fólk. Enginn er fullkominn.
Sumum vorkenni ég.
Innilega.
Bloggar | 3.6.2011 | 17:34 (breytt kl. 17:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stjórnsemi er í langflestum tilfellum eitthvað sem ég kann illa við. Mjög illa.
Ég hef kynnst afar stjórnsömu fólki, svo stjórnsömu að ekki er hægt að líða vel nálægt því til lengdar. Fólki sem vill gleypa líf manns í einum munnbita. Sættir sig ekki við að aðrir hafa skoðanir. Öðruvísi skoðanir. Langanir. Öðruvísi langanir. Stjórnsemi svo gríðarlegri að viðkomandi svífst einskis, nákvæmlega einskis til að ná sínu fram. Til að stjórna.
Ég get ekki lifað við slíkt. Held að fæstum líði vel við þannig kringumstæður. Svo ég hef forðað mér útúr þeim.
Það er samt annarsskonar stjórnsemi sem stundum truflar mig.
Stjórnsemi eigin hugsana.
Merkilegt fyrirbæri þessar hugsanir sem skjótast upp í kollinn á manni gjörsemlega óumbeðnar. Með frekjugangi og látum. Jafnvel án þess að maður taki eftir þeim fyrr en allt í einu þær eru farnar að hræra í tilfinningum manns. Algjör ósvífni. Maður er jafnvel farin að tala um hluti eða gera hluti sem alls ekki var ætlunin.
Þó svo viljinn sé einbeyttur í því að hleypa þessum boðflennum ekki að, þá er maður stundum utan við sig. Viljinn í fríi, slökun, eitthvað.
Oftast hafa þessar áleitnu hugsanir eitthvað með minningar að gera. Bæði slæmar og góðar. Eða jafnvel vonir sem hafa ekki ræst.
Það læddist ein svona áleitin frekja að mér í dag.
Ég var að njóta góðrar stundar með börnunum mínum. Þau voru við leik og ég sat álengdar og horfði á. Horfði líka á trén sem eru óðum að grænka og blómstra. Hlustaði á fuglana syngja.
Áður en ég vissi af var ég dottin nokkur ár aftur í tímann. Hér höfðum við eytt góðum stundum sem fjölskylda. Hlegið saman. Haldist í hendur. Gleymt okkur í skemmtilegum umræðum. Verið ástfangin. Verið eitt.
Og áður en ég vissi af var þessi góða stund orðin að ljúfsárri minningu. Hún var farin að valda sársauka. Bara si svona.
Ég stóð mig að því að horfa á fólkið í kringum mig. Fjölskyldurnar. Mamma og pabbi með ungana sína. Fjölskyldur. Meðan ég sat hér ein og horfði á gullin mín. Færi síðan heim þar sem ekkert biði nema húsverkin. Þessi óendanlegu vanmetnu verk sem aldrei taka enda.
Ég bægði hugsununum frá mér í skjótheitum. Hættu þessari vitleysu manneskja. Það sem ekki gengur upp einfaldlega gengur ekki upp. Punktur - stór svartur hringlaga punktur.
En ég fann að gleðin sem hafði fyllt mig skömmu áður við að njóta þessarar stundar, á þessum stað með gullunum mínum var ekki söm. Það hafði dregið ský fyrir hana.
Ég stóð upp og bjó okkur til heimferðar. Öskureið út í sjálfa mig fyrir að geta ekki haft fullkomna stjórn á eigin huga. Leyfa frekjuganginum í mínum eigin haus að eyðileggja fyrir mér þessa ljúfu stund.
En svona er þetta víst í okkar mannlegu veröld.
Við getum forðast stjórnsemi annarra, þeirri sem veldur okkur skaða.
En það er verra að taka af sér hausinn til að forðast það sem þar getur ruðst að.
Reyni bara að vera meðvitaðri næst þegar heilinn og hugurinn ætlar að fara að stjórnlaust af stað.
Reyni.
Lofa ekki fullkomnum árangri.
Bloggar | 2.6.2011 | 17:51 (breytt kl. 18:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er kona.
Ég trúi á Guð og kærleikann í lífinu.
Ég hef upplifað margt. Lífsins skóli getur verið fagur og líka óvæginn, jafnvel illur.
Ég hef gert mistök.
Ég hef líka reynt mitt besta.
Ég kýs að læra af lífinu og þeirri reynslu sem það bíður uppá.
Ég hef verið bitur og reið. En lært að það er betra að vera án þessara tilfinninga.
Ég elska að skrifa.
Ég hef mikla lífsreynslu í bakpokanum og hún nægir í óteljandi sögur.
Ég kýs samt að láta lítið fyrir mér fara.
Ég vil ekki særa neinn.
Ég vildi samt getað megnað að vekja einhvern til umhugsunar.
Ég stjórna samt bara mér og mínu lífi - ekki annarra.
Ég vona að þið njótið skrifa minna og látið mig þá vita.
Ég mun þá halda áfram að deila minni reynslu og annarra.
Ég get líka þagað ef þið kjósið það frekar.
Ég bið Guð að blessa ykkur öll.
Bloggar | 2.6.2011 | 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)