Stundum vildi ég að ég væri þeim hæfileikum gædd að geta ráðið drauma. En er það því miður ekki...
Í vikunni dreymdi mig fjarskalega skrýtinn draum sem ennþá nokkrum dögum síðar er alveg ljóslifandi í minningunni.
Mér fannst ég vera í tjaldútilegu. Tjaldsvæðið var við hliðina á stóru og fallegu hóteli í flottari kanntinum. Það voru þrír rauðir turnar sem gnæfðu efst á því.
Allt í einu dregur ský fyrir sólu og það brestur á þessi svakalegi stormur. Í einni vindkviðunni sveigjast turnarnir líkt og þeir væru úr þunnu efni. Síðan byrjar hótelið að liðast sundur og hrynja. Fyrst hægri hliðin sem fellur frekar fjarri tjaldbúðunum. En síðan fer miðbikið að láta undan og hrynur yfir tjaldsvæðin. Ég átti fótum fjör að launa en náði að komast undan með börnin. En hvernig byggingin gjörsamlega hvolfdist yfir okkur var svo raunverulegt.
Gífurleg rigning fylgdi storminum og fólk var í óða önn við að koma sér í báta, burtu frá hamförunum. Ég komst í bát ásamt börnunum og pabba (sem er látinn) og það var silgt með okkur eftir göngum þar til við komum að höfn. Þar fórum við öll í gríðarstórt skip sem sigldi með okkur til Reykjavíkur.
Pabbi labbaði fyrstur um borð og þegar við vorum komin á áfangastað heilu og höldnu, þá kvaddi hann og fór með skipinu til baka. Ég vissi að ég sæi hann ekki aftur, en að honum liði vel.
Þar með endaði draumurinn.
Merkilegt hvað sumir draumar eru pikkfastir í hausnum á manni. Fannst þessi svo sérstakur að ég ákvað að geyma hann hér og deila með ykkur.
Athugasemdir
Vá merkilegur draumur. Gott að þú skrifaðir hann niður. Það gæti eitthvað gerst hjá þér, en líklega bjargast þetta samt allt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.7.2011 kl. 21:03
Ég mundi ráða þennan draum á þann veg að þú ert ávallt að hugsa um börnin og hvernig allt fari og þetta mun fara vel, leikmyndin í kringum draumin er tengd því sem er að gerast hér, útilegum og veðri og svo voðaverkunum í Noregi, allt þetta hefur hrætt þig, en það er ljóst að pabbi þinn fylgist með ykkur og mun sjá til þess að þú stendur uppi sem sigurvegari í því erfiða máli sem þú ert að kljást við. Þetta tel ég vera ráðninguna. kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 1.8.2011 kl. 12:48
ég skal láta þig vita um leið og ég finn draumaupptökuvélina sem mig langar svo í. Mínir draumer eru heldur ekki beint venjulegir og ég væri svo til í að sjá þá aftur eins og bíómynd meðan ég vaki svo ég gæti kannski lesið þá betur ! En hvað sem hann táknar þessi draumur þinn, þá mun hann enda vel :)
Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 1.8.2011 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.