Það geta fæstir efast um að ég þekki vel til skapgerðar míns fyrrverandi. Hef séð allar hliðar. Allt frá geislandi kæti yfir í ólýsanlega reiði.
Það skín úr augunum.
Ljómi sem getur fengið mann til að dilla af kæti - eða reiði og hatur sem getur fengið mann til að skjálfa af ótta.
Þetta er samt ekki illur maður í hjarta sér. Hann á margar góðar hliðar líkt og flestir. Góðu hliðarnar mjög yndislegar. Þær sem ég elskaði af öllu hjarta.
En svo kemur stjórnleysið - hamsleysið sem hann virðist ekki ráða við.
Reyndar er ég ekkert mjög hissa. Ég hef kynst því umhverfi sem hann ólst upp við. Yfirgengilegri frekjunni og stjórnseminni. Öskrunum og látunum.
Sem síðar er svo falið í sýndarmennsku. Sýndargóðmennsku og gæðum. Sem er í raun ekkert annað en ofurstjórnun. Heimting á algerri dýrkun og hlýðni. Oftast fengið fram með "stuðningi" þá helst fjárstuðningi.
Síðan er kvartað undan hversu erfiður þessi "stuðningur" sé. Jafnvel gert lítið úr viðkomandi. Það er ekki góðmennska.
Útávið á allt að virðast fullkomið. En það er stutt í kvikuna - stutt í óhljóðin.
Sumir virkilega trúa því að þetta sé "góð fyrirmynd og gott uppeldi" en ekki sá sem þekkir. Það er auðvelt að láta blekkjast af fólki sem hagar sér svona - gagnvart sínum nánustu, en ekki útávið.
Það blekkti mig aldrei.
Mig undraði aldrei að hann skyldi sökkva í undirheimana á sínum tíma. Með þetta heimilislíf.
Það sem ég gerði rangt var að halda að honum væri batnað og hann skynjaði þetta sjálfur. Stundum virtist hann gera það - talaði um þetta uppeldi. Talaði jafnvel um að það væri ekki bjóðandi börnum.
En svo er alltaf hlaupið til baka - í þetta eina "skjól" sem hann þekkir. Og þá er allt gleymt - þá má bjóða hans börnum upp á það sama. Ef það hentar honum. Frekar að segja ósatt en að fá ekki sínu framgengt. Það er reglan. Lærð hegðun.
Ég vil þetta ekki fyrir barnið mitt. Barnið vill það ekki heldur. Biður um að þurfa ekki að eyða öllum þessum tíma á þessu heimili. Sama heimili og átti þátt í hans skemmdum. Öskrunum. Stjórnseminni.
En þar er ekkert gefið eftir. Nú er þetta orðið teymi sem berst saman á móti mínum óskum. Óskum sem eru einungis fyrir barnið mitt.
Og hvað gerir kerfið?
Ekkert.
Þó svo faðirinn hafi aldrei sýnt fram á að geta séð um sjálfan sig - hvað þá barn. Það er ekki skoðað. Hver skyldi hafa séð fyrir honum mest hans líf?
Aldrei hann EINN - það þurfti alltaf stuðning. Ef ekki foreldra, þá kvenmanna. Sem entust illa.
Að sami aðili og sagði við mig fyrir brúðkaupið " þú veist að það er ekki í lagi með hann" segi í skýrslu fyrir dómstóla að hann "geti vel hugsað um barn". Það þykir mér athyglivert.
Ekki það að hann geri það - heldur ÞAU!
Barnið biðst vægðar - að þurfa ekki að vera of mikið í þessu umhverfi.
Hver hlustar?
Enginn.
Nema ég.
Hún mun á endanum standa upp og berja í borðið. En hvað þurfa að líða mörg ár? Og hversu mikið þarf henni að líða illa þangað til.
Ég hef djúpa fyrirlitningu fyrir svona fólki. Sem hugsar meira um eigin hag en barnanna. Hvað ÞAU vilja umfram hvað barnið vill.
Djúpa fyrirlitningu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.