Þegar ég var lítil þá trúði ég á jólasveininn.
Ég trúði líka á Guð. Amma mín kenndi mér það.
Einhverntíma á lífsleiðinni - man ekki hvenær - fór ég að efast um tilvist hans. Hvernig gæti algóður Guð látið alla þessa slæmu hluti gerast án þess að grípa inní? Afhverju dauði um aldur fram? Afhverju ofbeldi og stríð? Afhverju - afhverju?
Afhverju tók hann ömmu?
En maður þroskast og veit að lífið hefur sinn gang. Réttlæti er ekki endilega í höndum Guðs. Mannvonska er ekki honum að kenna. Hún er alfarið mannanna.
En hann er með okkur. Hann leiðbeinir þeim sem vilja hlusta, sem vilja leyfa honum að leiðbeina sér. Þeir sem ekki hlusta, heyra ekki. Þeir sem ekki vilja sjá, sjá ekki heldur æða áfram í blindni.
Að lokum fann ég hann aftur. Guð. Æðri mátt. Hið góða sem leiðbeinir okkur og leiðir okkur áfram.
En það þarf að gefa honum tækifæri til að vísa okkur veginn. Mannfólkið getur verið svo stjórnlaust og ætt áfram í svo taumlausri reiði, sjálfselsku og vantrú - að Guð getur ekki leiðbeint því.
Guð þröngvar sér ekki inn í líf okkar.
En ef við bjóðum Guð/æðri mátt velkominn, þá er hann til staðar fyrir okkur.
Það er engin spurning - okkur er vísað í réttar áttir ef við bara trúum og treystum.
Við þurfum ekki einu sinni að vera fullkomin. Hver ætlast til þess.
Við lokum augunum og réttum út hendina. Án efa verður tekið í hönd okkar og við leidd áfram.
Okkar veg.
Ég hef fulla trú á að mín örlög séu í höndum þess sem er mér æðri og máttugri. Ef ég leyfi honum að leiða mig réttan veg, þá verður sá vegur góður.
Í þessari trú get ég brosað við nánast öllu. Ákveðið að gefast aldrei upp - því ég muni vera leidd áfram veginn.
Að trúa þýðir ekki það að maður sé aldrei hræddur. Aldrei einmana og líði aldrei illa.
Það þýðir hinsvegar að maður trúi því að hlutirnir fari á besta veg - kannski ekki á morgun eða hinn. En mjög bráðlega.
Auðvitað þarf maður sjálfur að taka þátt. Guð gerir ekki allt fyrir mann. Hann borgar ekki vísakortið þitt - svo mikið er víst.
En - ef þú leyfir honum, þá vísar hann veginn.
Veginn að hamingju.
Athugasemdir
Já og hver er sinnar gæfusmiður er líka hárrétt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.6.2011 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.