Færsluflokkur: Bloggar

Eymingjar

Í okkar þjóðfélagi lifa og hrærast heilu hrúgurnar, heilu tonnin af eymingjum. Eymingjar af báðum kynjum, úr öllu starfsstéttum og af öllum sortum.

Það eru eymingjarnir sem sitja spilltir í valdastöðum og hugsa um lítið annað en að skara að eigin eldi, vitandi að aðrir þurfa að blæða fyrir vikið. Þessir eymingjar ráðast að lítilmaganum - fólki sem það þekkir ekki og er skítsama um. Siðferðið er nú ekki alveg með í spilunum hjá þessum eymingjum, nú eða náungakærleikurinn. En það á nú við um flesta eymingja. 

Svo eru það eymingjarnir sem sjálfsagt vildu gjarnan sitja í valdastöðum en hafa engar til að sitja í. Þekkja ekki nógu mikið af öðrum eymingjum. Líkt og fyrri hópurinn nota þeir annað fólk til að hafa það sem best sjálfir. Svíkja og pretta í aðeins minni stíl en gera það engu að síður. Fá kannski aðra til að skrifa uppá fyrir sig, ábyrgjast sig - en er svo skítsama um þá þegar kemur að skuldadögum. Þetta eru kannski valdalitlir eymingjar en lítt skárri, því oft vega þeir að smærri hóp sem þeir jafnvel þekkja til. Ekki eingöngu nafnlausum kennitölum.

Nú skulum við skoða eymingjana sem hreinlega ráðast gegn sínum nánustu - jafnvel fyrrum nánustu. Þar er það sama uppi á teningnum, nema þeir hafa ekki mjög stóran hóp til að stunda eymingjaskap sinn á. Þessir eymingjar blása sig út með lygar og fölsk loforð í farteskinu. En þegar upp er staðið er áherslan bara á þá sjálfa. Að þeir sjálfir hafi það sem best og að þeir sjálfir fái það sem þeir vilja - hvernig sem þeir fara að því. Þessir eymingjar eru alveg til í að selja ömmu sína og mömmu - allavega láta þessar elskur borga fyrir sig eða láta skuldir falla á sitt eigið fólk. Siðblindan er ríkjandi þarna sem annarsstaðar.

Síðasta sort eymingjanna eru þeir sem ráfa um með sitt risastóra Egó og leita einstakra fórnarlamba til að nota eymingjaskap sinn á. Þykjast mestastir og flottastir en eru auðvitað bara eymingjar. Þessi tegund eymingja nota kannski ekki vald sem þeim er gefið af öðrum - þeir beita valdi á einstaklinga. Nota stjórnsemi, hótanir, kúganir jafnvel ofbeldi. Leika sér að því að brjóta niður einstaklinga og sparka í þá liggjandi. Ef ekkert er meira af þeim að hafa og þeir þjóna ekki lengur tilgangi sínum sem máttvana stuðningsmenn þessara eymingja er best að henda þeim útí horn, reyna að hirða allt af þeim og skilja eftir í skítnum. Svona eymingjar geta samt ekki hætt þegar þar er komið. Þeir þrífast á mannfyrirlitningu og stjórnsemi - að geta sýnt vald sitt með því að kúga aðra. Beita foreldra, maka og börnum fyrir sér í eymingjaskap sínum og er nokk sama um hvað um þessa einstaklinga verður. Bara svo lengi sem þeir fái sitt.

Allir eiga þessir eymingjar það sameiginlegt að reyna stórum að breyða yfir skítinn sem þeir moka upp og eigin eymingjaskap. Siðferðið er í algjöru lágmarki, ef það er til yfir höfuð. Þetta eru meistarar lyga og blekkinga. Ábyrgðartilfinning er ekki til í þeirra orðabók, hvað þá tillitssemi og náungakærleikur (nema í fögrum innantómum orðum). Háværar tómar tunnur sem sjaldnast ná nokkrum markmiðum öðrum en að brjóta niður fólk. Andlega, líkamlega og fjárhagslega. Á meðan þeir blása sig út og þykjast flottir pappírar.

Já - við lifum með tonni af eymingjum í þessu þjóðfélagi og öðrum. 

Því verður væntanlega seint eða aldrei breytt. Fólk verður bara að reyna að vara sig á þessum eymingjum og læra að þekkja þá úr fjöldanum.

Það er erfitt að vara sig á eymingjunum sem sitja í valdastöðum, en betra að reyna að forðast hina. Ef þú óvart lendir í klónum á einum þá er ekkert nema að vera fljótur að forða sér.

Öllum þessum eymingjum er í raun vorkunn. Þeir missa af þeirri góðu gjöf sem mannkærleikur er. Þeir missa af því að geta fundist þeir í raun vera öðrum til góðs. Og ég stórlega efast um að eymingjar nái nokkurntíma að vera í raun hamingjusamir.

Aumingjans eymingjarnir.


Afhverju þegir fólk?

Allir vita að ofbeldi í hvaða mynd sem það er - er ekki liðið.

Í barnalögum kemur þetta t.d. skýrt fram.

Enginn skilur afhverju fólk þegir þunnu hljóði þegar einhversskonar ofbeldi á sér stað innan fjölskyldu. Svo uppveðrast allir ef greint er frá slíku samanber fréttir í DV nú uppá síðkastið.

Hvernig gat þetta átt sér stað?

Afhverju sagði enginn neitt?

Afhverju gerði enginn neitt?

Það eru margar ástæður þess að heimilisofbeldi - í hvaða mynd sem það nú er - er eitt best geymda leyndarmálið.

Er fórnarlambinu trúað? Sem oftast er orðið niðurbrotið á sál og líkama.

Stundum, þá helst af þeim sem þekkja það mjög vel - ásamt geranda. Aðrir tvístíga. Viðkomandi finnst það kannski orðið svolítið tæpt - svokallað fórnarlamb. Skrítið - hver er ekki tæpur eftir jafnvel margra ára kúgun?

Heldur fólk að t.d. Kvennaathvarfið sé heimsótt af konum sem skína af gleði og sjálfstrausti?

Svo er annað. Er einhver til í að standa með þeim?

Oftast er þetta svo viðkvæmt mál að flestir vilja ekki láta bendla sig við það. Eru jafnvel smeikir við gerandann, ef þeir á annað borð trúa fórnarlambinu.

Langoftast er fórnarlambið talið ruglað - hlýtur bara eitthvað að vera að hjá þessari/þessum. 

Þetta er síðan styrkt af dómskerfinu. 

Í dómskerfinu er mikilvægt að viðkomandi skíni af sjálfsöryggi og heilbrigði. Það er trúðverðugt.

 

Og alltaf finnst fólki jafn skrýtið að heimilisofbeldi sé svona mikið leyndarmál.

Afhverju skyldi það vera þannig?


Dómarar götunnar

Til allrar Guðs lukku lenda ekki margir í því að slíta sig úr því sem ég kalla ofbeldissamband (getur verið af öllum gerðum og styrkleikum) og fá í kjölfarið að berjast fyrir því sem maður telur vera best fyrir barnið sitt.

Ég hef talað um hversu illa dómskerfið virkar. Hversu óöruggt barnaverndareftirlitið getur verið, þó svo maður verði að leggja allt sitt traust á það. Hægvirkt. En stundum árangursríkt.

Ég hef talað um sönnunarbyrgði dómskerfisins, sem oft er ansi flókin.

Þeir sem hafa lent í svona málum þekkja sálarkvalirnar. Sumir fá taugaáfall, hjá öðrum klikkar ónæmiskerfið - flestir þurfa lyf og örugglega allir stuðning. Ég þekki of mörg tilfelli - þar sem ýmislegt hefur klikkað þegar álagið var sem mest.

Þeir sem einungis þekkja samvinnu og skilning (kannski ekki fullkominn - en þó) þegar um skilnaðarbarn er að ræða geta aldrei, aldrei - sett sig í þessi spor.

En allir eru til í að hafa sína skoðun - já og dæma!

Hver þekkir barnið og fyrrverandi maka betur en sá sem stendur í þessum málum?

Engin!

Hvorki dómarar réttarsalsins né dómarar götunnar hafa lifað þessu lífi, kynnst þessu heimilislífi eða þekkja skapferli og manngerð þess sem er í deilu. Þekkja ekki barnið, hafa ekki séð það gráta og verið hrætt, hafa ekki séð skapgerðarbreytingarnar - og svo framvegis.

En þetta eru dómararnir. Þeir sem minnst vita - en dæma hvað harkalegast. Sérstaklega dómarar götunnar. Því þeir hafa ekki einu sinni gögnin til að glugga í. 

"Þú verður að vera sterk/ur fyrir barnið þitt. Þú gerir því ekkert gott með því að vera tilfinningaflækja". " Þú ert orðin algjört dramadýr og hundleiðinleg/ur - ekkert skrýtið að þú eigir ekki vini lengur". " Þið eruð ekkert að hugsa um barnið með þessari baráttu - eigið það ekki skilið". " Þetta er ekkert uppeldi á barninu - þú ert allt of eftirlátssamur/söm og ert að ala upp frekjudýr". "Taktu þig saman í andlitinu og vertu ekki með þetta væl." " Það skilur enginn hvað er að koma fyrir þig - þú ert á allra vörum sem eitthvað frík." "Þú ert vanhæf/ur ef þú getur ekki verið eins og venjulega".

Foreldrið sem berst við hitt foreldrið - ekki af því það vill það, heldur vegna þess að það er nauðsynlegt - fær að hlusta á þessa dóma. Þessi orð óma í hausnum í sjúkrabílnum eftir að hafa fengið taugaáfall. Eftir að ónæmiskerfið er hrunið. Eftir að hafa reynt að vera svo sterk/ur of lengi að það væri ekki hægt að leggja á nokkra mannveru án þess að hún skaðist.

Hugsandi "djöfuls aumingi er maður að vera ekki hip og cool, brosandi hringinn, dansandi Salsa og hrókur alls fagnaðar. Sterkari en Jón Páll og fullkomnari en Jesú og með allt á tæru. Taka hið fullkomna uppeldi með annarri og fjármálin með hinni.

Það er frábært að standa svo til einn í heiminum, í svona baráttu (athugið - ekki af löngun) og fá þennan yndislega stuðning frá þeim sem maður jafnvel hélt að væru vinir sínir.

Auðvitað ljómar maður af hamingju og þakklæti.

En mig langar samt til að vara dómara götunnar við.

Þessi manneskja sem er undir þessu álagi og að ganga í gegnum þessa hluti er eðlilega ekki sterkasta kvikindið í götunni rétt þessa dagana. 

Og ef ykkur blóðlangar að fylgja henni/honum í gröfina, þá er þetta rétti andinn. 

Ef ekki - reynið að sýna smá skilning í smá tíma - það drepur ykkur ekki.

 

 


Hræðileg frásögn ungs drengs

Þegar ég opnaði tölvuna í dag blasti við mér fásögn ungs drengs á Pressunni (síðan DV) sem lýsti því sem hann mátti ganga í gegnum - sínu heimilisofbeldi.

Veit ekki hvort þið lásuð þetta:

http://www.pressan.is/ATH_efni/Lesa_ATH_efni/skrifadi-um-ofbeldi-pabba-sins-a-netid-er-ottasleginn-en-folk-tharf-ad-fa-ad-heyra-sannleikann

Það var ekki hægt annað en að tárast yfir þessari frásögn. Ekki voru kommentin sem fylgdu betri - þ.e. það er eins og enginn átti sig á því að heimilisofbeldi er bara fjári algengt í ýmsum myndum.

Og hvað gerir kerfið?

Ekkert.

Heimilisofbeldi er varðveittasta leyndarmál allra tíma. Það er skömm. Það er hræðsla niðurbrotinna fórnarlamba við að missa það sem þeim er kærast. Heimilið og börnin.

Ef þið lesið þessa grein - þá að sjálfsögðu fylgdi forsjárdeila. Það er alltaf fylgifiskur heimilisofbeldis. Áframhald af ofbeldinu.

Það sem ekki var hægt að lesa í þessari grein er, að ofbeldismaðurinn fékk forræði yfir drengjunum eftir að hafa brotið móðurina gjörsamlega niður. Þessvegna heldur það áfram. Til allrar lukku er sá eldri orðinn nógu gamall til að fara sinna ferða. Það á ekki við um þann yngri. Hann fær vart að tala við móður sína.

Merkilegt (og mjög kunnuglegt) þá flúði barnsfaðirinn til móður sinnar, býr þar og hún styður hann í öllu þessu. Er sögð ansi stjórnsöm sjálf. 

Hrollur - kannast við þetta.

En ég veit að móðirin berst áfram og ég vona að yngri drengurinn hennar komist til hennar fyrir rest.

Er virkilega ekki kominn tími til að fólk taki höndum saman, opni umræðurnar og komi í veg fyrir að dómarar geti dæmt börn í hendur ofbeldismanna.

Á sama tíma tek ég hatt minn ofan fyrir þessum unga manni.

Ég vona að umræðan sem hann hefur skapað með þessu verði til þess að fólk átti sig á hvað er að gerast hjá börnum í kringum okkur og að þögninni verði aflétt - dómar verði í samræmi við gögn sem styðja mál barnanna sjálfra, ekki foreldranna.

Megi þessari áþján barna okkar samfélags vera lokið.

Tími kominn til.

 

 


Gat ekki annað en brosað

Það er með ólíkindum hvað sumt fólk heldur að það geti áorkað - á frekju og leiðindum einum saman.

Stundum meira að segja er ruglan svo fáránleg að maður getur ekki annað en brosað. Þótt málefnin séu síst brosleg.

Það er ekki eins og ég vilji að litlan mín sé alveg sambandslaus við föður sinn - alls ekki. Þótt það sé það sem hann telur öðrum trú um :)

Sum mál taka langan tíma og að barnavernd úrskurði bráðabirgðaumgengni er eitt af þeim málum. Þess vegna bauð ég föður þeirrar litlu að heimsækja hana svo lengi að það yrðu engin leiðindi. Halda sambandi. 

Merkilegt nokk - maðurinn sem er svo ákafur í að vilja hafa barnið sitt í það óendanlega, þáði það ekki. Greinilegt að hann vill frekar ekki hitta barnið en að þurfa að gera það ekki á eigin forsendum. 

Nú jæja - hann um það.

Síðan kom hann með rúsínuna í pylsuendanum. Að hann ætlaði í nýja forræðisdeilu. Aftur og nýbúinn.

Þá gat ég nú ekki annað en brosað.

Ekki vann hann þá síðustu og mun ekki vinna aðrar. Ekkert hefur breyst frá síðustu deilu nema sú staðreynd að ég hef fullt forræði.

Mann anginn er ekki að fatta að hér býr barnið á því heimili sem það hefur þekkt frá upphafi, er með félögum sínum í leikskóla sem hún þekkir, býr með systur sinni ofl. ofl. sem mjög svo er litið til í forræðismálum.

Að mínu mati gæti hann eins reynt að verpa eggi eins og að ná forræði af móður barns sem býr hjá henni við ást og öryggi. Hefur alla tíð gert. Líður vel og mundi aldrei vilja skipta um búsetu sjálf.

Halló - er einhver heima?

Það sjá allir að ekkert yrði eins skaðlegt fyrir barnið og að flytja af heimili sínu og frá móður, systur og öllu sem það þekkir best. Vinunum. Leikskólanum. Öllu.

Skildi hann vera að taka tillit til þarfa barnsins?

Uh - nei. Augljóslega ekki.

Bara drullufúll yfir að hafa ekki algjöra stjórn yfir aðstæðum, barninu og mér.

Skildi hann virkilega ekki átta sig á því að allir sérfræðingar munu sjá í gegnum þetta?

Skildi hann virkilega halda að ég sé smeik við hann og svona aðgerðir?

Duh

Nei!


Sannleikurinn

Alla daga reyni ég að vera æðrulaus. Taka hverjum degi eins og hann er.

Sátt?

Nei.

Ég er fangi í þessum veruleika. 

Á svo margt gott til að gera, býðst svo mörg tækifæri í ýmsum málum. Gæti verið á fullu í að gera alls kyns skemmtilega hluti. Sem ég þarf að neita. Þarf að sinna öðrum málum.

Horfi stundum á allt það sem mér býðst að taka þátt í næstum með tárin í augunum. 

Hef ekki efni á barnapíu. Hef ekki barnsföður sem sýnir ábyrgð. Á ekki foreldra á lífi. Ekki systkini á landinu. Aðrir sem ég þekki eru uppteknir af vinnu - eðlilega.

Hef komist að því að fólk forðast þau vandamál sem ég stend í. Þau eru íþyngjandi. Flestir eru hræddir við að blandast í eitthvað vesen. Ég reyni ekki að tala við karlmenn eða kynnast þeim. Veit að þessar aðstæður eru ekki fyrir hvern sem er.

Það sem ég hef hins vegar fundið eru sannar hetjur. Fólk sem þorir að taka þátt í lífi konu sem berst fyrir sér og sínum.

Vitiði hvað það eru fáir?

Skammarlega fáir.

Jafnvel þótt fólki sé engin hætta búin þá hörfar það og felur sig bak við afsakanir. Bakkar og hverfur jafnvel. Bestu vinirnir horfnir. 

Merkilegt.

Þegar allt er eins og í bandarískri draumamynd - þá svermir fólkið að. Um leið og eitthvað gerist - sem þú hefur ekki áhrif á, en berst á móti - allir horfnir. Farnir í næstu bandarísku draumamynd og þú færð ekki að vera með.

Ég fékk smá skýringu í dag.

Þú stendur í "deilum".

Fjandakornið - ég stend ekki í neinum deilum. Hata deilur. En ég stend með börnunum mínum alla leið.

En það er nóg til að fá ekki að vera með. Ekki gjaldgeng. Ég berst fyrir velferð barnsins míns. Ekki gift, ekki til í allt, ekki gallalaus, vandamálapakki í kringum mig.

Gölluð.

Það sem mér er ekki sama.

Fólk með svona hugsunarhátt, karlmenn eða kvenmenn, geta bara brosað framan hina vammlausu félagana og skellt hurðum á raunveruleikann. Þar til þau festast þar sjálf.

Ég mun samt vera áfram vinkona/vinur þeirra

Enda tel ég mig þroskaðari en svo að láta umhverfið mig skipta.

Yfirborðið.


Hvað gerist?

Nú bíð ég eftir að barnaverndarnefnd kveði úr um bráðabirgðaumgengni. Slíkt tekur tíma þar sem barnaverndarnefndir tveggja sveitafélaga þurfa að vinna saman.

Fram að þeim tíma þori ég ekki að skilja barnið við mig. Hafandi reynslu af því að það sé hrifið á brott bæði af leikskóla og sínu eigin heimili.

Hleypi engum inn nema ég viti hver er fyrir utan.

Barnið getur ekki farið á leikskólann sinn. Kerfið hefur ekki vald til að vernda hana eins og er.

Merkilegt þetta kerfi sem við búum við.

Auðvitað er þetta allt tilkomið af fyrri reynslu. Afhverju í ósköpunum getur fullorðinn maður ekki áttað sig á því hvað svona læti gera litlu barni. Eins og hún hafi ekki tilfinningar? Eins og honum sé sama þótt hún hræðist hann þegar hann missir stjórn á skapi sínu. Eins og honum sé sama þegar barnið grætur af vanlíðan.

Auðvitað hef ég fengið hótanir. Hún verði sótt með góðu eða illu.

NEI - ekki meiri illsku fyrir framan barnið. Alveg komið gott. Þetta sagði ég honum, en sumir sjá ekki nálina í eigin auga. Neita að viðurkenna að eigin framkoma geti skaðað barnið.

Hvað er eiginlega að?

En - ég læt mig ekki. Læt mig aldrei. Ef fólk er of treggáfað til að átta sig á tilfinningum barna og hvernig hægt er að brjóta þau niður á þennan hátt, þá hefur það minnst við börn að gera.

Ekki veit ég hvenær og hvernig kerfið vinnur úr þessu.

En ég veit að ef eitthvað virkar í þessu kerfi, þá verður barnið mitt betur statt á eftir.

Ég trúi á að almættið sjái um sína. Þá sem hafa kjark til að treysta á það.

Ef gerð verður minnsta tilraun til að nálgast barnið með illu - þá er það enn ein nálin í auga þess sem framkvæmir og mun þurfa að svara til saka að lokum.

It will only bite you in the ass!


Litla hjartað

Hún kom heim í dag.

Fyrst í stað alveg lokuð. Það er greinilega mikið búið að ganga á og mikið búið að "forrita" litlu telpuna mína.

"Ég á að vera döpur" sagði hún.

Allt var leyndarmál. Ekkert mátti segja.

Sem móðir reyndi ég að athuga hvernig málin stæðu.

Mér blöskraði hræðsla hennar. Hræðsla við að missa mig og aðra.

En hún tók gleði sína á ný - hætti að vera döpur.

En hún er hrædd við eitthvað sem ég ekki veit hvað er. Hvað hefur verið sagt við hana?

 

Ég sver og sárt við legg.Mun greina frá því síðar.

Svona líð ég ekki.


Atburður dagsins - ótrúlegur.

Það er hálfur mánuður á morgun síðan faðir litlunnar tók hana héðan með valdi.

Ekki með hennar vilja og ekki með mínum. Guð einn veit hvað honum vill til, ekki veit ég það.

Málið er komið í barnaverndarnefndir bæði í Reykjavík og Kópavogi. Mín von er að loksins sjái einhvert yfirvald eitthvað athugavert við svona framkomu gagnvart litlu barni.

Hann lofar þó að koma með hana á morgun - eins gott að hann standi við það, annað yrði barninu mínu offviða.

Í dag sat ég í blíðviðrinu framan við kaffihús í Reykjavík ásamt vini mínum. Vorum búin að njóta blíðunnar í miðborginni í nokkurn tíma.

Þá sé ég hvar þau koma. Barnsfaðir minn og litla dóttir mín. Setjast skammt frá og panta eitthvað.

Að sjálfsögðu röllti ég til hennar og tek utan um hana. Hún faðmaði mig að sér - bað mig um að fara ekki. Ég sagðist ekkert vera að fara, sæti þarna rétt hjá og hún gæti komið til mín þegar hún vildi.

Ég sá bros á litla alvarlega andlitinu hennar.

Skömmu síðar kemur hún hlaupandi í fangið á mér. Það eru tár í litlu augunum.

"Mamma - ég elska þig og ég sakna þín".

Ég faðmaði litla barnið mitt og sagði það sama við hana. Hún kæmi heim á morgun og allt yrði í lagi. Hún þyrfti ekki að gráta.

Faðir hennar kom stuttu síðar og leiddi hana burt. Hún hlýddi. Vonandi með gleði í hjarta, vitandi að hún kæmi heim á morgun.

Hendurnar á mér skulfu þegar ég reyndi að fá mér sopa af kaffinu mínu. Vinur minn, sem aldrei hafði séð þá litlu áður var furðu lostinn. Ekki furða. Ég útskýrði málið í fáum setningum, vildi svo ekki tala um það meir. Langar ekki að fólk kynnist mér sem einhverju "braki" sem á í svona vanda. En það er jú staðreyndin - vandinn sko.

Kannski sé ég hann aldrei meir fyrir vikið. Það verður að hafa það.

En það er eins gott að litlu telpunni minni verði skilað á morgun - annars brestur litla hjartað alveg.

Það er líka eins gott að barnaverndaryfirvöld taki tillit til litlu telpunnar minnar. Næg eru vitnin.

Af hverju er til svona fólk?

Hvað gerði hún til að eiga þetta skilið?


Ég hata ekki

Sumir segja að ást og hatur séu mjög tengdar tilfinningar og oft breytist ást í hatur.

Það er sennilega margt til í því. Allavega er hatur tilfinning sem er beint að einhverjum aðila. Jafn sterk og ástin getur verið.

Ég væri lygari aldarinnar ef ég segði ekki að undanfarin tvö ár hefði ég ekki borið tilfinningar til þess sem hefur reynst mér verst. Tilfinninga rússíbana einhvernskonar. Á erfitt með að henda reiður á hverskonar tilfinningar það voru, sennilega öll flóran.

Þessi tilfinninga rússíbani spilaði vissulega inní mörg erfið mál á þeim tíma og gerði þau síst betri. Tilfinningar eru líka oft túlkaðar manni í óhag enda geta þær komið manni úr jafnvægi. Látið mann segja hluti sem annars hefðu aldrei verið sagðir og meira á þeim nótunum.

Sumir geta meira að segja notfært sér tilfinningaástand fólks sem á í erfiðum málum og verkefnum.

Svo gerðist það einn daginn - eins og hendi væri veifað.

Ég fann ekki lengur neinar tilfinningar í garð þessa manns. Nada - engar. Hvorki góðar né slæmar.

Alveg sama hvað hann djöflast og gerir á hlut minn og minna - engar tilfinningar. Ekki frekar en ég ber til umferðarmerkjanna, auglýsingaskilta - dáinna hluta.

Tilfinningarnar snúa allar að barninu mínu í þessum kringumstæðum. 

Að sama skapi get ég ekki beint talað um náungakærleik í þessu tilfelli. Samt þykir mér afskaplega vænt um fólk almennt og trúi á þennan kærleik.

En það er þvílíkur léttir að vera komin á þennan stað loksins.  Laus úr þessum rússíbana tilfinninga sem aldrei var boðið formlega að taka þátt í verkefninu.

Léttir.

Sátt.

Samt einkennilegt. Til að mynda ber ég þægilegar náungatilfinningar til barnsföður eldri barnanna minna. Ekki ást - bara virðingu og væntumþykju. Náungakærleik.

En ég hata ekki.

Engann.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband