Réttur barnanna okkar

Undanfarin tvö ár hef ég rætt við - og hitt konur sem hafa lent í ótrúlegustu hlutum.

Saga sumra voru blóði drifnar, aðrar drukknaðar í tárum.

Það allra sorglegasta er - að í öllum tilfellum þá voru fleiri en eitt fórnarlamb. 

Börnin fengu þyngsta og erfiðasta áfallið. Versta dóminn. Stærstu sárin á sálina. Fullkomlega saklaus.

Margar þessara kvenna höfðu farið dómsstólaleiðina. Í þeim tilgangi einum að forða börnunum sínum frá frekari sárum. Frekara upplifun ofbeldis á einhverjum stigum. 

Enginn - og ég meina enginn heilbrigður einstaklingur sem kemur úr heilbrigðu sambandi, getur svo mikið sem ímyndað sér frumskóginn og erfiðleikana sem þessar hetjur ganga í gegnum.

Börnin okkar hafa nefninlega engann lagalegan rétt. 

Það eru foreldrarnir sem hafa allan réttinn. Lögin taka ekki tillit til tilfinninga. Ung börn eru talin ómarktæk. Gert er fyrirfram ráð fyrir því að þeim sé innprentað það sem þau segja.

Svo lengi sem þau eru ekki þess meira niðurbrotin - helst með öxina í höfðinu, þá eru þau ekki í hættu. Lögin krefjast skilirðislausra sannanna. Svona líkt og að hafa morðhótun upp á vasan, undirritaða af hinum einstaklingnum. Ég er ekki að grínast. Eina málið sem hefur fengið öðruvísi meðferð fyrir dómi var einmitt vegna þess að móðirin hafði slíkt upp á vasann. Hversu oft haldið þið að það gerist?

Tískufyrirbæri eru ekki bara í fatabransanum. Þau eru allstaðar. 

Þegar ég eignaðist fyrsta barnið þá var skylda að láta nýfædd börn liggja á maganum. Slíkt taldist vera best fyrir barnið og koma í veg fyrir ungbarnadauða. Þegar ég eignaðist næsta barn var stórhættulegt að láta þau liggja á maganum, þau skyldu sofa á hliðinni. Þegar þriðja barnið fæddist þá voru öll börn látin sofa á bakinu.

Ég var semsagt komin hringinn í svefnstöðu ungbarna.

Tískan í umgengni nútímans er 50/50 umgengni. Það er talið best samkvæmt sálfræðingum. Burtséð frá þörfum einstaka barns, aldri eða tengslum. Þetta á að eiga við öll börn, líkt og þau séu öll greypt í sama mótið. Þetta er það sem sálfræðingar í dag leggja út með þegar þeir ákvarða hvað sé best fyrir barnið. Í dómsmáli. Þó svo þeir þekki barnið afskaplega lítið.

Ég get sagt ykkur sögu sem ekki tengist mér persónulega. Hjón skyldu frá barni innan við eins árs gömlu. Þau bjuggu eftir það á sín hvorum landshlutanum. Þetta gerði eðlilega viku/viku umgengni erfiða svo það var ákveðin mánaðar/mánaðar umgengni. 

Barn á þessum aldri þarf að tengjast móður föstum böndum. En það var ekki leyfilegt - ekki í tísku. Blessað barnið mátti ekki af móður sinni sjá þegar það loksins kom til hennar. Síðar var umgengninni breytt þar sem faðirinn eignaðist annað barn með nýrri konu. Þetta barn tók þvílíkum framförum þar sem loksins fékk það að vera hjá móður sinni.

En svona eru lögin. Það sem hefur mest vægi í forsjármálum er mat sálfræðinga. Ókunnugrar manneskju sem fyrst og fremst fer eftir nýjasta trendi. Hefur engin raunveruleg tengsl við barnið.

Ekki held ég að forsjármál séu almennt sú lausn sem foreldri vill fara. Ef allt er í lagi með báða einstaklinga er hægt að vinna saman með þarfir barnsins í fyrirrúmi. Það hef ég reynt með tvö af þrem börnum mínum. Enda búa þau vel að báðum foreldrum.

Í mínum huga er það fyrst og fremst stjórnsemi, valdabárátta og annað sem ekkert kemur barninu við sem knýr áfram forsjárdeilu. Ef gott samkomulag væri milli foreldra og allt eðlilegt - þá kæmi slíkt mál ekki upp á yfirborðið.

Sem segir okkur að þessi mál snúast oft um stjórnsemi. Ekki vegna barnsins. Heldur vegna fyrri maka. Kemur í raun barninu lítið við.

Eðlilega er hér því oftar en ekki um endalok ofbeldissambands að ræða. 

En að sanna slíkt samband. Það er ekki auðvelt - nánast að segja ekki hægt vegna sönnunarbirgði. Nema þú sért með morðhótun uppá vasann eða brotna höfuðkúpu.

Það sem verra er. Barnavernd má lítið hafa sig í frammi, nema barnið sé þess ver haldið.

Ef gögn svona mála eru skoðuð, þá sjá flestir hvers kyns er. En, samkvæmt lögum er það ekki nóg. Vísbendingar eru ekki nóg. Sama hversu margar þær eru. Þær eru nefninlega ekki blákaldar sannanir.

Þú mátt ekki tala. Þú mátt ekki vera veikburða. Þú mátt í raun ekki vera mannleg vera í svona málum. Allt er notað gegn þér. Best ef þú ert lifandi dauð og sýnir engar mannlegar tilfinningar. Enga bresti.

Börn eru miskunarlaust send til foreldra sem beyta aðra ofbeldi. Jafnvel þau sjálf. Foreldra sem ekki eru hæfir til að sjá fyrir börnum. Jafnvel ekki hæfir til að sjá fyrir sjálfum sér. Foreldra sem nærast á reiði og stjórnleysi. Foreldra sem hafa sýnt ofbeldishegðun. Foreldra sem eru ábyrgðarlausir. Foreldra sem hafa taumlausa sögu að baki. 

Jafnvel þótt hitt foreldrið hafi ávalt verið vammlaust.

Bara vegna þess að börnin okkar - eiga engan rétt í lögum.

Orð þeirra ekki tekin marktæk.

Þeim er gert að aðlagast aðstæðum.

Sama hvað það gerir þeim seinna.

Umhyggjusama foreldrið - það sem hugsar um barnið frekar en sjálf sig.

Móðirin í flestum tilfellum.

Er ekki lengur í tísku.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband