Dómarar götunnar

Til allrar Guðs lukku lenda ekki margir í því að slíta sig úr því sem ég kalla ofbeldissamband (getur verið af öllum gerðum og styrkleikum) og fá í kjölfarið að berjast fyrir því sem maður telur vera best fyrir barnið sitt.

Ég hef talað um hversu illa dómskerfið virkar. Hversu óöruggt barnaverndareftirlitið getur verið, þó svo maður verði að leggja allt sitt traust á það. Hægvirkt. En stundum árangursríkt.

Ég hef talað um sönnunarbyrgði dómskerfisins, sem oft er ansi flókin.

Þeir sem hafa lent í svona málum þekkja sálarkvalirnar. Sumir fá taugaáfall, hjá öðrum klikkar ónæmiskerfið - flestir þurfa lyf og örugglega allir stuðning. Ég þekki of mörg tilfelli - þar sem ýmislegt hefur klikkað þegar álagið var sem mest.

Þeir sem einungis þekkja samvinnu og skilning (kannski ekki fullkominn - en þó) þegar um skilnaðarbarn er að ræða geta aldrei, aldrei - sett sig í þessi spor.

En allir eru til í að hafa sína skoðun - já og dæma!

Hver þekkir barnið og fyrrverandi maka betur en sá sem stendur í þessum málum?

Engin!

Hvorki dómarar réttarsalsins né dómarar götunnar hafa lifað þessu lífi, kynnst þessu heimilislífi eða þekkja skapferli og manngerð þess sem er í deilu. Þekkja ekki barnið, hafa ekki séð það gráta og verið hrætt, hafa ekki séð skapgerðarbreytingarnar - og svo framvegis.

En þetta eru dómararnir. Þeir sem minnst vita - en dæma hvað harkalegast. Sérstaklega dómarar götunnar. Því þeir hafa ekki einu sinni gögnin til að glugga í. 

"Þú verður að vera sterk/ur fyrir barnið þitt. Þú gerir því ekkert gott með því að vera tilfinningaflækja". " Þú ert orðin algjört dramadýr og hundleiðinleg/ur - ekkert skrýtið að þú eigir ekki vini lengur". " Þið eruð ekkert að hugsa um barnið með þessari baráttu - eigið það ekki skilið". " Þetta er ekkert uppeldi á barninu - þú ert allt of eftirlátssamur/söm og ert að ala upp frekjudýr". "Taktu þig saman í andlitinu og vertu ekki með þetta væl." " Það skilur enginn hvað er að koma fyrir þig - þú ert á allra vörum sem eitthvað frík." "Þú ert vanhæf/ur ef þú getur ekki verið eins og venjulega".

Foreldrið sem berst við hitt foreldrið - ekki af því það vill það, heldur vegna þess að það er nauðsynlegt - fær að hlusta á þessa dóma. Þessi orð óma í hausnum í sjúkrabílnum eftir að hafa fengið taugaáfall. Eftir að ónæmiskerfið er hrunið. Eftir að hafa reynt að vera svo sterk/ur of lengi að það væri ekki hægt að leggja á nokkra mannveru án þess að hún skaðist.

Hugsandi "djöfuls aumingi er maður að vera ekki hip og cool, brosandi hringinn, dansandi Salsa og hrókur alls fagnaðar. Sterkari en Jón Páll og fullkomnari en Jesú og með allt á tæru. Taka hið fullkomna uppeldi með annarri og fjármálin með hinni.

Það er frábært að standa svo til einn í heiminum, í svona baráttu (athugið - ekki af löngun) og fá þennan yndislega stuðning frá þeim sem maður jafnvel hélt að væru vinir sínir.

Auðvitað ljómar maður af hamingju og þakklæti.

En mig langar samt til að vara dómara götunnar við.

Þessi manneskja sem er undir þessu álagi og að ganga í gegnum þessa hluti er eðlilega ekki sterkasta kvikindið í götunni rétt þessa dagana. 

Og ef ykkur blóðlangar að fylgja henni/honum í gröfina, þá er þetta rétti andinn. 

Ef ekki - reynið að sýna smá skilning í smá tíma - það drepur ykkur ekki.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.8.2011 kl. 22:19

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er svo heppin að minn fyrrverandi hefur engan áhuga á því að taka börnin sín frá mér, hann hefur ekki tekið yngstu tvö í 5 eða 6 ár.  Ég sleit öllu sambandi við hann fyrir 2 mánuðum síðan, og hann hefur ekkert samband haft við börnin 2 sem eru yngri en 18 ára....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.8.2011 kl. 02:09

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

HUgsa til þín og lofa að dæma ekki, veit sem betur fer ekki hvernig svona stríð er, vona það besta þín og barnsins vegna.

Ásdís Sigurðardóttir, 26.8.2011 kl. 11:30

4 Smámynd: Skúmaskot tilverunnar

Þakka ykkur fyrir. Þeir sem hafa t.d. fylgst með DV að undanförnu þar sem aðeins er farið í svona mál þá er þessi eilífa deila hluti og í raun framhald af ákveðnu ofbeldi. Til allrar lukku hef ég líka reynsluna af "eðlilegum" skilnaði og það hafa aldrei verið vandamál í sambandi við börnin af því hjónabandi. Hvorki forræði, umgengni né neitt slíkt. Ef maður kynnir sér t.d. forræðismál og dóma þá má sjá að í miklum meirihluta er talað um ofbeldi á heimilinu. Held ekki að neitt foreldri færi í svona erfið mál nema full ástæða sé til.

Skúmaskot tilverunnar, 26.8.2011 kl. 14:20

5 Smámynd: Skúmaskot tilverunnar

Tek það fram að þessi færsla á ekki við um mig eina - heldur samantekt af því sem ég hef líka heyrt frá öðrum sem standa í svona basli.

Skúmaskot tilverunnar, 26.8.2011 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband