Flestir eiga margar minningar sem tengjast 17. júní. Þar er ég engin undantekning.
Á unglingsárunum var 17. júní dagur daganna. Taumlaus gleði og ánægja.
Þegar ég var í skátunum byrjaði maður uppúr miðnætti að undirbúa hátíðarhöld komandi dags í Hljómskálagarðinum. Súrra saman þrautabrautir og leiktæki. Ósofin fór maður svo jafnvel í eitthvað sölutjaldið eftir að hafa verið fánaberi í skrúðgöngu. Einhverntíma leið meira að segja yfir mig í hátíðarmessu í Dómkirkjunni - þvílíkt stuð. En fánanum var bjargað áður en hann snerti jörð. Sennilega mér líka. Man allavega ekki eftir kúlu eða skrámum.
Seinna varð þessi dagur allra mesti stuðdagur ársins. Hljómleikahöld fram á kvöld - sætir strákar, smart föt og flottir hattar. Vonast eftir að sjá þann eina rétta í þvögunni, sem reyndar tókst einu sinni.
Sumar og sæla.
Þrátt fyrir þessar góðu og gleðiríku minningar eru þær því miður ekki það fyrsta sem hrekkur upp í hugann þegar 17. júní nálgast í dag.
Sú sem fyrst kemur er öllu dapurri.
Tveim dögum fyrir þjóðhátíðardaginn gisti ég Kvennaathvarfið. Þorði ekki öðru, skapferlið á heimilinu var á þann háttinn að ég treysti mér ekki til að vera heima með tæplega tveggja ára barn mitt. Nóttina þar á eftir gistum við hjá systur minni.
En síðla kvölds 16. júní náðust ákveðnir samningar sem ég trúði á - þá.
Að morgni 17. júní komum við heim. Í bjánaskap mínum bjóst ég við að okkur yrði fagnað. En það var nú ekki aldeilis. Illa sofinn maðurinn þurfti að halda áfram að sofa. Samt var nær dregið hádegi.
Ég heyrði í skrúðgöngunni klukkan tvö. En ekki var maðurinn tilbúinn til að taka þátt í hátíðarhöldunum með konu sinni og barni.
Við biðum og biðum.
Hin börnin voru ásamt sínum föður í sumarbústað.
Loksins þegar farið var að líða að miðjum degi gátum við rölt öll saman, litla fjölskyldan, til að kíkja á hátíðarhöldin. Það var nú ekki mikið eftir af þeim svosem þannig að við stoppuðum stutt, enda barnið orðið þreytt.
Aldrei var staðið við loforðið sem gefið var að kvöldi 16. júní.
Enda var þetta rétt upphafið á mjög erfiðu sumri.
Og hausti.
Athugasemdir
Þakka öllum góðum verum fyrir þann 17. júní sem ég átti í dag. Hann verður færður á minningarlistann sem einn af þeim betri. Enda á ég svo mikinn fjársjóð sem er mér allt.
Skúmaskot tilverunnar, 18.6.2011 kl. 00:48
Æ mín kæra þetta er sárt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.6.2011 kl. 00:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.