Er það skömm?

Ég sat í fallegu veðri í miðbænum. Það var orðið frekar áliðið en yndislegt að njóta blíðunnar og fylgjast með mannlífinu í kringum sig.

Skammt frá mér sat kona sem greinilega hafði séð sinn fífil fegri. Sat og sötraði bjór. Ég brosti til hennar. Hún brosti feimnislega á móti og leit svo niður í gaupnir sér aftur.

Eftir litla stund stóð hún upp og skjögraði til mín. Hún bauð mér sopa af bjórnum sínum, en ég afþakkaði. Hún þakkaði mér fyrir að hafa brosað til sín. Það væru ekki margir sem gerðu það. Hún ætti í raun engin bros skilið.

Ég sagði henni að allir ættu bros skilið. Áður en ég vissi af var hún byrjuð að segja mér frá ýmsum hlutum. Skelfilegum hlutum. Hvernig hún hefði orðið Bakkusi að bráð vegna ofbeldis. Nú virtist hún hvorki geta losnað við Bakkus né ofbeldið. Fólki þætti lítið mál að tuska hana til og frá. Tárin byrjuðu að streyma niður kinnar hennar. Ég strauk af henni tárin. Leit í gömul og fljótandi augun, sagði henni að enginn ætti skilið að verða fyrir ofbeldi af neinu tagi. Það væri vissulega ekki henni að kenna. Sjálf hefði ég upplifað ýmislegt og ekkert af því væri mér að kenna.

Hún leit upp til mín. "Ertu pólsk" spurði hún. Ég brosti og sagði henni að ég væri eins íslensk og hugsast gæti. "Þú hlýtur að vera pólsk. Pólsku konurnar skilja mig". Ég sagði henni aftur að ég væri íslensk en gæti engu að síður alveg skilið hana og þessar þjáningar. Hún var hissa. Átti ekki von á samkennd frá íslenskri konu, sem greinilega var ekki á sama stað og hún.

"Bakkus tók þá ekki þig og börnin þín?" Hún horfði ennþá í augun mín. "Nei" sagði ég. "Ég var svo heppin að öðlast styrk sem ég get ekki útskýrt. Ég trúi því að eitthvað verndi mig."

Þegar ég kom heim gat ég ekki hætt að hugsa um þessa konu. Greinilega upplifði hún mikla skömm. Kannski yfir því að hafa vantað styrk til að forðast erfiðar aðstæður. Eða hreinlega bara skömmina fyrir að verða fórnarlamb ofbeldis.

Hvað gaf mér styrk á sínum tíma og gerir enn? Jú - ég sagði frá. Ég talaði við prest. Hann gaf mér styrk. Það geta allir gert og kostar ekkert. Reyndar var ég svo heppin að geta líka talað við sálfræðing. Allt þetta hjálpaði.

En það sem hjálpaði mest var að skrifa. Skrifa um það sem kom fyrir mig og mína. Loka það ekki inni heldur segja frá. Koma tilfinningunum á blað og geyma þær þar frekar en í hjartanu. Opna þar með hjartað fyrir nýjum og betri tilfinningum.

Það er nefninlega engin skömm að því að hafa lent í erfiðum aðstæðum. Skömmin er allavega ekki okkar. Frekar þeirra sem ekki átta sig á hvað skömm er. Særa tilfinningar fólks og meiða. En finna ekki skömmina. Þeirra er samt skömmin.

Margir þessara aðila virðast ekki gera sér grein fyrir þeim sársauka sem þeir valda öðrum. Ef til vill er það til. En lang flestir gera sér fyllilega grein fyrir því - en afneitunin er sterk. Svo sterk að þeir yfirfæra sína skammarlegu hegðun yfir á þá sem urðu fyrir ofbeldinu. Eru sjálfir fórnarlömbin.

Það eitt sýnir að þetta fólk er meðvitað - en getur ekki horft í augu við sjálft sig. Yfirfærir allt yfir á aðra. 

Þetta fólk þegir ekki heldur. Það baðar sig í vorkun hvar sem það getur - á lygum.

Hin raunverulegu fórnarlömb eru líklegri til að þegja. Taka út skömm sem ekki er þeirra.

Stórt skref í átt til bata er að opna sig. Segja frá. Átta sig á því að skömmin er ekki þeirra.

Það eru svo margir á sama stað.

Þöglir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Góð að vanda.

Ásdís Sigurðardóttir, 14.6.2011 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband