Fröken Hvatvís

Þeir sem geta alltaf sagt réttu hlutina á réttum tíma eiga aðdáun mína alla. Rétt eins og þeir hafi skrifað og yfirfarið hverja einustu setningu áður en þeir láta hana út út sér.

Því miður er ég ekki þessum kostun gædd. Fröken Hvatvís - það er ég stundum.

En, sjáiði til. Sá sem hefur vottorð uppá fullkomnun má koma og skella því í andlitið á mér. Væri líka gaman að sjá hver skrifaði undir það.

Alveg er ég viss um að þeir sem segja alltaf hárréttu hlutina luma á einhverjum öðrum galla, en eru svo orðvarir að þeir segja engum frá því. Kannski eru það loðnar tær, hver veit.

Auðvitað er það talið til kosta að vera heiðarlegur og segja það sem manni finnst. Fröken Hvatvís á það hinsvegar til að gleyma því að oft má satt kyrrt liggja. Þess utan hafa ekki allir sömu skoðanir, sem er auðvitað alveg eins og það á að vera. Það er líka alltaf möguleiki á því að vera misskilin. Punkturinn með réttu orðin sko. Þau eru ekki alltaf efst í hausnum.

Svo er auðvitað til fólk sem þolir ekki sannleikann um sjálft sig. Þeim vorkenni ég hinsvegar ekki svo mjög - eða bara alls ekki.

Maður opnar munninn og svo kemur bunan - úps. 

Þetta er ástæðan fyrir því að sennilega hef ég sært fólk í gegnum tíðina. Gjörsamlega óvart. Eða brugðist trúnaði einhvers. Líka alveg óvart.

Ég hef nú samt lært aðeins af reynslunni þó svo ég eigi langt í land.

Stóru lexíuna lærði ég sem unglingur á Spáni.

Þið skuluð ekki halda að þó svo þið séuð erlendis og talið íslensku - þá séuð þið ein um það.

Ég var á gangi með systur minni í sumarleyfisdvöl á Spáni. Skammt frá okkur er kona á gangi með annarri konu. Eitthvað fannst mér hún ófönguleg, man nú ekki á hvaða hátt enda bara krakkarófa á þessum tíma sem hafði ekki hundsvit á fegurð. Ég allavega segi við systur mína all hátt. Of hátt.

"Mikið er þessi kona ljót" eða eitthvað í þá áttina. Systir mín, mér eldri og vitrari sussar á mig. En um seinan.

Konan snýr sér við og brosir. " Mikið ert þú fallegt barn" segir hún og heldur svo áfram göngu sinni.

Þrátt fyrir ungan aldur þá dauðskammaðist ég mín, auk þess sem ég var hundskömmuð.

Þar með lærði ég að setja ekki útá útlit annarra. Enda er það ekki mitt að gera. Fólk er bara misjafnlega fallegt.

En þrátt fyrir langan og strangan lærdóm í að "halda sér saman stundum" Þá virðist mér vera það lífsómögulegt. Þó svo ég reyni nú yfirleitt að vera kurteis.

Ef einhver ergir mig eða segir illkvittnislega hluti um mig eða mína, þá get ég stundum ekki stillt mig heldur skýt föstum skotum á móti. Þó svo ég viti að það sé ekki gáfulegt.

Eins get ég verið full heiðarleg um eigin skoðanir og hugsanir - án þess að átta mig á því að aðrir sjá hlutina allt öðruvísi. Verða jafnvel móðgaðir. Drullusárir. Hætta að tala við mig í versta falli.

Stundum finnast mér líka hlutir ekki skipta neinu máli sem skipta aðra máli. Og get ég haldið mér saman? 

Nei - auðvitað ekki.

En.

Hafi ég gert rangt, þá biðst ég fyrirgefningar. Ég fékk aldrei undirritað fullkomnunarvottorð (er samt ekki með loðnar tær).

Hafi ég hinsvegar ekki gert rangt og viðkomandi á orðin skilið. Sögð eða ósögð.

Þá má viðkomandi éta það sem úti frýs.

Sama er mér.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband