Raftækjadraugurinn

Flestir bindast heimili sínu einhverjum tilfinningum. Þetta er heimilið sem þú hefur lagt í mikla vinnu. Reynt að gera það sem huggulegast miðað við efni og aðstæður. Staður sem þér líður vel á með fjölskyldunni þinni.

Mitt heimili er í gömlu húsi og það getur haft sína fylgifiska. En það er mér afskaplega kært.

Það hefur þó einn ókost. Það er raftækjadraugurinn minn.

Sennilega má útskýra hann með gömlum rafleyðslum, gamalli rafmagnstöflu í bland við gömul heimilistæki.

Rafmagnstaflan er sérfyrirbæri útaf fyrir sig. Risastórt flikki á miðjum ganginum með risastórum postulínsöryggjum. Rafmagnsmæli sem er á stærð við stöðumæli. Örugglega allt saman antik. Ekki beint falleg samt sem slík.

En halló. Öllu má nú ofgera.

Fyrir ca. tveim árum kom hingað rafvirki. Vinna hans átti að felast í því að fjölga innstungum og setja upp lekaliða.

Ekki veit ég á hvaða lyfjum þessi ágæti rafvirki var, því þegar ég kom  heim úr vinnu var hann búinn að festa fjöltengi á veggina á þrem stöðum. Já - venjulegt fjöltengi. Ekki innstungur. Snúrurnar lágu í hlykkjum niður í rafmagnsdósina.

Ég starði í forundran á fyrirbærið og síðan á rafvirkjann. 

Sko. Fjöltengi hefði ég getað keypt sjálf en aldrei hugkvæmst að festa þau á veggina. Forljót eins og þau voru. 

Það var búið að brjóta uppúr eldhúsflísunum þar sem þó hafði verið sett ný innstunga í stað fjörgamallar. Jú - það var kominn lekaliði.

Frágangurinn var svo hrikalegur að ég gat ekki annað en hringt í fyrirtækið og krafist þess að það kæmi annar rafvirki og lagfærði ósköpin.

En eftir að lekaliðinn var kominn var ekki með nokkru móti hægt að nota þvottavélina. Hún sló alltaf út. Jæja hugsaði ég, hún er komin til ára sinna. Svo það var fjárfest í nýrri.

Ekki löngu seinna hrökk ég í kút við agalegan hávaða sem síðan fylgdi reykmökkur. Það var eins og einhver væri með loftbor inni í íbúðinni. Óhljóðin bárust frá þvottahúsinu.

Ég flýtti mér þangað og sá að það rauk úr þurrkaranum með þessum þvílíku látum. Í snarhasti slökkti ég á tryllitækinu. Þar með var hann fokinn.

Nú var ég semsagt verulega fátækari en til stóð eftir stórfelld raftækjakaup. En ánægð með árangurinn.

Eva var þó ekki lengi í Paradís - því stuttu seinna neitaði uppþvottavélin að virka. Mótorinn gekk viðstöðulaust þar til henni var kippt úr sambandi. Þegar henni var dröslað fram mátti sjá að einnig hafði hún skilið eftir sig tjörn undir eldhúsinnréttingunni.

Hún fékk því sinn stað í raftækjakirkjugarðinum og næstu dagar fóru í að þurrka upp tjörnina.

Fjármagn til frekari raftækjakaupa var ekki til staðar, en mér áskotnaðist eitt svona pínulítið fyrirbæri í gegnum vefinn. Betra en ekkert.

Rétt fyrir jólinn dó svo ofninn á eldavélinni ásamt því að ísskápurinn ákvað að vera heitur og kaldur til skiptis. Ískápinn gat ég tjónkað við með því að hækka stillingarnar og sparka í hann af og til. En það kemur samt fyrir að maturinn í honum eyðilegst þegar hann ákveður að fara í smá frí.

Ég gat svo fengið lánaðan örlítinn ofn - svona sýnishorn sem ekki er hægt að baka í nema hálfa pizzu í einu.

Gott og vel. Maður bjargar sér í kreppunni. Að vísu lítur eldhúsið mitt svolítið furðulega út, en ég gat nú samt komið þessu eins smekklega fyrir og hægt var.

Það gekk allt með ágætum í þónokkurn tíma. Þar til einn daginn að ég sit við eldhúsborðið og er að vinna í tölvunni. 

Skyndilega skutlast viftan yfir eldavélinni niður á gólf með þvílíkum krafti að innstungan á bak við hana skýst útúr veggnum. 

Í hálfgerðu sjokki horfi ég á fyrirbærið - sem er jú með yngri eldhústækjum heimilisins.

Úff hugsaði ég. Ef þau ekki bila þá ráðast þau á mig.

Viftan er ennþá ekki komin á sinn stað þar sem borvélar eru ekki alveg mitt sérsvið.

En það er ekki laust við að ég gjói augunum reglulega á örbylgjuofninn sem er kominn yfir tvítugt og er síðasta heimilistækið sem raftækjadraugurinn hefur ekki ráðist á.

Er við öllu búin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig H Sveinbjörnsdóttir

Hahaha....sorry, veit að þetta er ekkert sniðugt en þegar kom að því að viftan stökk af stað gat ég ekki varist hlátri..skemmtilegar lýsingar á lítið skemmtilegum tilfellum samt ;)en hvers á fólk að gjalda að vera með þessa húsdrauga ??? Ekki einleikið stundum þegar e-ð byrjar að bila og hvað tekur við af öðru...en hvað er þetta með rafvirkjann???

Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 6.6.2011 kl. 14:58

2 Smámynd: Skúmaskot tilverunnar

He he. Skil ekki þetta rafvirkjadæmi. Aldrei séð önnur eins vinnubrögð. En já - húsdraugurinn er búinn að vera í ofurstuði undanfarin tvö ár eða svo.

Skúmaskot tilverunnar, 6.6.2011 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband