Þeir sem hafa unnið á skrifstofum vita að það er til svona lítið áhald til að taka hefti úr blöðum, sem kallast almennt Tannhvöss tengdamamma.
Svolítið krúttlegt.
Auðvitað eru tengdamæður jafn misjafnar og þær eru margar. Átti til fjölda ára yndislegustu tengdamömmu sem ég hefði getað hugsað mér. Sú fær ekkert nema gullstjörnur í kladdann hjá mér.
En svo kynntist ég allt annari tegund.
Fyrstu kynnin voru alveg frámunalega hallærisleg.
Þetta var í upphafi tilhugalífsins. Kærastinn bjó hjá mömmu sinni (er ansi þaulsetinn þar). Ég lallaði mér upp að dyrunum í sakleysi mínu og hringdi bjöllunni. Kærastinn opnaði og byrjaði á einhverju kossaflensi. So what.
Þá kemur mamman. Sér okkur og byrjar að öskra. "Hvað er í gangi hérna eiginlega. Viljiði hundskast út. Ég vil ekki hafa svona í mínum húsum."
Mér blöskraði nú svolítið. Sko - kærastinn var að skríða í fertugt.
Á hlaupum okkar út úr húsi útskýrði kærastinn fyrir mér að allt kynferðislegt væri stranglega bannað á heimilinu.
Ekki var fundur númer tvö mikið skárri.
Móðirin horfði á mig einbeyttu augnaráði og sagði " Sko - hann hefur engu að tapa í þessu sambandi en þú hefur öllu að tapa".
Jú jú. Ég vissi svosem að hann var búinn að vera lengi atvinnulaus og frekar skuldugur. En þetta fundust mér nú frekar undarleg kynni.
Hefði samt betur hlustað á hana - merkilegt nokk.
Þegar leið á sambandið var mér boðið í mat. Heimilisfaðirinn var að grilla.
Og þarna sat hún og smeðjan lak af henni. Hún þreyttist ekki á að tala um allt þekkta og fína fólkið sem voru góðir vinir hennar. En skyndilega stóð hún upp og byrjaði að öskra á eiginmanninn. "Villtu fara og athuga með steikina! Já - strax!"
Síðan byrjaði smeðjan aftur.
Ég varð fljótlega vör við að hún talaði afskaplega illa um fólk sem hún áleit ekki samboðið sér. En lék hinn fullkomna gestgjafa, fyrir utan þegar hún skipaði heimilisfólkinu fyrir með hávaða og frekju.
Mér leið eins og ég væri stödd hjá einhverju afbrigði af Adamsfjölskyldunni. Beið eftir að loðni frændinn birtist úr kjallaranum.
Eftir því sem ég kynntist henni betur áttaði ég mig æ betur á því að þetta var manneskja sem ég gat illa fellt mig við. Hennar skoðanir voru hinar einu réttu. Og þær voru svo þröngar að þær hefðu allar komist fyrir í eldspýtustokk.
Henni virtist eðlislægt að setja út á allt og alla. Það var skelfingin ein að fara með konunni á veitingastað. Þar var hægt að finna að nánast öllu og aumingjas þjónarnir fengu sko að heyra það. Hún lét eins og hún væri sjálf Englandsdrottning.
Áður en ég vissi af var hún farin að stjórna mínu heimili. Í gegnum manninn minn. Börnin mín voru ómöguleg á einn hátt eða annann - og fengu að vita af því frá syni hennar sem hún notaði til að fjarstýra uppeldinu. Á mínum börnum.
Sonin hafði hún í vasanum. Hún hringdi minnst tvisvar á dag. Ef honum mislíkaði eitthvað þá var hringt í mömmu. Ef honum líkaði eitthvað þá var hringt í mömmu. Og mamma stútfyllti hann af sínum þröngu skoðunum.
Ef við urðum ósammála þá var hringt í mömmu til að fá back up. Þá var hægt að ráðast gegn mínum skoðunum af fullum krafti.
Mér var bannað hitt og þetta. Mátti t.d. alls ekki snerta svo mikið sem rauðvínsglas þar sem elsku sonurinn var (loksins á þessum tíma) óvirkur alki. Ég mátti hreinlega ekkert gera sem var á móti hans skapi. Þá var mamma komin í málið.
Hins vegar var hún ekki alltaf jafn vinsæl hjá honum. Ef þau voru ekki á sama máli. Þá var mér jafnvel tjáð að það borgaði sig ekkert fyrir mig að vera í sambandi við hana. Þá var nefninlega möguleiki á að hún væri á sömu skoðun og ég.
Þegar við skildum (hjónaband sem mamma hafði auðvitað ekki verið alveg sátt við - sem og önnur) losnaði ég við tvær stjórnsömustu og orðljótustu mannverur sem ég hef kynnst.
Get ekki annað en prísað mig sæla.
Auðvitað er hann aftur kominn til mömmu, þar sem hún stjórnar honum eins og óþekkum rakka.
Eflaust öskra þau þakið af húsinu á endanum - ekki yrði ég hissa.
Las það einhversstaðar að Hitler hefði komið úr mjög stjórnsömu heimilishaldi og verið mjög háður mömmu sinni.
Aha - hugsaði ég.
Það útskýrir ýmislegt.
Flokkur: Bloggar | 5.6.2011 | 18:09 (breytt kl. 18:13) | Facebook
Athugasemdir
Æ Æ gott að þú losaðir þig við mömmustrákinn, þetta hefði aldrei blessast, djísús hvað sumt fólk getur verið klikkað.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.6.2011 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.