Það var fallegur sólríkur dagur í Grasagarðinum. Ég beið eftir að hitta manninn sem ég hafði skrifast á við dágóða stund á netinu og hafði náð á einhvern afkáralegan hátt að sjarmera mig uppúr skónum. Hafði líka hitt hann. Hafði líka þekkt hann. En ekki á þennan hátt.
Reyndar var það ekki erfitt. Hann nefninlega vissi að ég átti í erfiðleikum í hjónabandinu og leið ekki vel. Auðvelt fórnarlamb. Hélt á þessum tíma að það væri hrifning, jafnvel ást. En maður þarf að læra svo margt á lífsleiðinni.
Hann birtist milli trjánna. Brosandi. Dillaði sér fyrir framan mig þar sem ég sat á bekknum. Svört snjáð skyrtan var opin niður á bringu - sýndi nokkur bringuhár (þau voru ekki mikið fleiri komst ég að síðar). Snjáðar þröngar gallabuxur í stíl. Töffari. Heillandi.
Hann byrjaði að segja mér sögur. Af sjálfum sér. Þegar hann bjó erlendis og lennti í alls kyns ævintýrum. Einu sinni var hann hætt kominn. Var að þvælast í erlendri borg. Vissi ekki fyrri til en hann var með skambyssu á gagnauganu. Heimtað að hann færi í hraðbanka. Skelfileg lífsreynsla. Ég nötraði öll og horfði á manninn. Vá hvað hann hafði lent í mörgu.
Seinna komst ég að því að hann gat talað um sjálfan sig endalaust og stanslaust. Eigið ágæti. Eigin upplifanir. Eigin sorgir. Eigin erfiðleika. Eigin drauma.
Ekkert annað komst að. Ég, ég, ég,ég. Aumingja ég. Enginn skilur mig. Allir eru á móti mér. Ég.
En að hlusta á aðra reyndist ekki eins auðvelt. Annarra líf var eitthvað sem honum var sama um. Nema það kæmi honum sjálfum við á einhvern hátt.
Það er ótrúlegt að kynnast hreinum og sönnum egóista. Einhverjum sem einvörðu hugsar um sjálfan sig. Allt lífið. Allt sjálfmiðað frá A til Ö.
Það er varasamt að flækjast inn í líf þannig persóna. Sérstaklega ef maður vogar sér að hafa eigin skoðanir. Eða vænta skilnings um hluti sem snerta mann sjálfan. Jafnvel að vænta samúðar eða skilnings ef manni líður ekki vel.
Það er enginn skilningur eða samúð. Ef hlutirnir ganga ekki eins og smurðir fyrir egóista, þá er fjandinn laus. Sérstaklega ef sá hinn sami getur mögulega kennt þér um allt sem miður fer. Sem að sjálfsögðu þeir gera.
Það kom að því að ég hugsaði til baka. Um þennan heillandi skemmtilega mann sem ég hitti í grasagarðinum. Árum seinna þegar líf mitt hafði verið tekið af mér. Traðkað niður. Ómarktækt og ómerkilegt.
Afhverju hleypti mannfjandinn í sögunni ekki af byssunni. Hvað líf mitt væri auðveldara þá.
Sparkaði svo í sjálfa mig í huganum. Svona hugsar fólk ekki. Þetta er ljótt. Bað almættið fyrirgefningar.
Vitandi þó að hann mundi svo sannarlega hugsa svona ef það hentaði. Og ekki skammast sín eina sekúntu. Væri sennilega mjög svo til í að riðja öllum úr vegi sem kæmu í veg fyrir að hann fengi það sem hann vildi.Svo lengi sem hann kæmist upp með það.
En til allrar lukku þá er ég ekki eins og hann.
Og fyrir það get ég þakkað endalaust.
Mér þykir vænt um fólk. Allskonar fólk. Enginn er fullkominn.
Sumum vorkenni ég.
Innilega.
Flokkur: Bloggar | 3.6.2011 | 17:34 (breytt kl. 17:36) | Facebook
Athugasemdir
Það er vont að vera særður min kæra. Gott að þú komst heil út úr þeirri lífsreynslu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.6.2011 kl. 12:16
Takk fyrir mig í dag.
Ásdís Sigurðardóttir, 4.6.2011 kl. 12:28
Takk fyrir falleg orð. Í dag er þetta lítið annað en söguefni. Og lífið býður uppá svo margar og fjölbreyttar sögur.
Skúmaskot tilverunnar, 4.6.2011 kl. 16:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.