Stjórnsemi hugsana

Stjórnsemi er í langflestum tilfellum eitthvað sem ég kann illa við. Mjög illa.

Ég hef kynnst afar stjórnsömu fólki, svo stjórnsömu að ekki er hægt að líða vel nálægt því til lengdar. Fólki sem vill gleypa líf manns í einum munnbita. Sættir sig ekki við að aðrir hafa skoðanir. Öðruvísi skoðanir. Langanir. Öðruvísi langanir. Stjórnsemi svo gríðarlegri að viðkomandi svífst einskis, nákvæmlega einskis til að ná sínu fram. Til að stjórna.

Ég get ekki lifað við slíkt. Held að fæstum líði vel við þannig kringumstæður. Svo ég hef forðað mér útúr þeim.

Það er samt annarsskonar stjórnsemi sem stundum truflar mig. 

Stjórnsemi eigin hugsana.

Merkilegt fyrirbæri þessar hugsanir sem skjótast upp í kollinn á manni gjörsemlega óumbeðnar. Með frekjugangi og látum. Jafnvel án þess að maður taki eftir þeim fyrr en allt í einu þær eru farnar að hræra í tilfinningum manns. Algjör ósvífni. Maður er jafnvel farin að tala um hluti eða gera hluti sem alls ekki var ætlunin.

Þó svo viljinn sé einbeyttur í því að hleypa þessum boðflennum ekki að, þá er maður stundum utan við sig. Viljinn í fríi, slökun, eitthvað.

Oftast hafa þessar áleitnu hugsanir eitthvað með minningar að gera. Bæði slæmar og góðar. Eða jafnvel vonir sem hafa ekki ræst. 

Það læddist ein svona áleitin frekja að mér í dag. 

Ég var að njóta góðrar stundar með börnunum mínum. Þau voru við leik og ég sat álengdar og horfði á. Horfði líka á trén sem eru óðum að grænka og blómstra. Hlustaði á fuglana syngja.

Áður en ég vissi af var ég dottin nokkur ár aftur í tímann. Hér höfðum við eytt góðum stundum sem fjölskylda. Hlegið saman. Haldist í hendur. Gleymt okkur í skemmtilegum umræðum. Verið ástfangin. Verið eitt.

Og áður en ég vissi af var þessi góða stund orðin að ljúfsárri minningu. Hún var farin að valda sársauka. Bara si svona.

Ég stóð mig að því að horfa á fólkið í kringum mig. Fjölskyldurnar. Mamma og pabbi með ungana sína. Fjölskyldur. Meðan ég sat hér ein og horfði á gullin mín. Færi síðan heim þar sem ekkert biði nema húsverkin. Þessi óendanlegu vanmetnu verk sem aldrei taka enda.

Ég bægði hugsununum frá mér í skjótheitum. Hættu þessari vitleysu manneskja. Það sem ekki gengur upp einfaldlega gengur ekki upp. Punktur - stór svartur hringlaga punktur.

En ég fann að gleðin sem hafði fyllt mig skömmu áður við að njóta þessarar stundar, á þessum stað með gullunum mínum var ekki söm. Það hafði dregið ský fyrir hana. 

Ég stóð upp og bjó okkur til heimferðar. Öskureið út í sjálfa mig fyrir að geta ekki haft fullkomna stjórn á eigin huga. Leyfa frekjuganginum í mínum eigin haus að eyðileggja fyrir mér þessa ljúfu stund.

En svona er þetta víst í okkar mannlegu veröld.

Við getum forðast stjórnsemi annarra, þeirri sem veldur okkur skaða.

En það er verra að taka af sér hausinn til að forðast það sem þar getur ruðst að.

Reyni bara að vera meðvitaðri næst þegar heilinn og hugurinn ætlar að fara að stjórnlaust af stað.

Reyni.

Lofa ekki fullkomnum árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig H Sveinbjörnsdóttir

Hljómar einum of kunnuglega í mínum huga ;) Vel skrifað hjá þér og gangi þér vel í að hemja stjórnsemi tilfinninganna og hugsana..ég er ekki orðin alveg fær í mínum eigin tamningum ennþa´en eins og þú ...ég reyyyni ! Go girl !

Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 2.6.2011 kl. 18:08

2 Smámynd: Skúmaskot tilverunnar

Já :) Þetta eru skúmaskot tilverunnar - þau eru svo mörg.

Skúmaskot tilverunnar, 2.6.2011 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband