Aðfangadagur

Hvað er meira spennandi en aðfangadagur jóla fyrir litlar skottur?

Móðirin var komin í eldhúsið. Í mörgu að snúast fyrir kvöldið svo allt mætti vera sem yndislegast. 

Heimilisfaðirinn sat í stofunni með tölvuna. Órólegur. Klukkan var að bresta í tólf. Búðir að loka. Ríkið að loka.

Það var kominn tími til að fara í hinn árlega jólapakkaleiðangur. Telpurnar voru uppábúnar en pabbinn var ekki að sýna á sér fararsnið.

Móðirin búin að sortera jólagjafirnar í poka - hvern fyrir sinn stað. Það voru svosem ekki margir staðir til að heimsækja. En alltaf nokkrir sem biðu eftir þessum mikla degi. Án þess að fara með jólapakka var aðfangadagur ekki samur.

Skyndilega stekkur heimilisfaðirinn á fætur með látum. Gengur að móðurinni með trylling í augunum.

"Ég er farinn. Mér er andskotans sama um þessi jól. Þú getur sótt bílinn útá flugvöll því ég er ekki að koma aftur".

Með þetta stökk hann á dyr. Telpurnar horfðu stóreygðar á.

Móðirin dró andann djúpt og hringdi í tengdaföðurinn. Útskýrði stöðuna í stuttu máli og að telpurnar biðu eftir að komast í jólagjafaleiðangurinn. Innan hálftíma var hann kominn, tók telpurnar og pakkana.

Þá fyrst lét móðirin eftir sér að hleypa tárunum niður kinnarnar - niður í sósuna. Þetta hafði svosem gerst áður - en ekki á jólunum.

Hún setti rauðvín í sósuna og í glas fyrir sig. Hugsaði.

Hún vissi að hann færi til mömmu sinnar. Sennilega væri þetta samt ekki uppákoma sem hún mundi líða einkasyninum. Ekki á þessum degi.Þó svo að hún iðulega tæki hans málstað - málstað sem hún gat aldrei skilið.

Hún furðaði sig á hvað fólk mundi halda um þessa breytingu. Faðirinn kæmi ekki á sína vanastaði með börnin. Það var svosem ekki hennar mál.

Hún slökkti undir pottinum - það var allt að verða tilbúið.

Tengdafaðirinn kom með telpurnar. Þær voru kátar, en samt gat maður merkt áhyggjur þeirra. Sú yngri bara 2ja ára.

Þegar móðirin var að klæða þá stuttu í jólakjólinn heyrði hún að lykli var stungið í skránna.

Sú stutta varð eitt sólskinsbros og hljóp á móti pabba sínum. Hann brosti á móti. Kom síðan afsakandi í átt til mömmunnar og tók utan um hana. Sú eldri stóð hjá. Hennar bros náði ekki til augnanna.

Móðirirn vissi að mamma hans hefði talað hann til. Sett honum skóinn fyrir dyrnar í þetta skiptið.

Kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin.

Maturinn bragðaðist vel og sósan ekki of sölt, þrátt fyrir tárin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Falleg og tregafull saga.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.6.2011 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband