Vissulega hafði maður verið "skotin" í strákum. Laumast til að horfa á sætasta strákinn í bekknum svo enginn sæi til. Ellt hann í frímínútum og tekið af honum húfuna. Hrifist síðan af öðrum.
En fyrsta ástin var öðruvísi. Sumir vilja kalla þetta hvolpaást, en ég upplifði hana af öllu hjarta.
Ég sá hann á fyrsta ballinu í gagnfræðaskóla. Réttara að segja - hann kom rakleiðis til mín og bað mig að dansa. Ég var svo undrandi að ég gat varla sagt neitt. Hann var tveimur árum eldri og þeir strákar voru nú yfirleitt ekki að skipta sér af litlu nýnemunum.
Seinna frétti ég reyndar að þetta hefði verið leikur hjá nokkrum vinanna. Þeir ákváðu að velja sér álitlegar stelpur úr busahópnum og dansa við þær eins og einn dans. Hafa svo gaman af því seinna.
Það vildi nú samt svo til að minn "herra" dansaði við mig allt kvöldið. Meira að segja vangalagið. Man ennþá hvaða lag það var. "Babe, I love you so".
Þessi ungi herramaður lét ekki þar við sitja. Hann fylgdi mér heim eftir ballið. Og fyrir framan garðshliðið kyssti hann mig.
Það var afskaplega hamingjusöm ung stúlka sem sveif upp í herbergið sitt þetta kvöld og sofnaði með bros á vör.
Ég sá hann í skólanum daginn eftir. Hann kinnkaði kolli og brosti. Meira var það ekki. Enda átti ég svosem ekki von á því. Átti ekki von á neinu nema þessu eina kvöldi.
Þennan vetur snjóðai snemma í Reykjavík. Ég var á leið heim úr skólanum og að mér komu eldri strákar og byrjuðu að henda snjóboltum í mig. Þetta voru vinir hans. Hann kom aðvífandi og ég hélt að hann mundi slást í leikinn með þeim. En mér til mikillar undrunar tók hann sér stöðu með mér og kastaði snjó í vini sína. Ég sá undrunarsvipinn á þeim.
Hann brosti til mín og spurði hvort það væri í lagi með mig. Ég kiknaði í hnjáliðunum og hjartað missti úr nokkur slög.
Næstu daga sá ég hann ekki í skólanum. Ég svipaðist um eftir honum eins og vanalega en sá hann hvergi. Það liðu dagar. Þá frétti ég að hann hefði lent í bílslysi. Ég hljóp heim með tárin í augunum. Þar tvísté ég. Ég varð að frétta af honum.
Ég gerði það sem ég furða mig ennþá á í dag hvernig ég þorði að gera. Litla feimna stelpan. Ég lyfti upp símtólinu og hringdi.
Hann svaraði. Ég náði að stama útúr mér því að ég hefði frétt af slysinu og vildi vita hvort allt væri í lagi. Hann bauð mér í heimsókn.
Nötrandi á beinunum labbaði ég þangað þar sem hann bjó. Hann kom til dyra. Hann var agalegur útlits. Hafði skorist allur á enni og niður að augum. En ég sá það ekki. Ég sá bara hann.
Hann bauð mér inn og við spjölluðum saman í dágóða stund. Svolítið feimin til að byrja með en síðan fórum við að skemmta okkur ágætlega.
Eftir þetta hittumst við oft. Fórum saman á skauta, lékum okkur í körfubolta. Allt fullkomlega fallegt og eðlilegt. Engir kossar samt.
Um áramótin bauð hann mér heim til sín til að vera um miðnættið. Þá hitti ég fjölskyldu hans í fyrsta skipti. Yndislegt fólk. Eftir miðnættið fórum við í göngutúr og héldumst í hendur. Hann sagði mér að hann væri hrifinn af mér en við værum ennþá mjög ung. Ég sagði sem satt var að tilfinningarnar væru alveg endurgoldnar. Og loksins kom langþráður annar koss. Koss sem innsiglaði að héðan í frá vorum við par.
Eftir þetta urðu fundir okkar örari og opinberir. Hann skammaðist sín virkilega ekki að vera í sambandi með yngri stelpu.
Við ræddum stundum kynlíf en okkur fanst það of snemmt. Ég yrði að ná ákveðnum aldri fyrst. Svo við létum kossana duga.
Á fermingardaginn minn sendi hann mér skeyti. Það var besta fermingargjöfin sem ég fékk.
Stuttu seinna fór að færast meiri alvara í leikinn hjá okkur. Ég taldi mig heppnustu stelpuna í heimi að fá að upplifa stóru skrefin með svona mikilli ást og vináttu.
Allt sumarið vorum við saman. Við hjóluðum saman og þegar tækifæri gafst til þá kúrðum við okkur hvort uppað öðru. Við fórum í fyrstu útileguna saman.
Ég kveið næsta vetri. Hann færi í menntaskóla og allt sem því fylgir meðan ég sæti eftir í gaggó. Ég vissi að hlutirnir mundu breytast. Sem þeir og gerðu.
Við hittumst sjaldnar. Hann var upptekinn af sínu nýja lífi. Samt voru ennþá sterkar taugar á milli okkar og sumarið eftir fyrsta sumarið hans í menntaskóla small allt saman eins og fyrr. Ég fékk fyrsta bíltúrinn þegar hann fékk bílprófið. Var kynnt fyrir menntaskólavinunum. Var þáttakandi í því lífi um stund.
En allt gott tekur enda. Einn daginn var þetta búið. Hann snéri sér alfarið að sínum menntaskólaárum ég sat vænglaus eftir að byrja síðasta árið í gagnfræðaskóla.
Við höfum ekkert hist síðan - sést álengdar, stoppað og brosað.
Góð vinkona mín hitti hann mörgum árum síðar. Talið barst að mér.
Hann brosti og sagði: "Hún mun alltaf eiga sinn stað í mínu hjarta."
Athugasemdir
:) Dásamlega falleg saga.
Sólveig H Sveinbjörnsdóttir, 31.5.2011 kl. 19:12
Lífið er svo marglitað - sumt er svo fallegt :) Minningar sem settar eru í gullakistuna.
Skúmaskot tilverunnar, 31.5.2011 kl. 20:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.