Hún tók fram úr traktor!

Þegar ég fékk bílprófið var það þannig að 17 unglingarnir með nýju bleiku skírteinin sín fengu oftast lánaðan bíl foreldra sinna til að rúnta um á.

Þannig var það auðvitað ekki í mínu tilfelli. Pabbi átti gamlan sendibíl sem enginn gat ekið nema hann.

Kærastinn minn átti hinsvegar fornan Volvo Amazon station (sama árgerð og ég) sem var eins og skriðdreki í akstri. Þungur í stýri, gírarnir duttlungafullir ásamt fleiru. Eiginlega forðaðist ég að keyra tryllitækið, fílaði mig betur í farþegasætinu.

Þar til kærastinn missti bílprófið  í 6 mánuði. Þá var röðin komin að mér, hvort sem mér líkaði betur eða verr.

Þetta var rétt fyrir Verslunarmannahelgi og stefnan var á Þjórsárdal. Og ég varð að keyra. Ekki bara það heldir með fullan bíl af fólki sem að sjálfsögðu djúsaði alla leiðina. Aksturshæfileikum mínum var ekki gefin há einkunn og þar sem við vorum í samfloti við annan bíl, var ákveðið að ég keyrði á undan. Annars mundu förunautar okkar stinga okkar af í rykmekki.

Kærastinn hafði nú lagt undir sig farþegasætið og hló óstjórnlega af tilburðum mínum. Ég var frosin í framan, með nefið klesst upp að rúðunni og ók á hraða snigils að honum fannst. Einnig átti ég það víst til að setja litlu fingurna beint upp í loftið. Einbeytingin var gífurleg, enda algjör frumraun mín á akstri á þjóðvegum úti. 

Bílarnir óku fram úr mér eins og á færibandi og í hvert skipti fékk ég smá glósu, sem þó fór minnkandi eftir að hópurinn fann annað og skemmtilegra umræðuefni.

Skyndilega beygði dráttarvél út á veginn fyrir framan mig. Nú voru góð ráð dýr. Dráttarvélin sniglaðist mun hægar en ég hafði gert. Í smá stund dólaði ég á eftir henni og var nú athyglin öll á mér aftur. 

Þá gerðist það ótrúlega - mín tékkaði ofurvarlega hvort umferð væri á móti. Enginn bíll. Gaf stefnuljós, smellti í þriðja og flaug fram úr dráttarvélinni!

Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna.

Bíllinn sem var í samfloti við okkur renndi upp að hlið bílsins. Rúðan var skrúfuð niður og fimm háværar raddir sungu í kór.

"Hún tók fram úr traktor! Veiiiiii"

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband