Ég var búin að vera gift í 16 ár, en við uxum í sundur. Það var enginn neisti eftir í okkar hjónabandi. Við vissum það bæði en hvorugt okkar var tilbúið að enda sambandið. Við höfðum það ágætt. Vorum vinir, áttum tvö börn, íbúð allt þetta venjulega.
Þar til hann birtist.
Líf mitt umturnaðist á einu vetfangi. Við hittumst á balli, þekktumst frá því í gamla daga og ég bauð honum í heimsókn. Ég átti í raun ekki von á meiru sambandi en ég hafði rangt fyrir mér. Stuttu seinna fékk ég ástarbréf frá honum á tölvupósti. Ég væri konan sem hann hefði alltaf elskað frá því við vorum unglingar.
Ef hjónaband mitt hefði ekki þegar verið runnið sitt skeið hefði ég sennilega aldrei hugsað um þennan póst, eða þennan mann. En þetta kveikti í mér meira en ég áttaði mig á í fyrstu. Stuttu síðar vorum við orðnir vinir á msn. Ég beið eftir að hann kæmi í samband og saug í mig öll fallegu orðin og ástarjátningarnar. Loks hittumst við á fögrum degi. Ég var ennþá gift og vildi halda mínum trúnaði. En ástin blossaði. Ég reyndi að hrinda þessari tilfinningu frá mér þessum manni. En það tókst ekki. Sama hvað ég reyndi ég var gjörsamlega smituð af hrifningunni.
Stuttu síðar ákváðum við hjónin að skilja. Þetta samband mitt átti þar stóran part.
Ég man þegar ég hitti móður hans. Hún horfði á mig og sagði hvað ertu að gera? Hann hefur engu að tapa en þú hefur öllu að tapa. Ég gat ekki skilið hvað konan var að meina. Hvernig henni gæti dottið til hugar að segja svona hluti við konuna sem sonur hennar var ástfanginn af.
Við byrjuðum að búa saman. Hann sagði mér allt frá sínu fyrra lífi. Hvernig konurnar í lífi hans hefðu verið ómögulegar. Hvernig hann hefði skilið við son sinn bara 3ja mánaða gamlan erlendis. Af því hann gat ekki búið með mömmu hans lengur. Hvernig fyrsta konan hans hefði stungið af úr hjónabandinu. Hvernig óstýrilátt og erfitt samband hans var við konuna sem hann var síðast í sambúð með. Að sjálfsögðu var þetta allt saman konunum að kenna. Þær voru allar geðveikar. Ég eins og ástfanginn asni, trúði þessu öllu og sá bara hans hlið. Fannst það ekkert skrítið að hann hefði þessa sögu á bakinu með fyrri eiginkonum og sambýliskonu. En ég átti eftir að átta mig bara aðeins of seint.
Eftir skilnaðinn við mann minn til 16 ára átti ég hlut í sameiginlegri íbúð okkar. Við skiptum öllu jafnt og ég gat keypt íbúð. Að sjálfsögðu var hún miðuð við bæði börnin og kærastann. Hann þurfti stóran bílskúr þar sem hann var tónlistarmaður og varð að hafa gott pláss fyrir hljóðfæri og alls kyns tæki og tól svo ég tala nú ekki um æfingarpláss.
Allt gekk vel í fyrstu. Hann var sjarmerandi og ástúðlegur. Ég hélt að þetta væri sönn ást. Seinna komst ég að öðru. Hann þurfti þetta. Heimili og vinnustað þar sem ekki gat hann endalaust búið í kjallaraherbergi hjá foreldrum sínum. Hann þurfti líka að hafa fullkomna stjórn. Enginn máti setja útá hann eða segja honum fyrir verkum. Það var hans. Ekki annarra.
Á stuttum tíma var hjónaband og barn komið til sögunnar. Um leið breyttist allt. Ef ég hegðaði mér ekki nákvæmlega eins og til var ætlast gat allt orðið vitlaust. Í fyrsta skipti fékk ég uppnefni eins og drusla, hóra, slut. Það var öskrað á mig, mér jafnvel hrint og það fyrir framan börnin. Líf mitt var að breytast í martröð.
Samt stóð ég með honum eins og ég gat. Hjálpaði til við útgáfu geisladisks, sýndi fullan skilning á að tónlistarmenn þyrftu að semja tónlist og halda tónleika. Jafnvel þótt það kæmi úr eigin vasa. Skuldirnar hrönnuðust upp.
Það skall á kreppa. Ég sagði hingað og ekki lengra. Ekki meira peningaaustur í tónlist og erlenda hljómlistarmenn. Kannski var það málið sem gerði útslagið. Ég var að hindra hann í því sem hann vildi gera. Auðvitað hélt hann áfram að greiða fyrir tónlist frá erlendum tónlistarmönnum bara á bak við mig. Meðan reikningarnir féllu og fóru í lögfræðinga. Heimilið skipti greinilega minna máli en hans vilji.
Það var orðið stríðsástand á heimilinu og því varð að ljúka. Mitt líf snérist um heimilið og börnin hans um tónlist og sinn frama. Ég stóð orðið í veginum fyrir honum. Öll ástin sem hann hafði tjáð mér var farin. Sennilega hafði hún aldrei verið til staðar af hans hálfu. Ég var bara aumingi í hans augum. Aumingi sem ekki gat séð fyrir heimilinu lengur, enda illa farin á taugum.
Þegar ég sendi hann í burtu og skipti um skrá á útidyrahurðinni byrjaði eitthvað ferli sem ég hefði vissulega getað gert mér grein fyrir. Sumir vilja fá sínu framgengt með góðu eða illu. Næsta skref var hatrömm forsjárdeila. Ég treysti mér ekki til að deila forræði með manni sem alltaf mundi nota sinn rétt gegn mér. Ég sá fyrir mér eilífðar fangelsi og baráttu um ókomna tíð. Ég hafði líka áhyggjur af barninu. Var full viss að hann mundi taka næsta hring. Sjarmera konu, flytja inn, gera allt vitlaust. Barnið mitt þyrfti að vera áhorfandi af þessu. Jafnvel oft.
En ég hef lært. Það kemur sjarmerandi maður inn í líf manns sem lofar gulli og grænum skógum. Hann er skuldugur og býr hjá foreldrum en vill komast í eigið húsnæði. Vill vera með konu. Hefur farið svo illa útúr lífinu þar sem fyrri konur voru geðveikar. Þá kem ég til með að taka til fótanna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.