Hleypti amma mér inn?

Það eru margir sem ekki trúa á yfirnáttúrulega hluti. Enda er hverjum og einum frjálst að trúa hverju sem helst. Enginn getur sannfært aðra um eitthvað sem engin skýring er á og engin rök eru fyrir.

Þetta er samt saga um það yfirnáttúrulega - og hún er sönn.

Stúlkan í sögunni var 15 ára þegar hún gerðist. Hún hafði að miklu leiti alist upp hjá ömmu sinni sem bjó á hæðinni fyrir neðan foreldra hennar. Það var rúmt ár síðan hún lést. Fjölskyldan hafði orðið hennar var nokkrum sinnum, en fannst það ekki tiltölumál þar sem sumum finnst slíkt afar eðlilegt.

Þetta sumar var unglingurinn að vinna í fiski. Foreldrar hennar fóru árlega í ferðalag og fram til þessa hafði hún haft stuðning af ömmu sinni á meðan. En nú var amma horfin á braut. Unglingurinn hafði flutt á neðri hæðina - í íbúð ömmu sinnar, en foreldrarnir bjuggu í risinu. Þetta var þriggja hæða hús, verslunarhúsnæði á jarðhæðinni.

Þetta kvöld hafði hún verið hjá vinkonu sinni, klukkan var orðin margt. Þegar hún kom heim áttaði hún sig á því að hún hafði skilið lyklana eftir heima. Hún tók í útidyrahurðina sem auðvitað var harðlæst. Hún var jú ein í húsinu. Nú voru góð ráð dýr. Ekki kunni hún við að fara og fá aðstoð svona seint og það voru engir gsm símar.

Það var hinsvegar stór málningarstigi í garðinum upp við bílskúrinn. En hvar skyldi vera opinn gluggi?

Hún gekk í kringum húsið. Auðvitað var ekki hægt að fara inn í verslunarhúsnæðið - þar var líka allt harðlæst. Enginn gluggi var opinn á annarri hæðinni, en í risinu var gluggi sem stóð í hálfa gátt. Það virtist eina vonin. Enda átti hún eftir að vera ein heima í einhverja daga enn, þurfti að stunda vinnu og gat ekki lagst út. Þetta virtist vera eina lausnin.

Hún fór aftur inn í garðinn og virti stigann fyrir sér. Þetta gæti orðið ansi flókið. Sennilega yrði hún að setja stigann þannig að hún kæmist á svalirnar á annarri hæð, þaðan uppá svalirnar á risíbúðinni og labba svo eftir þakrennunni (sem var þó steinsteypt) að opna glugganum.

Fyrir einhverja rælni gekk hún aftur að útidyrahurðinni áður en hún fór að bjástra við stigann. Hún trúði varla eigin augum. Hurðin stóð í hálfa gátt. 

Hún hafði örugglega - alveg ábyggilega tekið í hurðarhúninn áðan og komist að því að allt væri harðlæst. Enda hefði hún aldrei skilið við húsið svona. 

Hún gekk inn. Lyklarnir lágu á borðinu í holinu, þar sem hún geymdi þá alltaf. Hún hugsaði hlýtt til ömmu sinnar meðan hún háttaði. Í hennar huga var enginn vafi hver hafði opnað fyrir henni þetta kvöld.

Hún vissi að hún átti verndarengil.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband