Þær voru svo sætar þessar skvísur. Tvítugar á leið á ball. Múnderingin var geggjuð. Stutt pokapils, flottir toppar og hælaháir skór. Svartar nælonsokkabuxur. Önnur ljóshærð en hin dökkhærð. Báðar með sítt hár sem varla bærðist í íslenskri kvöldgolu vegna ofnotkunar á hárlakki. Flottar.
Svona tipluðu þær stöllur út að bílnum. Gömlum Skoda, handmáluðum, sem eflaust hafði einhverntíman verið nýr og "flottur". Þær hlógu og göntuðust, fullar eftirvæntingar um skemmtilegt kvöld.
Ju ju ju ju - bílvélin var ekki alveg að gera sig. Aftur, ju ju ju ju. Engin spurning, drossían var rafmagnslaus. Reyndar í fyrsta skipti hjá eiganda sínum - greinilega.
Sú dökkhærða átti startkapla - þvílík snilld. Svo húddið var opnað. Þar var ekkert að sjá. Enga vél, engan rafgeymi. Nú jæja - skotti þá. Neibb - enginn rafgeymir þar heldur.
Þær litu í forundran hvor á aðra með starkaplana í höndunum. Var hægt að opna eitthvað fleira á þessum bíl. Þetta var ekki á prógramminu og þeim var farið að kólna. Ekki mikið skjól í pínupilsunum.
Sennilega tipluðu þær í kringum bílinn í fullan hálftíma og svipbrigðin hafa verið kostuleg, það efast ég ekki um.
Þá skyndilega sté maður úr kyrrstæðum bíl fyrir aftan þær. Bévaður bíllinn hafði verið þarna allan tímann svo væntanlega hafði hann fylgst með skvísunum allan tímann. Djö.... sjálfur. En hann kom glaðhlakkalegur og spurði hvort hann gæti aðstoðað. Þær roðnuðu svolítið, urðu þvílíkt vandræðalegar þar sem þær útskýrðu fyrir manninum að þær gætu bara alls ekki fundið rafgeyminn. Það væri bara enginn fjárans rafgeymir í bílnum, sem stæði þarna rafmagnslaus.
Maðurinn brosti (hann hló ekki - má þó eiga það). Opnaði afturhurðina vinstra megin og lyfti upp sætinu. Og þarna var hann - fjárans rafgeymirinn.
Þær þökkuðu fyrir sig, hálf skömmustulegar. Nei - leiðrétting. Fullkomlega niðurlægðar.
Þeim tókst að tengja kaplana og starta bílnum, sko þær.
Seinna um kvöldið mátti svo hlæja að þessu öllu saman. Reyndar má ennþá hlæja að þessu 20+ árum seinna...........
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.