Má bjóða þér stöðu sem leikfang?

Hún sat á kaffihúsinu og sötraði kaffið sitt. Ekki með neinum hávaða, en naut þess að sitja þarna og hlusta á fuglana sem loksins voru farnir að syngja sín fegurstu ljóð. Sólin gægðist af og til á milli skýjanna og litaði tilveruna af yl og birtu. Við næsta borð sátu erlendir ferðamenn íklæddir lopapeysum og vatnsheldum yfirhöfnum. Innlendir kaffihúsagestir nutu vorblíðunnar í léttum efnislitlum jökkum.

Hann kom að borðinu hennar og settist niður. "Sæl" sagði hann og horfði á hana rannsakandi augum. Rétt eins og hann væri að mæla út hverja einustu útlínu sem var sjáanleg. Hann brosti. Sennilega sáttur með það sem hann sá.

"Sæll" sagði hún. "Villtu ekki fá þér kaffi?". Nei - maðurinn drakk ekki kaffi en fór og náði sér í kakóbolla. Þau sátu þarna í vorinu og röbbuðu saman litla stund. Atvinnumálin, þjóðfélagsmálin - allt mögulegt. En fátt persónulegt.

Skyndilega ræksti hann sig og sagði "ég kann virkilega vel við þig og gæti vel hugsað mér að stunda kynlíf með þér. En ég er ekki tilbúin í neinar tilfinningaflækjur".

Það lá við að hún missti kaffibollann úr höndunum á sér. Síðan sprakk hún af hlátri. Hún hló svo mikið að tárin byrjuðu að leka niður andlitið. Þegar hún loksins náði að hemja hláturinn lítið eitt náði hún að stynja upp milli hlátursrokanna "Bíddu, ertu að bjóða mér uppá að verða kynlífsleikfangið þitt?"

Hann horfði á hana alvarlegur. Stökk ekki bros á vör. "Já - mér líst vel á þig. Hvernig hentar morgundagurinn þér? Ég er laus fyrir hádegi."

Hláturinn sem hafði verið í rénun magnaðist aftur þar til hann breyttist í óstöðvandi hiksta. Henni tókst að hrista höfuðið til merkis um það að samkomulag um þessa hluti mundi ekki vera til staðar.

Hún stóð upp og rétti honum hendina. "Það var mjög gaman að kynnast þér og ég vona að þér gangi vel í leit þinni að leikfangi."

Á leið sinni útí bíl, ennþá brosandi, gat hún ekki annað en hugsað um hvernig hún hefði náð að lenda í þessari fáránlegu uppákomu. Jú - facebook. Greinilega nauðsynlegt að endurskoða það fyrirbæri þegar heim væri komið.

Hún hafði haldið að í gegnum tíðina hefði hún náð að kynnast ýmislegu - en greinilega var hún ekki útskrifuð ennþá. Langt frá því.

Vá hvað lífið var klikkað.

 

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband