Færsluflokkur: Bloggar
Svo hún kynntist manni sem var búinn að vera í neyslu í nokkur ár. Óhamingjusamur. Atvinnulaus. Sá ekki lífið framundan.
Var það góðverk að hún skyldi snúa lífi hans á betri veg? Að hann hætti neyslu og gat skapað sér atvinnutækifæri með hennar hjálp? Með hennar stuðningi?
Nei - það var ekki góðmennska. Það var kærleikur. Það var sönn ást og væntumþykja.
Stóra spurningin er, fékk hún nokkurntíma þakklæti fyrir allt sem hún gerði honum til aðstoðar?
Merkilegt en satt - nei.
Á endanum skít og skömm. Fúkyrði - leiðindi.
En skiptir það hana máli?
Nei. Vegna þess að það var gert í kærleika. Ekki fyrir hana heldur þann sem henni þótti vænt um. Það verður aldrei af henni tekið og hún mun aldrei sjá eftir því.
Hún mun alltaf gleðjast yfir því sem hún gat gert á þessum tíma. Þarfnast ekki þakklætis. Því besta tilfinningin er sú að vita, að maður hafi gert sitt allra besta.
Fyrir það verður hún ævinlega sátt þó svo þakklætið sé ekkert.
Það er bara þannig að sumir geta ekki séð kærleika annarra vegna þess að þeir vita ekki hvað sannur kærleikur er.
Þannig einstaklingar missa af því stærsta og fallegasta í lífinu.
Að gefa af sér ást og kærleika.
En það er annað í þessari sögu sem ekki má gleyma. Einstaklingar sem hafa verið í neyslu haga sér oft öðruvísi en "ráð er gert fyrir". En sá sem er virkilega tilbúinn til að vinna með sig alla tíð eftir slíkt á þó bata vísan. Svo okkar er ekki að dæma.
Okkar er einmitt að sýna kærleika.
Bloggar | 13.5.2011 | 04:53 (breytt kl. 15:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það eru margir sem ekki trúa á yfirnáttúrulega hluti. Enda er hverjum og einum frjálst að trúa hverju sem helst. Enginn getur sannfært aðra um eitthvað sem engin skýring er á og engin rök eru fyrir.
Þetta er samt saga um það yfirnáttúrulega - og hún er sönn.
Stúlkan í sögunni var 15 ára þegar hún gerðist. Hún hafði að miklu leiti alist upp hjá ömmu sinni sem bjó á hæðinni fyrir neðan foreldra hennar. Það var rúmt ár síðan hún lést. Fjölskyldan hafði orðið hennar var nokkrum sinnum, en fannst það ekki tiltölumál þar sem sumum finnst slíkt afar eðlilegt.
Þetta sumar var unglingurinn að vinna í fiski. Foreldrar hennar fóru árlega í ferðalag og fram til þessa hafði hún haft stuðning af ömmu sinni á meðan. En nú var amma horfin á braut. Unglingurinn hafði flutt á neðri hæðina - í íbúð ömmu sinnar, en foreldrarnir bjuggu í risinu. Þetta var þriggja hæða hús, verslunarhúsnæði á jarðhæðinni.
Þetta kvöld hafði hún verið hjá vinkonu sinni, klukkan var orðin margt. Þegar hún kom heim áttaði hún sig á því að hún hafði skilið lyklana eftir heima. Hún tók í útidyrahurðina sem auðvitað var harðlæst. Hún var jú ein í húsinu. Nú voru góð ráð dýr. Ekki kunni hún við að fara og fá aðstoð svona seint og það voru engir gsm símar.
Það var hinsvegar stór málningarstigi í garðinum upp við bílskúrinn. En hvar skyldi vera opinn gluggi?
Hún gekk í kringum húsið. Auðvitað var ekki hægt að fara inn í verslunarhúsnæðið - þar var líka allt harðlæst. Enginn gluggi var opinn á annarri hæðinni, en í risinu var gluggi sem stóð í hálfa gátt. Það virtist eina vonin. Enda átti hún eftir að vera ein heima í einhverja daga enn, þurfti að stunda vinnu og gat ekki lagst út. Þetta virtist vera eina lausnin.
Hún fór aftur inn í garðinn og virti stigann fyrir sér. Þetta gæti orðið ansi flókið. Sennilega yrði hún að setja stigann þannig að hún kæmist á svalirnar á annarri hæð, þaðan uppá svalirnar á risíbúðinni og labba svo eftir þakrennunni (sem var þó steinsteypt) að opna glugganum.
Fyrir einhverja rælni gekk hún aftur að útidyrahurðinni áður en hún fór að bjástra við stigann. Hún trúði varla eigin augum. Hurðin stóð í hálfa gátt.
Hún hafði örugglega - alveg ábyggilega tekið í hurðarhúninn áðan og komist að því að allt væri harðlæst. Enda hefði hún aldrei skilið við húsið svona.
Hún gekk inn. Lyklarnir lágu á borðinu í holinu, þar sem hún geymdi þá alltaf. Hún hugsaði hlýtt til ömmu sinnar meðan hún háttaði. Í hennar huga var enginn vafi hver hafði opnað fyrir henni þetta kvöld.
Hún vissi að hún átti verndarengil.
Bloggar | 11.5.2011 | 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þær voru svo sætar þessar skvísur. Tvítugar á leið á ball. Múnderingin var geggjuð. Stutt pokapils, flottir toppar og hælaháir skór. Svartar nælonsokkabuxur. Önnur ljóshærð en hin dökkhærð. Báðar með sítt hár sem varla bærðist í íslenskri kvöldgolu vegna ofnotkunar á hárlakki. Flottar.
Svona tipluðu þær stöllur út að bílnum. Gömlum Skoda, handmáluðum, sem eflaust hafði einhverntíman verið nýr og "flottur". Þær hlógu og göntuðust, fullar eftirvæntingar um skemmtilegt kvöld.
Ju ju ju ju - bílvélin var ekki alveg að gera sig. Aftur, ju ju ju ju. Engin spurning, drossían var rafmagnslaus. Reyndar í fyrsta skipti hjá eiganda sínum - greinilega.
Sú dökkhærða átti startkapla - þvílík snilld. Svo húddið var opnað. Þar var ekkert að sjá. Enga vél, engan rafgeymi. Nú jæja - skotti þá. Neibb - enginn rafgeymir þar heldur.
Þær litu í forundran hvor á aðra með starkaplana í höndunum. Var hægt að opna eitthvað fleira á þessum bíl. Þetta var ekki á prógramminu og þeim var farið að kólna. Ekki mikið skjól í pínupilsunum.
Sennilega tipluðu þær í kringum bílinn í fullan hálftíma og svipbrigðin hafa verið kostuleg, það efast ég ekki um.
Þá skyndilega sté maður úr kyrrstæðum bíl fyrir aftan þær. Bévaður bíllinn hafði verið þarna allan tímann svo væntanlega hafði hann fylgst með skvísunum allan tímann. Djö.... sjálfur. En hann kom glaðhlakkalegur og spurði hvort hann gæti aðstoðað. Þær roðnuðu svolítið, urðu þvílíkt vandræðalegar þar sem þær útskýrðu fyrir manninum að þær gætu bara alls ekki fundið rafgeyminn. Það væri bara enginn fjárans rafgeymir í bílnum, sem stæði þarna rafmagnslaus.
Maðurinn brosti (hann hló ekki - má þó eiga það). Opnaði afturhurðina vinstra megin og lyfti upp sætinu. Og þarna var hann - fjárans rafgeymirinn.
Þær þökkuðu fyrir sig, hálf skömmustulegar. Nei - leiðrétting. Fullkomlega niðurlægðar.
Þeim tókst að tengja kaplana og starta bílnum, sko þær.
Seinna um kvöldið mátti svo hlæja að þessu öllu saman. Reyndar má ennþá hlæja að þessu 20+ árum seinna...........
Bloggar | 10.5.2011 | 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt samband. Tilfinningahitinn í hámarki. Fallegu orðin á færibandi. Algjört bliss. Bleika skýið.
Hann strauk hárið á henni og andaði ilmi þess að sér. " Þú ert svo falleg elskan. Það fallegasta sem ég hef nokkurn tíma séð" Hún andvarpaði og brosti. Hamingjusöm. Þau gátu sagt hvoru öðru allt. Alla sína drauma, talað um fortíðina.
"Það góða við þig er elskan, þú ert svo náttúruleg. Ég þoli ekki kvenfólk sem er alltaf stífmálað og pikkast um á háum hælum. Skil ekki þannig konur. Átti reyndar þannig kærustu einu sinni - byrjaði morguninn á að klína einhverju í andlitið á sér. Úff. Nei - þú ert alvöru"
Hún stundi af ánægju. Hafði aldrei lært listina sem felst í réttri, dagförðun, kvöldförðun, skemmtiförðun, förðun yfirleitt. Maskari var eina snyrtidótið. Glætan að halda jafnvægi á hælaháum skóm og hún var alveg eins og hann vildi hafa hana. Gallabuxur, strigaskór, bros á vör. Þau eyddu dágóðum tíma í að hlæja saman að alls kyns týpum. Make-up dollunum, vöðvaræktargaurunum, sílíkon dúllunum.
"Fallega góða stúlkan mín"
"Fallegi skemmtilegi kærastinn minn"
En svona tímar taka enda. Þannig er gangur lífsins.
Árum síðar sá hún hann með nýjustu kærustunni. Það var nokkuð augljóst að góður tími hafði farið í hina fullkomnu förðun þennan morguninn. Hælarnir á skónum voru amk. 6 sentimetra á hæð. Hún velti því fyrir sér hvort brjóstin væru ekta.
Hún flissaði með sjálfri sér og velti fyrir sér hvernig koddahjalið væri hjá honum núna. Það hlyti að hafa breyst því annars væri hann örugglega með 6 sentimetra djúpa holu í rassinum.......
Bloggar | 10.5.2011 | 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún sat á kaffihúsinu og sötraði kaffið sitt. Ekki með neinum hávaða, en naut þess að sitja þarna og hlusta á fuglana sem loksins voru farnir að syngja sín fegurstu ljóð. Sólin gægðist af og til á milli skýjanna og litaði tilveruna af yl og birtu. Við næsta borð sátu erlendir ferðamenn íklæddir lopapeysum og vatnsheldum yfirhöfnum. Innlendir kaffihúsagestir nutu vorblíðunnar í léttum efnislitlum jökkum.
Hann kom að borðinu hennar og settist niður. "Sæl" sagði hann og horfði á hana rannsakandi augum. Rétt eins og hann væri að mæla út hverja einustu útlínu sem var sjáanleg. Hann brosti. Sennilega sáttur með það sem hann sá.
"Sæll" sagði hún. "Villtu ekki fá þér kaffi?". Nei - maðurinn drakk ekki kaffi en fór og náði sér í kakóbolla. Þau sátu þarna í vorinu og röbbuðu saman litla stund. Atvinnumálin, þjóðfélagsmálin - allt mögulegt. En fátt persónulegt.
Skyndilega ræksti hann sig og sagði "ég kann virkilega vel við þig og gæti vel hugsað mér að stunda kynlíf með þér. En ég er ekki tilbúin í neinar tilfinningaflækjur".
Það lá við að hún missti kaffibollann úr höndunum á sér. Síðan sprakk hún af hlátri. Hún hló svo mikið að tárin byrjuðu að leka niður andlitið. Þegar hún loksins náði að hemja hláturinn lítið eitt náði hún að stynja upp milli hlátursrokanna "Bíddu, ertu að bjóða mér uppá að verða kynlífsleikfangið þitt?"
Hann horfði á hana alvarlegur. Stökk ekki bros á vör. "Já - mér líst vel á þig. Hvernig hentar morgundagurinn þér? Ég er laus fyrir hádegi."
Hláturinn sem hafði verið í rénun magnaðist aftur þar til hann breyttist í óstöðvandi hiksta. Henni tókst að hrista höfuðið til merkis um það að samkomulag um þessa hluti mundi ekki vera til staðar.
Hún stóð upp og rétti honum hendina. "Það var mjög gaman að kynnast þér og ég vona að þér gangi vel í leit þinni að leikfangi."
Á leið sinni útí bíl, ennþá brosandi, gat hún ekki annað en hugsað um hvernig hún hefði náð að lenda í þessari fáránlegu uppákomu. Jú - facebook. Greinilega nauðsynlegt að endurskoða það fyrirbæri þegar heim væri komið.
Hún hafði haldið að í gegnum tíðina hefði hún náð að kynnast ýmislegu - en greinilega var hún ekki útskrifuð ennþá. Langt frá því.
Vá hvað lífið var klikkað.
Bloggar | 10.5.2011 | 11:09 (breytt kl. 11:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)