Færsluflokkur: Bloggar
Ég er rík manneskja. Ekki af efnahagslegum auð heldur góðu fólki. Gott fólk er dýrmætt í lífi hvers og eins.
Vissulega er gott fólk ekki fullkomið, getur gert mistök. En maður þekkir mistök þeirra góðu í lífi manns. Þar er enginn illvilji á ferð. Manneskjan er jafn hjartahlý og alltaf.
En það er til önnur tegund af fólki. Fólki sem maður reynir að sneiða hjá af bestu getu. Þetta fólk gerir ekki mistök. Það framkvæmir ósiðlega hluti fullkomlega meðvitað um gjörninginn. Og mun halda áfram að gera ósiðlega hluti. Án samvisku. Sama um tilfinningar annarra. Skítsama.
Um daginn hitti ég vinkonu mína. Við höfðum ákveðið að kíkja aðeins út.
Við hittumst niðri í bæ. Vinur hennar hafði boðið henni út að borða. Það var svosem ekkert á milli þeirra - ekki af hennar hálfu. En ég geri ráð fyrir að vinurinn hafi nú ætlað sér eitthvað.
Við sátum þrjú á kaffihúsi og spjölluðum. Vinurinn gerði í því að sýna á sér sjarmahlið - okkur báðum.
Bauð okkur á tónleika. Rigsaði með okkur að stað þar sem hann var greinilega góðkunnugur og kynnti okkur sem "konurnar í lífi sínu".
Shit hugsaði ég. Sannur Charlie Sheen wannaby. Án nokkurrar innistæðu. Enda dvergvaxinn í krumpuðum jakka frá 1980. Grásprengt hárið ritjulegt og sítt að aftan. Ekki sjarmerandi á nokkurn hátt.
Hann bauð okkur drykk. Við þáðum það en það voru farnar að renna á okkur tvær grímur um þennan félagsskap. Maðurinn reyndi af fremsta megni að úða yfir okkur ágæti sínu með fullmikilli sýndarmennsku. Engin innistæða.
Vinkona mín skrapp frá. Dvergurinn hallaði sér fram á borðið og leit í augun á mér.
"Mikið ofboðslega ertu falleg" sagði hann og brosti skökku brosi. Gott ef hann deplaði ekki augunum.
Er mannannskotinn að reyna við mig hugsaði ég.
Ég þekki svona týpur.
Ömurlegri karakterar fyrirfinnast varla að mínu mati.
Ég afsakaði mig og stóð upp. Hitti vinkonu mína í andyrinu og sagði henni frá samskiptum okkar. Ég gæti ekki hugsað mér að eyða öðrum fimm mínútum með þessari dvergsubbu.
Hún var mér fullkomlega sammála. Fór inn og kvaddi. Hugnaðist ekki svona félagsskapur frekar en ég.
Restin af kvöldinu var ljúf. Gott kvöld í góðum félagsskap. Eðlilegum, heilbrigðum félagsskap.
Daginn eftir fékk ég vinabeiðni frá dvergnum á facebook.
Ég lokaði pent á þetta fyrirbæri sem greinilega heldur að hann væri guðsgjöf til kvenna.
How low can you go.
Bloggar | 1.6.2011 | 12:12 (breytt kl. 12:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvað er meira spennandi en aðfangadagur jóla fyrir litlar skottur?
Móðirin var komin í eldhúsið. Í mörgu að snúast fyrir kvöldið svo allt mætti vera sem yndislegast.
Heimilisfaðirinn sat í stofunni með tölvuna. Órólegur. Klukkan var að bresta í tólf. Búðir að loka. Ríkið að loka.
Það var kominn tími til að fara í hinn árlega jólapakkaleiðangur. Telpurnar voru uppábúnar en pabbinn var ekki að sýna á sér fararsnið.
Móðirin búin að sortera jólagjafirnar í poka - hvern fyrir sinn stað. Það voru svosem ekki margir staðir til að heimsækja. En alltaf nokkrir sem biðu eftir þessum mikla degi. Án þess að fara með jólapakka var aðfangadagur ekki samur.
Skyndilega stekkur heimilisfaðirinn á fætur með látum. Gengur að móðurinni með trylling í augunum.
"Ég er farinn. Mér er andskotans sama um þessi jól. Þú getur sótt bílinn útá flugvöll því ég er ekki að koma aftur".
Með þetta stökk hann á dyr. Telpurnar horfðu stóreygðar á.
Móðirin dró andann djúpt og hringdi í tengdaföðurinn. Útskýrði stöðuna í stuttu máli og að telpurnar biðu eftir að komast í jólagjafaleiðangurinn. Innan hálftíma var hann kominn, tók telpurnar og pakkana.
Þá fyrst lét móðirin eftir sér að hleypa tárunum niður kinnarnar - niður í sósuna. Þetta hafði svosem gerst áður - en ekki á jólunum.
Hún setti rauðvín í sósuna og í glas fyrir sig. Hugsaði.
Hún vissi að hann færi til mömmu sinnar. Sennilega væri þetta samt ekki uppákoma sem hún mundi líða einkasyninum. Ekki á þessum degi.Þó svo að hún iðulega tæki hans málstað - málstað sem hún gat aldrei skilið.
Hún furðaði sig á hvað fólk mundi halda um þessa breytingu. Faðirinn kæmi ekki á sína vanastaði með börnin. Það var svosem ekki hennar mál.
Hún slökkti undir pottinum - það var allt að verða tilbúið.
Tengdafaðirinn kom með telpurnar. Þær voru kátar, en samt gat maður merkt áhyggjur þeirra. Sú yngri bara 2ja ára.
Þegar móðirin var að klæða þá stuttu í jólakjólinn heyrði hún að lykli var stungið í skránna.
Sú stutta varð eitt sólskinsbros og hljóp á móti pabba sínum. Hann brosti á móti. Kom síðan afsakandi í átt til mömmunnar og tók utan um hana. Sú eldri stóð hjá. Hennar bros náði ekki til augnanna.
Móðirirn vissi að mamma hans hefði talað hann til. Sett honum skóinn fyrir dyrnar í þetta skiptið.
Kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin.
Maturinn bragðaðist vel og sósan ekki of sölt, þrátt fyrir tárin.
Bloggar | 31.5.2011 | 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tálsýn
Horfi út í myrkið
veit vel hvað ég vil
Að það sem ég hafði
væri í raun til
Að þú hafir blekkt mig
það aldrei ég skil
Orðin svo fögur
og augun svo blíð
snertingar mjúkar
það var góð tíð
ég horfi til baka
og tek því sem níð
Því frá mínum dyrum
var þetta sönn ást
ég allt vildi gefa
en dómgreind mín brást
því sá sem ég elskaði var aldrei til.
einungis draumsýn
sem gleyma ég vil
Hvað varð um manninn
sem ég elskaði heitt
sem gaf mér svo margt
en í raun ekki neitt
engin mun framar
geta mig meitt
Því frá mínum dyrum
var þetta sönn ást
ég allt vildi gefa
en dómgreind mín brást
því sá sem ég elskaði var aldrei til.
einungis draumsýn
sem gleyma ég vil.
Tálsýn sem aldrei var sönn.
Tálsýn sem aldrei var sönn.
Bloggar | 31.5.2011 | 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vissulega hafði maður verið "skotin" í strákum. Laumast til að horfa á sætasta strákinn í bekknum svo enginn sæi til. Ellt hann í frímínútum og tekið af honum húfuna. Hrifist síðan af öðrum.
En fyrsta ástin var öðruvísi. Sumir vilja kalla þetta hvolpaást, en ég upplifði hana af öllu hjarta.
Ég sá hann á fyrsta ballinu í gagnfræðaskóla. Réttara að segja - hann kom rakleiðis til mín og bað mig að dansa. Ég var svo undrandi að ég gat varla sagt neitt. Hann var tveimur árum eldri og þeir strákar voru nú yfirleitt ekki að skipta sér af litlu nýnemunum.
Seinna frétti ég reyndar að þetta hefði verið leikur hjá nokkrum vinanna. Þeir ákváðu að velja sér álitlegar stelpur úr busahópnum og dansa við þær eins og einn dans. Hafa svo gaman af því seinna.
Það vildi nú samt svo til að minn "herra" dansaði við mig allt kvöldið. Meira að segja vangalagið. Man ennþá hvaða lag það var. "Babe, I love you so".
Þessi ungi herramaður lét ekki þar við sitja. Hann fylgdi mér heim eftir ballið. Og fyrir framan garðshliðið kyssti hann mig.
Það var afskaplega hamingjusöm ung stúlka sem sveif upp í herbergið sitt þetta kvöld og sofnaði með bros á vör.
Ég sá hann í skólanum daginn eftir. Hann kinnkaði kolli og brosti. Meira var það ekki. Enda átti ég svosem ekki von á því. Átti ekki von á neinu nema þessu eina kvöldi.
Þennan vetur snjóðai snemma í Reykjavík. Ég var á leið heim úr skólanum og að mér komu eldri strákar og byrjuðu að henda snjóboltum í mig. Þetta voru vinir hans. Hann kom aðvífandi og ég hélt að hann mundi slást í leikinn með þeim. En mér til mikillar undrunar tók hann sér stöðu með mér og kastaði snjó í vini sína. Ég sá undrunarsvipinn á þeim.
Hann brosti til mín og spurði hvort það væri í lagi með mig. Ég kiknaði í hnjáliðunum og hjartað missti úr nokkur slög.
Næstu daga sá ég hann ekki í skólanum. Ég svipaðist um eftir honum eins og vanalega en sá hann hvergi. Það liðu dagar. Þá frétti ég að hann hefði lent í bílslysi. Ég hljóp heim með tárin í augunum. Þar tvísté ég. Ég varð að frétta af honum.
Ég gerði það sem ég furða mig ennþá á í dag hvernig ég þorði að gera. Litla feimna stelpan. Ég lyfti upp símtólinu og hringdi.
Hann svaraði. Ég náði að stama útúr mér því að ég hefði frétt af slysinu og vildi vita hvort allt væri í lagi. Hann bauð mér í heimsókn.
Nötrandi á beinunum labbaði ég þangað þar sem hann bjó. Hann kom til dyra. Hann var agalegur útlits. Hafði skorist allur á enni og niður að augum. En ég sá það ekki. Ég sá bara hann.
Hann bauð mér inn og við spjölluðum saman í dágóða stund. Svolítið feimin til að byrja með en síðan fórum við að skemmta okkur ágætlega.
Eftir þetta hittumst við oft. Fórum saman á skauta, lékum okkur í körfubolta. Allt fullkomlega fallegt og eðlilegt. Engir kossar samt.
Um áramótin bauð hann mér heim til sín til að vera um miðnættið. Þá hitti ég fjölskyldu hans í fyrsta skipti. Yndislegt fólk. Eftir miðnættið fórum við í göngutúr og héldumst í hendur. Hann sagði mér að hann væri hrifinn af mér en við værum ennþá mjög ung. Ég sagði sem satt var að tilfinningarnar væru alveg endurgoldnar. Og loksins kom langþráður annar koss. Koss sem innsiglaði að héðan í frá vorum við par.
Eftir þetta urðu fundir okkar örari og opinberir. Hann skammaðist sín virkilega ekki að vera í sambandi með yngri stelpu.
Við ræddum stundum kynlíf en okkur fanst það of snemmt. Ég yrði að ná ákveðnum aldri fyrst. Svo við létum kossana duga.
Á fermingardaginn minn sendi hann mér skeyti. Það var besta fermingargjöfin sem ég fékk.
Stuttu seinna fór að færast meiri alvara í leikinn hjá okkur. Ég taldi mig heppnustu stelpuna í heimi að fá að upplifa stóru skrefin með svona mikilli ást og vináttu.
Allt sumarið vorum við saman. Við hjóluðum saman og þegar tækifæri gafst til þá kúrðum við okkur hvort uppað öðru. Við fórum í fyrstu útileguna saman.
Ég kveið næsta vetri. Hann færi í menntaskóla og allt sem því fylgir meðan ég sæti eftir í gaggó. Ég vissi að hlutirnir mundu breytast. Sem þeir og gerðu.
Við hittumst sjaldnar. Hann var upptekinn af sínu nýja lífi. Samt voru ennþá sterkar taugar á milli okkar og sumarið eftir fyrsta sumarið hans í menntaskóla small allt saman eins og fyrr. Ég fékk fyrsta bíltúrinn þegar hann fékk bílprófið. Var kynnt fyrir menntaskólavinunum. Var þáttakandi í því lífi um stund.
En allt gott tekur enda. Einn daginn var þetta búið. Hann snéri sér alfarið að sínum menntaskólaárum ég sat vænglaus eftir að byrja síðasta árið í gagnfræðaskóla.
Við höfum ekkert hist síðan - sést álengdar, stoppað og brosað.
Góð vinkona mín hitti hann mörgum árum síðar. Talið barst að mér.
Hann brosti og sagði: "Hún mun alltaf eiga sinn stað í mínu hjarta."
Bloggar | 31.5.2011 | 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar ég var lítil telpa kenndi amma mér faðirvorið. Hún kenndi mér margt fallegt hún amma mín. Bænir, ljóð og sálma.
Fyrir ferminguna var svo þessi viska rifjuð upp og bætt í þennan viskubrunn sem nefnist trú.
Aldrei velti maður fyrir sér raunverulegri merkingu t.d. Faðirvorsins. Átti maður að fyrirgefa þeim sem stóðu í skuld við okkur? Í þá daga voru einu tengsln sem maður sá við skuld - peningar.
Merkilegt að Guð hafi verið að segja okkur að fyrirgefa þeim sem skulduðu okkur peninga.
Það var ekki fyrr en seinna að ég áttaði mig á að hér var átt við syndir eða misgjörðir. Líkt og hann fyrirgefur okkur eigum við að fyrirgefa þeim sem gera á okkar hlut.
Fyrir sumum hljómar þetta kannski einkennilega - jafnvel ómögulega.
Eigum við að fyrirgefa þeim sem særa okkur? Hafa jafnvel beytt okkur ofbeldi og óréttlæti?
Svarið er einfalt.
Já.
Okkar tilfinningar búa innra með okkur sjálfum. Sársauki og reiði í garð annarra eru ekki þægilegar tilfinningar. En þær skaða engan nema okkur sjálf. Þessar tilfinningar skaða ekki þann sem þeim er beint að. Oftast eru þær persónur ómeðvitaðar um okkar tilfinningar, eða slétt sama.
Við þurfum ekki að vera sámmála því sem aðrir hafa gert á okkar hlut. Við þurfum ekki að samþykkja það sem réttan eða góðan gjörning.
En með því að finna það með okkur að fyrirgefa, þá losnum við okkur frá þessum oft óbærilegu tilfinningum.
Þær eru ekki þess virði að dröslast með þær, bara til að skaprauna sjálfum okkur.
Leiðin getur stundum verið löng. Það getur verið erfitt að fyrirgefa.
En það er hægt.
Og þar með sleppum við tökum á því sem hefur valdið okkur hugarangri.
Og okkur fer að líða vel.
Reynsluna setjum við síðan í reynslubankann sem sumir kalla lífið.
Reynum að nota hana til góðs og aukins þroska.
Það má meira að segja seinna nota reynsluna í óþrjótandi sögur.
Sögur um lífið og tilveruna.
Bloggar | 31.5.2011 | 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég kynnstist einu sinni manni. Auðvitað hef ég kynnst þeim nokkrum, en þessi hafði sérstaka hæfileika.
Reyndar tvo.
Hann gat hallað sér fram og horft í augu mér eins og ekkert annað væri til. Þetta hlýtur að hafa tekið margra ára þjálfun, því seinna sá ég svo margt annað úr þessum augum - sem var alls ekki fallegt.
Hitt voru gullhamrarnir. Vá hvað þeir gátu flotið auðveldlega. Sannfærandi.
"Elskan. Ég man þegar ég sá þig einhverntíma á Laugarveginum. Þú tókst ekkert eftir mér. Þú varst svo falleg, kasólétt. Ég var svo svo afbrýðisamur. Afhverju varstu ekki konan mín? Afhverju var þetta ekki barnið mitt".
Vá - en ég þekkti hann bara þegar hann var unglingur. Aldrei datt mér til hugar að árum seinna horfði hann á mig með þessu hugarfari. Hann hlýtur að hafa verið svona ofboðslega hrifinn allan tímann.
Sællegt blikk - orðin virkuðu.
" Og núna ástin mín mun ég gera allt - allt til að missa þig ekki. Þú ert sú eina. Aleina".
"Og hvað þú ert falleg - það allra fallegasta".
Vá hvað þetta var að virka. Þar til það virkaði ekki lengur.
Augnaráðið breyttist úr ást yfir í reiðilegan trylling.
Seinna fékk ég sms " Fuck off".
Ég kynntist konu sem hafði lent í svipuðu. Eftir mér. Sami maður.
Tæknin eins.
"Þú ert svo falleg - það fallegasta sem ég hef séð".
Sömu endalok.
"Fuck off"
Vá - í hvaða skóla er þetta kennt?
Sjarmöraskóla fyrir þá sem vilja baða sig í kvenfólki?
Þessi dúxaði.
En gleymdi að læra um sanna ást og hamingju.
Það var ekki kennt í þessum skóla.
Bloggar | 30.5.2011 | 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
" Halló, halló - ert þetta þú elskan, það er svolítið slæmt sambandið".
"Já mamma"
"Hvernig gengur vinur, allt gott að frétta af barninu?"
"Mamma - veistu ég bara get þetta ekki lengur. Ég verð að komast heim. Ástandið er orðið svo slæmt."
"Hvað meinarðu vinur. Það er nú ekki svo auðvelt að fara að því."
"Það er bara allt ómögulegt. Konan talar illa um mig og allri fjölskyldunni er uppsigað gegn mér. Það er ekkert hægt að lifa við svona."
"Ég sagði þér nú alltaf að þú ættir ekki að giftast þessari konu. En hvað verður þá um blessað barnið - það er svo lítið og..."
"Svo er hún farin að drekka meira, hún bara fæst ekki til þess að hætta. Þessi fjölskylda flýtur öll í áfengi."
"Það má hún bara ekki vinur. Hún veit nú hvað þú ert búinn að gagna í gegnum. Þetta auðvitað gengur ekki, bölvuð vitleysa er þetta."
"Ég get fengið part af gámi með öðrum sem er að flytja heim, en ég á bara ekki fyrir því. En ég missi vitið ef ég er hérna mikið lengur. Þú verður að hjálpa mér mamma".
"Auðvita elskan. Ég búin að segja þér að þetta gengi aldrei upp. Þetta er ekkert sérlega góð kona þó svo að honum pabba þínum finnist hún hreint ágæt. Hún kann enga mannasiði."
"Æ takk mamma, ég vissi að þú myndir skilja mig."
"Auðvitað elskan, ég tek bara til gamla herbergið þitt aftur. Við getum þá haldið uppá fertugsafmælið þitt hérna heima á Ísland. Segðu mér bara hvað ég á að leggja mikið inn hjá þér svo þú getir keypt flugfar og komið dótinu þínu heim drengurinn minn."
"Já".
"En þú verður að hætta þessum vitleysisgangi með kvenfólk. Þú veist að það skilur þig enginn eins og ég vinurinn minn. Og vera ekki að æða þetta til útlanda svo ég geti passað uppá þig."
"Já mamma - ég veit þú hafðir rétt fyrir þér. Þú ert alltaf best."
"Jæja vinur. Ég skal sjá um þetta. Útbý herbergið þitt og undirbý fertugsafmælið vinurinn minn. Svo kannski getum við skroppið til Parísar með vorinu. Bara við tvö".
"Já mamma. Ég hringi á morgun og læt þig fá upplýsingar um kostnað".
"Gerðu það vinur. Ég tala við pabba þinn. Hann verður eflaust ekkert ánægður, en hann hefur bara ekkert um málið að segja."
"Oh mamma - þú ert eina konan sem skilur mig."
Bloggar | 30.5.2011 | 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flest viljum við upplifa ást og kærleika í lífinu.
En að finna rétta makann getur verið æði flókið. Sérstaklega þar sem oftar en ekki fær maður glansmyndir af þeim sem maður er að kynnast til að byrja með. Viðkomandi dregur kannski upp mynd af hinum fullkomna einstaklingi (sem er jú ekki til) og umlykur sjálfan sig draumaívafi. Drekkir sjálfum sér í hrósum um velgengni svo ofbirtan verður svo mikil að nauðsynlegt er að setja upp sólgleraugun.
Það er oft ekki gott að finna út hvað er satt og hverju logið á þessum tímapunkti.
En ákveðin atriði eru þó alveg ávísun á að ekki sé allt sem skyldi og rauðu ljósin fara að blikka af fullum krafti.
Ef drjúgum hluta tímans er eytt í að ræða fyrrverandi maka er greinilegt að viðkomandi hefur ennþá sterkar taugar í þá áttina og ætti kannski að vinna í sínum málum á þeim vettvangi.
Ef á það bætist hversu hræðilegur og jafnvel geðsjúkur fyrri maki og eða makar eru - þá er hætta á ferðum. Er verið að snapa vorkunn? Aumingja einstaklingurinn er búinn að lifa við þessar hörmungar og getur ekki hætt að tala um þær.
Þess fleiri fyrrverandi skelfilegir makar, þess öruggara er að maður sjálfur mun enda sem skelfilegur fyrrverandi maki.
Hér er því best að hlaupa út.
Sýni þessi draumasnepill óhóflega stjórnsemi strax í upphafi og ákveður að ráðskast með þitt líf á einhvern hátt, þá geturðu verið viss um að í framtíðinni færðu engu ákveðið sjálfur um þitt líf. Það er ekkert krúttlegt eða aðlaðandi við stjórnsemi.
Upp með hlaupaskónna!
Er sjarmörinn með mömmu sína á heilanum? Býr jafnvel hjá henni og hefur gert meira eða minna í tímans rás? Þá erum við kominn með mömmubarn uppá arminn sem mun alltaf verða trúrri mömmu sinni en þér. Hver vill láta tengdamóður sína stjórna lífi sínu?
Skelfing í vændum!
Færðu sögur af fyrri ástarævintýrum á færibandi? Að hann hafi verið með þessari og hinni? Úff - ekki gott. Viðkomandi hefur greinilega þörf til að skreyta sig með samböndum sínum frekar en að lifa í þeim.
Gott að spyrja sig hvort manni langar að vera skrautfjöður eða klikkhaus þegar þessi elska snýr sér að næsta fórnarlambi.
Talar viðkomandi endalaust og stanslaust um sjálfan sig?
Þá ertu komin með hið fullkomna egó og væntanlega verður ekki mikið pláss fyrir þig í þessu sambandi.
Kannski væri ekki úr vegi að fá að kíkja á skattframtöl síðustu ára. Þá má sjá hvort viðkomandi er ábyrgðarfullur einstaklingur eða bara ábyrgðarlaus töffari.
Já - það er flókið að lifa í henni veröld.
Bloggar | 29.5.2011 | 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún : Eigum við þá frekar að fá okkur hund en að eignast barn?
Hann : Tja, eigum við ekki fullt af börnum samanlagt.
Hún: Jú, en ekki saman.
Hann: Já en elskan, þurfum við fleiri börn? Ég á þrjú og þú tvö. Er það ekki ágætt.
Hún: Við þurfum líka stærri íbúð.
Hann: Mér líst ekkert illa á hund.
Hún: Eigum við að gifta okkur í þessari kirkju?
Hann: Ah - er ekki gifting bara ávísun á skilnað?
Hún: Ferlega ertu neikvæður.
Hann: Ég ætlaði nú ekki að vera það elskan, en er þetta ekki bara ágætt eins og það er?
Hún: Oh - þú ert svo órómantískur.
Hann: Elskan mín, það var ekki ætlunin. Þú veist að ég elska þig.
Hún: Já - einmitt. Ég er svo að trúa því.
Á þessum tímapunkti var ég komin heim og fór útúr bílnum. Fegin að losna undan þessum samræðum.
Fór inn, háttaði og skreið uppí rúm.
Hugsaði í svefnrofunum - hvað er ást eiginlega? Svona karp?
Strauk yfir kollinn á hundinum mínum.
Nei fjandakornið.
Bloggar | 29.5.2011 | 06:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á ég að verða mér úti um áfallahjálp?
Af hverju?
Ég er ekki fulkomin. Geri mistök stundum.
Nú, hver er fulkominn?
E humm - enginn.
Hvað er fullkomnun?
Held að það sé ekki til.
Sammála. Má ég þá gera mistök?
Úff nei - alls ekki, þú ert dæmd/ur af þeim jafnvel alla ævi.
Afhverju?
Af því að þeir sem halda að þeir séu fullkomnir og hafa alltaf rétt fyrir sér geta ekki liðið það.
Nú. Eru þeir þá fullkomnir?
Nei - alls ekki.
Ha - ég er ekki alveg að skilja.
Nei. Hver gerir það?
Uh - ekki ég.
Bloggar | 29.5.2011 | 05:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)