Heiðarleiki ekki alltaf góður kostur?

Einhvernvegin hef ég innprentað í sjálfa mig að heiðarleiki sé góður kostur. Sannleikurinn sé það sem alltaf verður ofaná og honum eigi ekki að leyna.

Vissulega skal ég viðurkenna, að oft má satt kyrrt liggja. Það er sennilega minn helsti veikleiki - að geta ekki haldið mér saman um það sem er satt og rétt.

Sannleikurinn og heiðarleikinn á nefninlega ekki við alla. Helst þá sem lifa utan hans og vilja fá að vera þar í friði. Í þeim tilvikum geta þessar dyggðir sært. Eða - á ég að segja, koma illa við einstaklinga.

Sumir vilja einfaldlega ekki láta núa sér upp úr sannleikanum og vilja fá frið fyrir honum. Skiljanlega oft. Bregðast jafnvel reiðir við. Dúndra til baka leiðindum og ljótum orðum.

En það markar jú bara viðkomandi.

Það bráðfyndna er, að þeim sem líkar ekki sannleikurinn reynir að breyta honum sér í vil. Það dugar nú yfirleitt ekki lengi. En það mátti reyna.

Hinsvegar er annað í því að oft megi satt kyrrt liggja. Maður má ekki bregðast trúnaði annars fólks sem segir sannleikann. Stundum klikkar maður á þessu og dúndrar sannleikanum út í loftið. Í einhversskonar hvatvísi, jafnvel án umhugsunar.

Samt, þegar allt kemur til alls, vona ég að enginn getir reiðst fólki einungis vegna þess að það sagði satt. Hinsvegar skil ég vel að fólk geti reiðst ef það er uppvíst af lygum.

Fólk sem lifir í heimi blekkinga er líka oftast reitt.

Það er erfitt að fara með heiðarleika, sannleika og traust. 

Ég held samt, að heil manneskja sé alltaf heil. Og ef hún brýtur ómeðvitað traust í heiðarleika þá sé það ef til vill réttlætanlegt. 

Brjóti manneskja af sér með lygi, þá er ekkert sem réttlætir það.

Jú - heiðarleiki er góður kostur. Hvernig sem á það er litið. 

Sjáum til.

Barnið sem er beitt ofbeldi á að segja heiðarlega frá því. Því verður ekki tekið vel, en það er það rétta að gera.

Manneskja sem verður fyrir ósanngirni á að segja frá því. Mögulega taka því ekki allir vel, flestir vilja komast upp með slíkt án þess að fréttist.

Förum í aðrar öfgar.

Fólk sem verður fyrir nauðgun, ofbeldi eða örðu slíku - á að geta sagt frá því. En því mun aldrei verða tekið vel af þeim sem fremur verknaðinn.

Eigum við semsagt að þegja yfir því þegar gert er á hlut okkar?

Vegna þess að það hentar ekki öllum að við séum heiðarleg?

Persónulega finnst mér það ekki. 

En það er líka sennilega vegna þess að ég geri ekki í því að meiða og særi aðra. Það er aldrei mín ætlun. Gerist það, þá er það vegna þess að ég segi sannleika sem ætti kannski að vera ósagður.

Hinsvegar er ég svo heppin að eiga þá að, sem láta mig vita ef ég óvart geri slíkt.

Þá líka tek ég það til mín og biðst fyrirgefningar.

 


Að taka reiðina úr umferð

Ég átti eitt sinn mjög kæran vin. Við vorum vinir í æsku og urðum vinir á ný á fullorðinsárunum eftir að hafa ekki sést í allmörg ár. Ég mundi eftir honum oftast kátum og hressum. En einnig sá ég að í honum bjó stórt skap - mjög stórt.

Slíkt skap má þó læra að hemja og þegar ég hugsaði til hans var ég viss um að það hefði hann gert.

Þegar við hittumst aftur höfðum við um margt að spjalla. Hans unglingsár og fram yfir tvítugt höfðu verið lituð af erfiðleikum. Ég var fyrst fullviss um að þessa erfiðleika hefði hann tekist á við og sigrað.

En þess oftar sem við hittumst og þess meira sem við spjölluðum, áttaði ég mig á að reiðin hjá unga drengnum var ekki horfin. Þvert á móti hafði hún magnast. Það sem verra var, hann virtist litla sem enga stjórn hafa á henni. Ég upplifði hann í stöðugu stríði við einhvern. Þegar einni baráttunni lauk tók sú næsta við. Það var engu líkt en hann upplifði alla hluti sem persónulega árás á sjálfan sig.

Það þýddi minnst fyrir þá sem voru umhverfis hann að benda honum á veikleika í sínu fari. Að mögulega væri til staðar hegðun sem hann þyrfti að ná stjórn á. Slíkar ábendingar voru honum ekki að skapi.

Það var sárt að horfa uppá þetta. Þarna var maður ríkur af hæfileikum. Hann hafði afskaplega margt gott til að bera. Gáfur, góðan húmor og hann gat hrifið alla með sér í glettni sinni. Það var margt fleira. 

En á augabragði gat ský dregið fyrir augu hans og þau orðið leiftrandi af heift. 

Vinum sínum reyndist hann vel, en jafnvel þeir gátu orðið fyrir þessari stjórnlausu reiði. Jafnvel útaf misskilningi, skiptum skoðunum - einhverju sem í raun ætti ekki að skipta neinu máli.

Það kom að því, þó svo við hefðum verið bestu vinir og jafnvel á stundum trúnaðarfélagar, að reiðin beindist að mér. 

Ég skildi aldrei hvers vegna. Sá ekki ástæðuna. Í mínum huga hafði ég alltaf verið honum velviljuð og skyldi ekki afhverju hann gat ekki séð það.

En svona getur víst þessi stjórnlausa tilfinning verið. Hún valtar yfir allar aðrar tilfinningar, aðrar persónur. Særir, grætir og brýtur niður þá sem fyrir verða.

Ég dró mig í hlé. Í fyrstu reyndi ég að benda á hluti sem mér fundust augljósir. En fólk sér ekki hlutina með sömu augum. Síst ef þeir eru reiðir og staðfastir á sínu.

Stundum hugsa ég til hans, vona að einhvern daginn átti hann sig á skaðsemi reiðinnar og leitist við að ná stjórn á neikvæðum tilfinningum. Hleypi alvöru gleði inn í hjarta sitt. Ekki bara tímabundnum plástrum. Vinni með sig - fyrir sjálfan sig. 

Geti gengið restina af lífsleiðinni innilega glaður og hamingjusamur. Með fullkomna stjórn á tilfinningum sínum. Hleypi kærleika inn og taki reiðina úr umferð.

Þess sama óska ég  öllum öðrum sem fóðra sínar neikvæðustu tilfinningar umfram þær góðu.

Slíkt tekur tíma, jafnvel vinnu allt lífið - en verðlaunin eru margfallt þess virði. 

Því það sem þú gefur af þér færðu svo margfallt til baka.

Er því ekki betra að gefa gleði?


Herra Casanova

Ég var einu sinni í sambandi með manni. Sá taldi sig örugglega vera sjálfan Casanova, svei mér þá.

Eiginlega get ég ekki sagt að mér finnist það beint "turn on" að hlusta á karlmenn raupa um fyrri kynlífsreynslur. Frekar þvert á móti. 

Herra Casanova var iðinn við uppfræðsluna á ágæti sjálfs síns í rúminu með öðrum konum. Hversu ofboðslega vinsæll hann væri meðal kvenþjóðarinnar. Það hefðu alltaf verið einhverjar "kellingar".

Þegar hann var ungur var það fröken X - með stóru brjóstin. Ósköp venjuleg en hann hafði gaman af að "humpa henni" í svona mánuð. Þá skipti hann yfir í bestu vinkonuna. Sætt - hugsaði ég.

Og flotta daman sem hann skreið uppí rúm hjá í einhverju partýinu. Þó svo kærastinn hennar væri sofandi annarsstaðar í húsinu. Auðvitað gat hún ekki staðist hann og innan skamms var allt komið á fullt. Vá - hugsaði ég. Frábær karakter á sínum yngri árum greinilega.

Nú - eða þegar hann var með tveim gleðikonum í einu. Á einhverju ferðalagi. Ég spurði hann ekki hvort hann hefði borgað fyrir greiðann.

Já - hann hafði sko prófað allt, það mátti ég vita. Allar tegundir, alla liti. Hvítar, svartar, brúnar, gular og grænar.

Þurfti ekki annað en að grípa um rassin á þeim og þær voru húkkt.

Casanova var hrifinn af klámi (eðlilega) og það var greinilegt að frammistaða hans var oft lituð af einhverju sem maður sér í klámmyndum. Kannski var þetta svolítið spennandi fyrst, en síðan fór það að verða leiðigjarnt.

Hvað með að njóta ásta? Fallegan forleik kannski?

Já, sumir hafa óbilandi álit á eigin ágæti. Hann þætti töfrandi sjarmur.

Sjálfsagt var hann það á yngri árum. Glansmyndin var að vísu aðeins farin að eldast. Tennurnar gular og augun svo lítil og pírð að það var erfitt að sjá hvernig þau voru á litin. En vissulega eitthvað við hann - man bara ekki alveg hvað það var.

Á endanum tjáði ég herranum að ég væri lítið fyrir að hlusta á kynlífsreynslu þeirra sem ég væri í sambandi með. Og klámmyndir þættu mér ekki spennandi. Eiginlega væru þær fyrir í sambandinu.

Merkilegt nokk hætti raupið og eflaust minnkaði klámmyndaáhorf líka. Það merkilega var, að þar með virtist herra Casanova missa löngun til kynlífs. Þetta mikla kyntákn og kynlífströll. 

Allt búið.

Skreið uppí rúm seint og um síðir og fór að sofa. Enginn áhugi.

Ég velti því fyrir mér hvort það væri ég? Nei fjandakornið. Ég var alveg jafn álitleg og áður.

En herra Casanova var greinilega búinn að missa mojo-ið. 

Okkar leiðir skyldu. Það voru búin að vera rauð blikkandi ljós alllengi sem mér láðist að taka eftir. En var ekki hægt að útiloka endalaust. Hinn töfrandi Casanova var ekki jafnt töfrandi karakter þegar allt kom til alls. Minnti mig stundum á reiðan ungling sem vildi fá sínu framgengt.

"Ég er vanur að fá það sem ég vil".

Gott og vel - finndu það annarsstaðar, hugsaði ég. Samband búið.

Ég varð svo ekki hissa þegar ég frétti að herra Casanova var farinn að gera hosur sínar grænar fyrir elstu og bestu vinkonu minni. Minntist sögunnar góðu. Sú hin sama var hinsvegar ekki impressed.

Þvílíkur sjarmur - not.

Að sjálfsögðu heyrir maður af honum af og til klípandi í rassa. Lítill heimur jú nó.

Gott mál - bara svo lengi sem hann lætur minn íðilfagra afturenda í friði.


Facebook afhjúpanir

Kosturinn við að vera einn og sér og sjálfur er meðal annars sá að ef þú hittir bráðmyndarlegann náunga, er ekkert að því að taka smá tvist í svefnherberginu. Það má.

Ég hitti einn svona gordjöss um daginn og - PÚMM - við skulum ekkert fara útí smáatriði næturinnar. Nema að hún var himnesk.

Við áttum stefnumót strax kvöldið eftir og ég addaði honum á facebook. Hann samþykkti - rétt áður en ég átti von á honum. Planið var cozykvöld með góðum bíómyndum og kynferðislegu ívafi.

Þegar ég sá myndina af honum brá mér svolítið í brún. Við hlið hans á myndinni stóð þessi gullfallega kona. Ég kíkti á statusinn - "í sambandi með........"

Úff. Hvað var í gangi eiginlega. 

Dyrabjallan hringdi. Þarna stóð hann. Hár og myndarlegur, með þrjár myndir í hendinni. Svolítið vandræðalegur. "Sko - þetta er ekki eins einfalt og það lýtur út fyrir að vera" sagði hann að fyrra bragði. 

Það kom í ljós að kærastan var búsett erlendis og ekki var alveg ákveðið um framhald sambandsins. En þar sem maðurinn var skráður í samband ákvað ég að láta kúr og bíómynd duga. Sleppa kynlífsívafinu þar til málin skýrðust. Nóg samviskubit hafði ég yfir að hafa átt dásamlega nótt með fráteknum manni.

Hann var áfram facebookvinur minn og við spjölluðum stundum, en hittumst ekki. 

Eitt kvöldið fékk ég skilaboð. "Hæ elskan". Ég svaraði til baka. Við spjölluðum smá á ljúfu nótunum og hann vildi fá að koma í heimsókn á næstunni. Ég spurði hvernig væri með dömuna? "Hún er sofandi" var svarið. Ég kváði. "Hjá þér?" Jú - þau voru byrjuð að búa saman.

Samtalið endaði á kurteisu nótunum þar sem ég óskaði honum velferðar í sambandinu.

Af einhverjum ástæðum tók ég hann samt ekki út sem vin. En bryddaði ekki uppá samræðum við hann eftir þetta. 

Eitt kvöldið poppaði hann upp. " Hæ elskan - saknarðu mín sæta?"

Ég tékkaði á statusnum hjá honum. "Trúlofaður".

Án frekari orðaskipta eyddi ég honum af vinalistanum.

Það eru mörk í samböndum fjandakornið. En maður hefur líka siðferðiskennd sem einstaklingur.

Fráteknir einstaklingar eru fráteknir - og ég kem ekki nálægt þeim.

Vil ekki valda fólki sársauka - hvort sem ég þekki það eða ekki. 


Hún tók fram úr traktor!

Þegar ég fékk bílprófið var það þannig að 17 unglingarnir með nýju bleiku skírteinin sín fengu oftast lánaðan bíl foreldra sinna til að rúnta um á.

Þannig var það auðvitað ekki í mínu tilfelli. Pabbi átti gamlan sendibíl sem enginn gat ekið nema hann.

Kærastinn minn átti hinsvegar fornan Volvo Amazon station (sama árgerð og ég) sem var eins og skriðdreki í akstri. Þungur í stýri, gírarnir duttlungafullir ásamt fleiru. Eiginlega forðaðist ég að keyra tryllitækið, fílaði mig betur í farþegasætinu.

Þar til kærastinn missti bílprófið  í 6 mánuði. Þá var röðin komin að mér, hvort sem mér líkaði betur eða verr.

Þetta var rétt fyrir Verslunarmannahelgi og stefnan var á Þjórsárdal. Og ég varð að keyra. Ekki bara það heldir með fullan bíl af fólki sem að sjálfsögðu djúsaði alla leiðina. Aksturshæfileikum mínum var ekki gefin há einkunn og þar sem við vorum í samfloti við annan bíl, var ákveðið að ég keyrði á undan. Annars mundu förunautar okkar stinga okkar af í rykmekki.

Kærastinn hafði nú lagt undir sig farþegasætið og hló óstjórnlega af tilburðum mínum. Ég var frosin í framan, með nefið klesst upp að rúðunni og ók á hraða snigils að honum fannst. Einnig átti ég það víst til að setja litlu fingurna beint upp í loftið. Einbeytingin var gífurleg, enda algjör frumraun mín á akstri á þjóðvegum úti. 

Bílarnir óku fram úr mér eins og á færibandi og í hvert skipti fékk ég smá glósu, sem þó fór minnkandi eftir að hópurinn fann annað og skemmtilegra umræðuefni.

Skyndilega beygði dráttarvél út á veginn fyrir framan mig. Nú voru góð ráð dýr. Dráttarvélin sniglaðist mun hægar en ég hafði gert. Í smá stund dólaði ég á eftir henni og var nú athyglin öll á mér aftur. 

Þá gerðist það ótrúlega - mín tékkaði ofurvarlega hvort umferð væri á móti. Enginn bíll. Gaf stefnuljós, smellti í þriðja og flaug fram úr dráttarvélinni!

Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna.

Bíllinn sem var í samfloti við okkur renndi upp að hlið bílsins. Rúðan var skrúfuð niður og fimm háværar raddir sungu í kór.

"Hún tók fram úr traktor! Veiiiiii"

 

 


Svartaklædda skelfingin

Mæður eiga að vera fyrirmyndir unglings dætra sinna. Eðlilega klikkar það stundum - ok. En það er spurning um í hverju klikkunin felst.

Fyrir fimmtán ára stúlkur er ekkert mikilvægara en að allt sýnist fullkomið. Allavega þegar kemur að vinahópnum. Ímyndin er nefninlega ekki bara unglingurinn sjálfur heldur allt sem snertir hann persónulega. Heimilið, heimilishaldið og fjölskyldan. Auðvitað fötin líka - en hey, það er allt önnur saga.

Þessi unga heimasæta átti samt í ákveðnum vanda með sýna móðurlegu fyrirmynd. Móðirin átti það til að fá sér í staupinu um helgar (allavega um helgar). Eða eigum við frekar að segja, hella vel og hressilega inn á heilann og vera síst boðleg sem móðir og alls ekki hæf til sýnis.

Þetta var kannski ástæðan fyrir því að unga stúlkan var treg til að fá vini í heimsókn. Hins vegar hafði hún mjög góða aðstöðu til þess. Herbergi á neðri hæð hússins þar sem hún var ein. Þetta vissu vinir hennar vel og það kom fyrir að hún lét undan þrýstingi og bauð vinum sínum heim. Enda var það ekki bannað á hennar heimili. Vinskapurinn og það að vera tekin í hópinn skipti hana miklu máli. Hún var nokkuð vinsæl og ekki eyðilagði þessi fína aðstaða vinsældir hennar.

Þar til þetta laugardagskvöld.

Það var stuð á unglingahópnum sem sat í stofunni á neðri hæðinni og hlógu eins og unglingum sæmir. Sumir renndu einhvern hýru auga, aðrir fíluðu tónlistina og enn aðrir hlustuðu á.

Enginn tók eftir því strax þegar húsmóðirin á heimilinu kjagaði inn í stofuna - en síðan sló dauðaþögn á hópinn. Þarna á miðju gólfinu brosandi skökku brosi stóð hún í svörtum gjörsamlega gagnsæjum náttkjól. Engu öðru.

"Er gaman hjá ykkur elskurnar" drafaði hún með smeðjulegu brosi.

Sprenging!

Heimasætan stökk á fætur og dró móður sína út úr stofunni og skellti á eftir sér. Rauð í framan með tárin í augunum. 

"Hvurn djöfulann ertu að gera" gat hún stunið upp.

Fleiri urðu orðaskiptin ekki. Heimasætan dró þröglandi móðurina upp á efri hæðina og ýtti henni inn í svefnherbergi foreldra sinna þar sem faðir hennar svaf værum svefni. 

"Pabbi". Öskrið hefur örugglega heyrst yfir allt nágrennið. Hann hrökk upp og horfði á þessa undarlegu sjón sem við honum blasti. "Gæturðu mögulega haldið konunni þinni frá mér og vinum mínum!" Þar sem tárin láku niður eftir kinnum dótturinnar var faðirinn fljótur að átta sig og reiðisvipur færðist yfir andlitið. Hann stökk fram úr og greip í handlegg móðurinnar.

Þegar heimasætan kom aftur niður í stofuna eftir að hafa þurkað af sér tárin voru gestirnir að búa sig til heimferðar. 

"Hey - er í lagi með þig?" spurði ein vinkonan. Stúlkan kinnkaði kolli.

Stuttu síðar voru allir farnir. Heimasætan sat í sófanum og grét. Þvílík skömm. Djöfuls brennivínið.

Það leið langur - mjög langur tími þar til hún bauð fólki aftur í heimsókn. En eina ákvörðun tók hún þarna á þessari stundu.

Aldrei ALDREI skildu hennar börn upplifa neitt þessu líkt af hennar völdum. Aldrei skildi brennivínið fá að eyðileggja sjálfsmynd hennar barna.

Og fram til þessa hefur hún staðið við það. 

 

 


Reynslusaga að sunnan

Ég var búin að vera gift í 16 ár, en við uxum í sundur. Það var enginn neisti eftir í okkar hjónabandi. Við vissum það bæði en hvorugt okkar var tilbúið að enda sambandið. Við höfðum það ágætt. Vorum vinir, áttum tvö börn, íbúð – allt þetta venjulega.

 Þar til hann birtist.

Líf mitt umturnaðist á einu vetfangi. Við hittumst á balli, þekktumst frá því í gamla daga og ég bauð honum í heimsókn. Ég átti í raun ekki von á meiru sambandi – en ég hafði rangt fyrir mér. Stuttu seinna fékk ég ástarbréf frá honum á tölvupósti. Ég væri konan sem hann hefði alltaf elskað frá því við vorum unglingar.

Ef hjónaband mitt hefði ekki þegar verið runnið sitt skeið hefði ég sennilega aldrei hugsað um þennan póst, eða þennan mann. En þetta kveikti í mér – meira en ég áttaði mig á í fyrstu. Stuttu síðar vorum við orðnir vinir á msn. Ég beið eftir að hann kæmi í samband og saug í mig öll fallegu orðin og ástarjátningarnar. Loks hittumst við á fögrum degi. Ég var ennþá gift og vildi halda mínum trúnaði. En ástin blossaði. Ég reyndi að hrinda þessari tilfinningu frá mér – þessum manni. En það tókst ekki. Sama hvað ég reyndi – ég var gjörsamlega smituð af hrifningunni.

Stuttu síðar ákváðum við hjónin að skilja. Þetta samband mitt átti þar stóran part.

 Ég man þegar ég hitti móður hans. Hún horfði á mig og sagði “ hvað ertu að gera? Hann hefur engu að tapa en þú hefur öllu að tapa”. Ég gat ekki skilið hvað konan var að meina. Hvernig henni gæti dottið til hugar að segja svona hluti við konuna sem sonur hennar var ástfanginn af.

Við byrjuðum að búa saman. Hann sagði mér allt frá sínu fyrra lífi. Hvernig konurnar í lífi hans hefðu verið ómögulegar. Hvernig hann hefði skilið við son sinn bara 3ja mánaða gamlan erlendis. Af því hann gat ekki búið með mömmu hans lengur. Hvernig fyrsta konan hans hefði stungið af úr hjónabandinu. Hvernig óstýrilátt og erfitt samband hans var við konuna sem hann var síðast í sambúð með. Að sjálfsögðu var þetta allt saman konunum að kenna. Þær voru allar geðveikar. Ég – eins og ástfanginn asni, trúði þessu öllu og sá bara hans hlið. Fannst það ekkert skrítið að hann hefði þessa sögu á bakinu með fyrri eiginkonum og sambýliskonu. En ég átti eftir að átta mig – bara aðeins of seint.

 Eftir skilnaðinn við mann minn til 16 ára átti ég hlut í sameiginlegri íbúð okkar. Við skiptum öllu jafnt og ég gat keypt íbúð. Að sjálfsögðu var hún miðuð við bæði börnin og kærastann. Hann þurfti stóran bílskúr þar sem hann var tónlistarmaður og varð að hafa gott pláss fyrir hljóðfæri og alls kyns tæki og tól svo ég tala nú ekki um æfingarpláss.

Allt gekk vel í fyrstu. Hann var sjarmerandi og ástúðlegur. Ég hélt að þetta væri sönn ást. Seinna komst ég að öðru. Hann þurfti þetta. Heimili og vinnustað þar sem ekki gat hann endalaust búið í kjallaraherbergi hjá foreldrum sínum. Hann þurfti líka að hafa fullkomna stjórn. Enginn máti setja útá hann eða segja honum fyrir verkum. Það var hans. Ekki annarra.

Á stuttum tíma var hjónaband og barn komið til sögunnar. Um leið breyttist allt. Ef ég hegðaði mér ekki nákvæmlega eins og til var ætlast gat allt orðið vitlaust. Í fyrsta skipti fékk ég uppnefni eins og drusla, hóra, slut. Það var öskrað á mig, mér jafnvel hrint og það fyrir framan börnin. Líf mitt var að breytast í martröð.

Samt stóð ég með honum eins og ég gat. Hjálpaði til við útgáfu geisladisks, sýndi fullan skilning á að tónlistarmenn þyrftu að semja tónlist og halda tónleika. Jafnvel þótt það kæmi úr eigin vasa. Skuldirnar hrönnuðust upp.

Það skall á kreppa. Ég sagði hingað og ekki lengra. Ekki meira peningaaustur í tónlist og erlenda hljómlistarmenn. Kannski var það málið sem gerði útslagið. Ég var að hindra hann í því sem hann vildi gera. Auðvitað hélt hann áfram að greiða fyrir tónlist frá erlendum tónlistarmönnum – bara á bak við mig. Meðan reikningarnir féllu og fóru í lögfræðinga. Heimilið skipti greinilega minna máli en hans vilji.

Það var orðið stríðsástand á heimilinu og því varð að ljúka. Mitt líf snérist um heimilið og börnin – hans um tónlist og sinn frama. Ég stóð orðið í veginum fyrir honum. Öll ástin sem hann hafði tjáð mér var farin. Sennilega hafði hún aldrei verið til staðar af hans hálfu. Ég var bara aumingi í hans augum. Aumingi sem ekki gat séð fyrir heimilinu lengur, enda illa farin á taugum.

Þegar ég sendi hann í burtu og skipti um skrá á útidyrahurðinni byrjaði eitthvað ferli sem ég hefði vissulega getað gert mér grein fyrir. Sumir vilja fá sínu framgengt með góðu eða illu. Næsta skref var hatrömm forsjárdeila. Ég treysti mér ekki til að deila forræði með manni sem alltaf mundi nota sinn rétt gegn mér. Ég sá fyrir mér eilífðar fangelsi og baráttu um ókomna tíð. Ég hafði líka áhyggjur af barninu. Var full viss að hann mundi taka næsta hring. Sjarmera konu, flytja inn, gera allt vitlaust. Barnið mitt þyrfti að vera áhorfandi af þessu. Jafnvel oft.

En ég hef lært. Það kemur sjarmerandi maður inn í líf manns sem lofar gulli og grænum skógum. Hann er skuldugur og býr hjá foreldrum en vill komast í “eigið” húsnæði. Vill vera með konu. Hefur farið svo illa útúr lífinu þar sem fyrri konur voru geðveikar. Þá kem ég til með að taka til fótanna.

 



Þekkirðu rétt þinn?

Við fæðumst öll inn í þennan heim - púmms - hvort sem við viljum eða ekki. Uppfrá þeirri stundu höfum við rétt til að lifa. Ósjálfbjarga eins og við erum í fyrstu verðum við að treysta á aðra til að framfylgja þessum rétti okkar þar sem við getum ekki nært okkur sjálf (eða skipt á kúkableyjum).

Þegar við verðum ögn eldri tekur við t.d. réttur til náms. Hér er það nú kallað skylda, sem ekki hugnast öllum - en er vissulega til góðs. Að vísu höfum við fátt um það að segja hverju er troðið í hausinn á okkur, bæði af kennurum og foreldrum. Þar kemur að okkur sjálfum að læra að vinsa úr mikilvægar upplýsingar frá þeim síður mikilvægari. Við erum misklár í þessu viðfangsefni - enda maðurinn jafn misjafn og hann er margur.

Allan tímann höfum við náttúrulega rétt á að hafa tilfinningar þó hann virðist misjafn eftir aldri. Þriggja ára barnið sem vill ekki lána dótið sitt fær t.d. skammir fyrir eigingirnina þó svo kannski allt annað liggi að baki. Fimm ára barnið hefur takmarkaðan rétt til að vera hrætt við myrkrið og skal samt sofa í sínu rúmi og svona heldur þetta áfram. Unglingar þykjast þó hafa ótakmarkaðan rétt á tilfinningum og tjáningum þeirra, foreldrum oft til mikillar mæðu. Þeir þykjast mega öskra, stappa niður fótum, skella hurðum, grenja óstjórnlega og taka út endalaus fýluköst. Foreldrarnir hugsa "hormónar" með mæðusvip og bíða betri tíma.

Síðan er gerð sú krafa til okkar að hafa stjórn á þessum tilfinningum. Það reynist nú þrautin þyngri fyrir marga meðan aðrir ná ótrúlegri leikni á þeirri list. Gleði, hamingja og ást eru mjög viðurkenndar tilfinningar og leyfast alltaf og allstaðar. Sorg, reiði og óhamingja eru ekki eins vinsælar, en leyfast í ákveðnum tilfellum í ákveðinn tíma. Síðan þarf viðkomandi að ná stjórn yfir þessum tilfinningum - gjörsovel. Reiði, hatur og illska eru almennt ekki viðurkenndar og rétt eins gott að manneskjan nái stjórn á þessum meingölluðu tilfinningum fljótt og vel - annars er voðinn vís.

Gott og vel. Við höfum líka rétt á að það sé komið vel fram við okkur. Okkur sé sýnd tillitsemi og virðing. Þetta er líka svolítið sem sumir geta átt erfitt með - sérstaklega fólkinu sem á erfitt með að hemja forboðnu tilfinningarnar. En þá megum við ALLS EKKI gleyma að við höfum líka rétt á því að láta vera að umgangast það fólk sem kemur illa fram við okkur. Þetta virðist líka vandmeðfarinn lærdómur eins og sannast í mörgum slæmum samböndum sem virðast getað haldið áfram von úr viti þó svo annar aðilinn sé bókstaflega traðkaður niður af hinum. Þá er nauðsynlegt að þekkja rétt sinn til að koma sér útúr þannig vitleysu.

Jæja - tökum þá réttinn til tjáningar. Við höfum líka öll rétt á því að tjá okkur. Höldum við allavega. Samt virðist oft sem ætlast sé til að við tjáum okkur bara um rétt málefni. Góðar og gleðilegar tilfinningar. En Guð gleypi okkur ef við erum að tjá okkur um vandamál, vanmátt eða vanlíðan. Þá virðist það gleymast að tjáning á þessháttar er einmitt nauðsynleg til að komast aftur yfir í góðu og skemmtilegu tilfinningarnar.

Svo kemur að því að tjá sig um aðra. Það mega allir tjá sig um það góða hjá öðrum, það er mjög viðurkennt og vinsælt. Helst að hæpa upp fólk og hefja það á stall. Það hentar mörgum mjög vel. En það vandast málið ef maður tjáir sig um fólk sem hefur á einhvern hátt slæma framkomu. Sérstaklega sérstaklega ef hún kemur niður á öðrum. Ef sá tjáir sig um málið getur aðilinn orðið öskrandi vitlaus og hótað jafnvel öllu illu.  Þó svo sami aðili sé fullkomlega sáttur við hrós og smjaður.

Svo kemur að þessu flókna. Fólk sér vissulega umhverfið með mismunandi gleraugum. Sumir sjá rétt þar sem aðrir sjá rangt. Sumir túlka óeðlilega hegðun sem fullkomlega eðlilega. Sumir túlka eðlilega hegðun sem óeðlilega. Sumir kjósa að sjá bara það góða og loka augunum fyrir öllu öðru. Sumir kjósa að túlka allt sem illindi og skæruliðahernað.

Vá hvað lífið getur verið flókið.

Það er eiginlega bara til ein lausn. Það er að reyna að þekkja sjálfan sig og viðurkenna bæði kosti sína og galla. Vera heiðarlegur við sjálfa sig og aðra. En það getur nú verið það flóknasta af öllu.

Allavega er ein staðreynd.

Ég hef rétt á því að skrifa þennan pistil og þú hefur rétt á því að velja hvort þú lest hann eða ekki.

 


Dásamlegur eiginmaður - eða.....

Það hafði ýmislegt gengið á þetta sumarið. Eiginmaðurinn (þurr alki eða dry drunk eins og það kallast) hafði trompast allavega þrisvar, ætt út með látum og dottið í það. Hennar vörn var orðin sú að láta sig hverfa til að forðast vandræði þegar hann kæmi heim, öskureiður og jafnvel útúrfullur.

Í síðasta skiptið þetta sumar hafði hún fengið fósturfaðir hans til að keyra sig uppí sveit til vinnufélaga sinna. Þeim vissulega blöskraði ástandið sem hún var í en tóku henni opnum örmum.

Daginn eftir hringdi hann - sagðist þurfa hjálp. Vissulega var hún reiðubúin til að hjálpa honum vildi hann leyta sér hjálpar. Hann kom í sveitina til hennar og dóttur þeirra seinna þetta sama kvöld. Fékk kannski ekki þær viðtökur sem hann hefði kosið frá öllum, en við hverju var að búast. Seinna krafðist hann líka að hún hætti störfum hjá fyrirtækinu.

Einhverju seinna komst hún að því að hann hefði þetta kvöld verið hringjandi í alla kvenmenn sem honum datt til hugar að komast nálægt. Hans skýring var sú að "hann hefði verið farinn". Þó svo hann hefði verið mættur aftur degi síðar. Hann neitað ekki, enda kom það fram í símanum hans og eins hafði hún fengið upphringingu.

Henni fannst þetta óendanlega sárt. Það vildi svo til að sökum hans vandamála með áfengi og annað hafði hún algerlega látið slíkt eiga sig. Ekki að það væri vandamál. En þetta kvöld lét hún það sem vind um eyru þjóta. Hún fékk sér tvo bjóra - var gjörsamlega niðurbrotin. Það sem hún kannski áttaði sig ekki á var að tveim dögum áður hafði henni verið ávísað lyf vegna mikillar vöðvabólgu. Voltaren Rapid og Diezepam. Þessa samsetningu hafði hún aldrei tekið áður og síst hefði henni grunað að áfengi væri hættulegt ofan í þessi lyf. Maðurinn hennar, sem hafði á árum áður kynnst allri lyfjaflórunni vegna fíkniefnaneyslu hefði kannski getað varað hana við.

Það var áliðið á laugardagskvöldi. Litla dóttirin var sofnuð og eiginmaðurinn sat frammi í eldhúsi við tölvuna. Henni leið illa - fannst hún svikin. 

En eftir að hafa drukkið þessa tvo bjóra fór henni skyndilega að líða mjög illa. Það var henni ekki eðlilegt að finna þessa líðan. En seinna komst  hún að því að þessi lyf voru vissulega varhugaverð og alls ekki þess eðlis að neitt áfengi ætti með þeim. En þess hafði hún heldur ekki neitt lengi.

Hún gekk fram úr stofunni til að biðja manninn sinn um aðstoð sökum vanlíðan sinnar, en hné niður á ganginum. Mátturinn hvarf úr fótunum. Svo hún kallaði til hans.

Hann kom og leit á hana fyrirlitningaraugum. Náði síðan í símann og hringdi á 112. Sagði að konan sín hefði verið að drekka ofan í lyf og hann þyrfti aðstoð. Síðan gekk hann aftur inn í eldhús og lét hana liggja.

Þar sem ástandið var nú ekki alvarlegt bráði af henni fljótt og hún kom sér inn í rúm. Í hálfgeru losti yfir því sem hún hafði orðið vitni að.

Skömmu síðar kom lögreglan. Þeir komu inn til hennar og hún skýrði þeim frá atburðum kvöldsins. Þeir töluðu við manninn og fengu lyfjaglasið. Eins og eðlilegt er með lyf stóð á glasinu hvenær það hefði verið ávísað og hversu margar töflur ætti að taka hvern dag. Það var því ekki erfitt að sjá að því hefði verið fyllilega fylgt eftir. Ekkert hættuástand hefði getað skapast enda konan með fullri rænu.

En þetta kvöld dó eitthvað innra með henni. Hver gerir svona hluti og til hvers? Var þetta ást og umhyggja? Eða afskaplega reiður einstaklingur sem hafði verið fundinn sekur um eitthvað og ákvað að hefna sín. 

Þetta var allavega ekki eitthvað sem hún gat skilið. Aldrei - aldrei, hefði henni dottið svona lagað til hugar.

Rúmu ári seinna þegar hún nálgaðist lögregluskýrsluna láku tárin niður eftir kinnum hennar. Henni datt ekki til hugar að nota hana í neinum tilgangi, heldur reif hana og henti.

Og aldrei skyldi barnið hennar fá að vita af þessum atburði. Litla fallega barnið sem svaf værum svefni á meðan á þessu stóð.

En einu kynntist hún þetta kvöld. 

Hreinni mannvonsku.

 


Gone with the wind

Hann birtist allt í einu og stóð við hliðina á mér - og brosti. Ég hef örugglega brosað til baka. Dansgólfið var yfirfullt af fólki sem skemmti sér konunglega. En á þessari stundu sáum við bara hvort annað. Við dönsuðum. Við töluðum. Við hlógum.

Næsta morgun vaknaði ég í fanginu á honum. Hann brosti ennþá.

Stuttu síðar hvarf hann út í bjartan morguninn. Hvort við sjáumst aftur veit ég ekki. En það skiptir ekki máli.

Stundir sem eru fullar af gleði og samkennd eru alltaf þess virði. 

Í lífi hvers einstaklings eru góðar stundir og slæmar stundir. Fólk kemur inn í líf þitt og það fer.

Okkar stutta stund var góð og bara góð. Þó svo hún verði síðan ekkert annað en minning - þá er það góð minning.

Góðu minningarnar og allt það fallega og góða í lífinu gera það þess virði að vera til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband